— Morgunblaðið/Ómar
Kristján Jónsson kjon@mbl.is Kvótafrumvörpum ríkisstjórnarinnar var harðlega mótmælt á fjölmennum fundi á Austurvelli í gær, þess var krafist að haft yrði samráð við hagsmunaaðila.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Kvótafrumvörpum ríkisstjórnarinnar var harðlega mótmælt á fjölmennum fundi á Austurvelli í gær, þess var krafist að haft yrði samráð við hagsmunaaðila. Bent var á að í umsögnum fjölda aðila hefði komið fram eindregin gagnrýni á frumvörpin, þau gætu grafið undan mörgum sjávarútvegsfyrirtækjum og komið þeim á vonarvöl. Fyrirhugað gjald fyrir veiðiheimildir væri allt of hátt og myndi auk þess aðallega verða landsbyggðarskattur.

Hátt í sjötíu fiskiskipum var siglt til Reykjavíkur til þess að sjómenn gætu tekið þátt í fundinum ef þeir vildu. Mikill hiti var í mörgum fundarmönnum en hópur fólks sem sagði útvegsmenn ekki hafa neinn einkarétt á veiðikvótum, boðaði einnig til fundar á sama stað. Mikið var um frammíköll og púað var á suma ræðumenn.

Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri í Grýtubakkahreppi, sagði að Grenivík væri lítið þorp, þar væri mikil náttúrufegurð en fólkið þyrfti líka að hafa sitt lífsviðurværi. „Eru Íslendingar ekki búnir að fá nóg af gjaldþrotum?“ spurði Guðný.

Allir í sáttanefndinni ósáttir við tillögurnar

Adolf Guðmundsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, rifjaði upp að svonefnd sáttanefnd hefði með starfi sínu lagt grunn að endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. „En frá því að nefndin lauk störfum haustið 2010 hefur ekkert samráð verið um málið,“ sagði Adolf. „Ríkisstjórnin hefur ein unnið frumvörp sem allir aðilar að sáttanefndinni eru ósáttir við.“

Árni Bjarnason, formaður Farmanna- og fiskimannasambandsins, sagði m.a. að erfitt gæti reynst að ná samningum um kaup og kjör við útvegsmenn ef frumvörpin færu í gegn, svo mikill yrði vandinn vegna veiðigjaldsins. Hann gagnrýndi óbeint ummæli Sævars Gunnarssonar, formanns Sjómannasambands Íslands, en Sævar sagði í vikunni að útvegsmenn beittu starfsmenn sína þvingunum til að fá þá til að taka þátt í fundinum. „Ég vísa því alfarið til föðurhúsanna að stjórn sambandsins sé hér að mótmæla vegna þrælsótta við útgerðarmenn,“ sagði Árni.

Samstöðufundur 22-23