Pétur Ingvason fæddist í Reykjavík 4. ágúst 1933. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Mörk 27. maí 2012.

Útför Péturs Ingvasonar fór fram frá Fella- og Hólakirkju 4. júní 2012.

Mig langar með nokkrum orðum að minnast Péturs frænda míns en af mörgu er að taka og margs að minnast. Ég er þakklát fyrir þennan hlýja og sterka frænda sem var mér jafnframt föðurímynd. Allt frá því að ég var lítil stelpa spilaði Pétur frændi stórt hlutverk í lífi mínu. Pétur var móðurbróðir minn en mikill samgangur var á milli systkinanna. Ég minnist þess að þegar Pétur átti að skutla mér í leikskólann fór sú ferð oftar en ekki þannig að ég neitaði að fara inn og endaði á rúntinum með honum. Ég gleymi seint þegar Pétur fór eitt sinn utan og færði mér minn fyrsta dúkkuvagn. Eitt sinn skar ég mig á vör, Pétur var þá snöggur til og við lokuðum okkur inni í borðstofu og hann gerði að sárinu þar. Hann sýndi því mikinn skilning að ég vildi ekki fara upp á sjúkrahús, þar sem honum var sjálfum ekki vel við lækna, og þessu til minningar ber ég „péturssporið“.

Eftir að ég kynntist manninum mínum bjó ég úti á landi. Við komum svo suður þegar maðurinn minn fór í nám og bjuggum þá í sama húsi og Pétur og Ella, alltaf var hlýja og væntumþykja allsráðandi hjá þeim hjónum. Ég á ákaflega góðar minningar af Ránargötunni og úr Unufellinu. Um leið og ég þakka mínum kæra frænda fyrir samfylgdina sendi ég Ellu og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Lilja Ósk Þórisdóttir.