Í aðgerð 46 læknar útskrifast í ár.
Í aðgerð 46 læknar útskrifast í ár.
Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is Hátt í 400 nemendur hafa skráð sig í inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfun í Læknadeild Háskóla Íslands sem fer fram í næstu viku. 307 þreyta inntökupróf í læknisfræði fyrir komandi haust og 63 í...

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Hátt í 400 nemendur hafa skráð sig í inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfun í Læknadeild Háskóla Íslands sem fer fram í næstu viku. 307 þreyta inntökupróf í læknisfræði fyrir komandi haust og 63 í sjúkraþjálfun. Af þeim komast 48 nemendur í lækninn og 25 í sjúkraþjálfun.

Guðmundur Þorgeirsson, deildarforseti læknadeildar, segir að fjöldinn í inntökuprófinu nú sé svipaður og í fyrra en þó ívið meiri. „Fjöldinn í inntökuprófið hefur aukist mikið undanfarin ár en milli síðustu tveggja ára er ekki veruleg aukning. Það hefur orðið gríðarleg fjölgun í háskólanámi og við erum að fá okkar hlutfall af því,“ segir Guðmundur.

46 nemendur úrskrifast úr læknadeildinni nú í vor og 48 verða teknir inn í haust. Guðmundur segir þessa tölu hafa verið þá sömu í mörg ár.

„Fjöldinn miðast fyrst og fremst við afkastagetu deildarinnar. Það er mikið verklegt nám í læknisfræðinni og það er hámark á því hvað margir geta farið í gegnum það í einu. Talan sem er valin fyrir inntökuna ræðst af afkastagetunni í verklega náminu.“

Þarf að laga starfsskilyrðin

Nokkuð hefur verið rætt um læknaskort í landinu, sérstaklega í heimilislækningum. Guðmundur segir að það muni ekki leysa þann vanda að taka fleiri nema inn í læknisfræðina. „Eins og staðan er núna getum við ekki annað fleiri nemum. Ég held að það sé almenn skoðun að lausnin á vanda íslenskrar heilbrigðisþjónustu með starfsmenn er ekki að fjölga útskrifuðum læknum. Nánast allir okkar læknar fara úr landi til framhaldsnáms og það er áhyggjuefni að þeir virðist ekki skila sér heim í sama mæli og áður. Af ýmsum ástæðum eru okkar störf ekki fyllilega samkeppnishæf við störf í mörgum öðrum löndum. Lausnin er ekki að mennta fleiri og fleiri lækna, lausnin er frekar sú að skapa þannig skilyrði að störfin séu samkeppnishæf.“

Guðmundur segir að til að bæta stöðuna þurfi að laga starfskilyrðin á heilbrigðisstofnunum. „Til viðbótar við kjarastöðuna hefur það áhrif hversu mikið basl er á heilbrigðisstofnunum landsins. Við erum í úlfakreppu með marga hluti; tækjabúnað, aðstöðu og margt fleira.“

Sjö komast inn í tannlækningar

Í stétt tannlækna hefur einnig verið rætt um yfirvofandi tannlæknaskort. Inn í tannlæknadeild Háskóla Íslands komast sjö nemendur ár hvert. „Síðasta haust voru skráðir um 60 nýnemar. Eftir fyrstu önnina er próf og þá komast sjö hæstu áfram. Þetta fyrirkomulag hefur verið í áratugi,“ segir Teitur Jónsson forseti tannlæknadeildar.

Ekki hefur verið í umræðunni að taka fleiri inn í tannlæknanámið. „Það er ekki hægt að fjölga nemendum nema að stækka deildina og fjárfesta í tækjum. Í tengslum við byggingu á nýjum Landspítala er búið að hanna nýja tannlæknadeild og þar er ekki gert ráð fyrir stærri deild og er nú. Það hefur enginn séð þörf fyrir stækkun á deildinni.“

Teitur segir að tannlæknar flytji nú í auknum mæli til útlanda vegna minnkandi kaupgetu hjá almenningi og minnkandi framlaga frá hinu opinbera. „Þeir flytja út því kúnnahópurinn er ekki eins öflugur að kaupa af þeim þjónustu. Starfsemi tannlækna er einkarekin, byggist á frjálsum markaði sem er að dragast saman. Afleiðingin er sú að tannlæknar flytja út og því verður skortur á þeim. Svarið er ekki að mennta fleiri tannlækna því þá værum við að mennta þá fyrir útlönd. Deildin uppfyllir þær þarfir sem þjóðin hefur fyrir tannlækna, það eru bara aðrir þættir sem eru að rugga bátnum.“