Sementsflutningaskip Norska flutningaskipið sem lagðist að bryggju á Akranesi síðastliðinn þriðjudag.
Sementsflutningaskip Norska flutningaskipið sem lagðist að bryggju á Akranesi síðastliðinn þriðjudag.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Gunnar Sigurðsson: "Íslenskt sement heyrir sögunni til, í bili að minnsta kosti."

Þegar norskt flutningaskip lagðist að bryggju á Akranesi síðastliðinn þriðjudag hlaðið norsku sementi má segja að staðfest hafi verið mikil afturför í íslenskum iðnaði og um leið atvinnusögu Akraness. Íslenskt sement heyrir sögunni til, í bili að minnsta kosti. Reyklaus strompur Sementsverksmiðjunnar verður minnismerki um slæma þróun í atvinnumálum á Akranesi og dæmi um ótrúlegt sinnuleysi stjórnvalda, sem stóðu ekki vörð um rekstur verksmiðjunnar.

Slíkt sinnuleysi sýndu stjórnvöld einnig þegar E-deild sjúkrahússins á Akranesi var lokað á dögunum. Fjölmargir starfsmenn hafa fyrir vikið misst vinnuna á báðum þessum vinnustöðum. Títtnefndar skjaldborgir í hugskotum vinstrimanna duga ekki þessu fólki frekar en öðrum.

Við slíka atburði sem ég hef nefnt hér að framan léttir það hins vegar lundina að fylgjast með fyrirtækjum í bæjarfélaginu sem gera það gott þessa dagana. Þar má nefna Skagann hf. og Þorgeir og Ellert hf. sem nýverið tóku að sér risavaxin verkefni innanlands og utan sem skapa fjölda starfa. Ekki má heldur gleyma Akraborg ehf. og Vigni Jónssyni ehf. en bæði hafa þau fyrirtæki sérhæft sig í niðursuðu fiskafurða og náð eftirtektarverðum árangri í markaðssetningu. Fleiri smærri fyrirtæki mætti nefna sem gera það gott þessa dagana hér á Skaga, sem betur fer. Þessi fyrirtæki að ógleymdri starfseminni á Grundartangasvæðinu hafa sjaldan eða aldrei verið okkur Akurnesingum mikilvægari en einmitt nú þegar stjórnvöld leggja stein í götu allra góðra hugmynda í atvinnumálum.

Höfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akranesi.