Björgvin Guðmundsson
Björgvin Guðmundsson
Eftir Björgvin Guðmundsson: "Lágmarkskjarabætur til handa öldruðum og öryrkjum er 20% hækkun lífeyris strax vegna kjaraskerðingar á kreppuárunum og afturköllun ráðstafana 2009"

Þegar ríkisstjórn Samfylkingar og VG tók við völdum 2009 lýsti hún því yfir, að hún ætlaði að koma hér á norrænu velferðarsamfélagi. Það þýddi, að ætlunin væri að efla almannatryggingar og heilbrigðiskerfið. Nú, þremur árum síðar, er staðan þannig, að almannatryggingarnar og heilbrigðiskerfið hafa sætt mikilli skerðingu. Ísland hefur því fjarlægst norræna velferðarsamfélagið á þessum þremur árum en ekki nálgast það.

Kreppunni er lokið á Íslandi

Verulegur hagvöxtur varð hér sl. ár. Þess vegna hefði strax á síðasta ári átt að leiðrétta skerðingar í velferðarkerfinu. En ekkert bólar á slíkum leiðréttingum. Velferðarráðuneytið og formaður stjórnar TR halda því hins vegar fram, að kjör bótaþega almannatrygginga hafi batnað meira undanfarin ár en kjör launþega. Á sama tíma og samtök aldraðra og öryrkja krefjast leiðréttingar vegna kjaraskerðingar kreppuáranna halda velferðarráðuneytið og formaður stjórnar TR því fram, að tekist hafi að verja kjör bótaþega í kreppunni. Það stenst ekki, þar eð eins og ég sýndi fram á í grein hér í Mbl. 23. maí sl. hafa kjör bótaþega dregist aftur úr í launaþróuninni sl. 3 ár. Lægstu laun hafa hækkað um 33% sl. 3 ár en bætur verst stöddu bótaþega hafa hækkað um 12,8%. Það vantar því mikið á að bótaþegar hafi haldið í við launþega. Engir vita betur en aldraðir og öryrkjar sjálfir hvernig kjör þeirra eru. Þeir finna það á eigin skinni. Velferðarráðuneytið einblínir á lágmarksframfærslutryggingu lífeyrisþega en það er mjög villandi viðmið, þar eð mjög fáir fá fulla lágmarksframfærslutryggingu. Á árinu 2011 nutu aðeins 279 ellilífeyrisþegar fullrar lágmarksframfærslutryggingar (framfærsluviðmiðs).

Helsta leiðréttingin á bótum almannatrygginga, sem átt hefur sér stað á valdatíma ríkisstjórnarinnar, er hækkun bóta 2011 í tengslum við nýja kjarasamninga. Sú leiðrétting gerðist þannig, að kjaramálanefnd Landssambands eldri borgara fékk ASÍ til þess að taka málið upp við ríkisstjórnina. ASÍ krafðist þess, að tryggingabætur mundu hækka jafnmikið og laun og á það féllst ríkisstjórnin. Mér er til efs, að bætur hefðu hækkað nokkuð 2011, ef ASÍ hefði ekki knúið þessa kröfu fram, a.m.k. ekki ef velferðarráðherra hefði mátt ráða. Velferðarráðherra tókst þó að klípa örlítið af þeirri hækkun sem bótaþegar áttu rétt á 2011. Frammistaða velferðarráðherra í velferðarmálum er því ekki til þess að hrópa húrra fyrir. Hins vegar hefur stefnan í skattamálum verið hagstæð láglaunafólki, þar eð skattar hafa hækkað minna eða ekki neitt hjá hinum lægst launuðu en hækkað meira hjá þeim,sem hærri hafa launin.

Ef ríkisstjórnin ætlar að standa undir nafni og framkvæma loforð sitt um, að koma hér á norrænu velferðarsamfélagi verður hún strax að byrja að veita kjarabætur til handa öldruðum og öryrkjum og gera aðrar endurbætur á almannatryggingum. Lágmarkskjarabætur til handa öldruðum og öryrkjum er 20% hækkun lífeyris strax vegna kjaraskerðingar á kreppuárunum og afturköllun kjaraskerðingar frá 2009. Brýnt er að draga strax úr tekjutengingum, einkum skerðingu tryggingabóta vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum. En eins og Ásmundur Stefánsson, fyrrv. forseti ASÍ, sýndi fram á fyrir skömmu fær lífeyrisþegi, sem hefur 70 þús.kr. úr lífeyrissjóði á mánuði ekkert meira úr tryggingakerfinu (lífeyrissjóði og TR) en sá, sem aldrei hefur greitt neitt í lífeyrissjóð. Það er skýlaus krafa eldri borgara að þeir, sem voru sviptir grunnlífeyri 1. júlí 2009 fái hann strax aftur að öðru óbreyttu. Stór hópur ellífeyrisþega var strikaður út úr kerfi almannatrygginga enda þótt þeir hinir sömu hefðu greitt til almannatrygginga beint og óbeint alla sína starfsævi. Það stenst ekki lög.

Velferðarráðuneytið hefur skipað starfshóp til þess að endurskoða kerfi almannatrygginga. Ráðuneytið hefur markað þá stefnu að breyta eigi kerfi almannatrygginga, sameina bótaflokka og fækka þeim en ekki eigi að hækka lífeyri aldraðra og öryrkja almennt. Það, sem sést hefur af tillögum starfshópsins, leiðir í ljós, að ekkert á að hækka lífeyri lífeyrisþega almennt í ár og ekkert á næsta ári umfram það, sem kjarasamningar segja til um. Þessu hafa kjaramálanefnd LEB og kjaranefnd FEB mótmælt og krafist þess, að það verði forgangsverkefni í starfshópnum að bæta kjörin almennt hjá lífeyrisþegum. Öryrkjabandalag Íslands stendur svo fast á þessari kröfu, að bandalagið mætir ekki í starfshópnum fyrr en kjörin hafa verið leiðrétt. Ég tel, að Landssamband eldri borgara ætti að gera það sama. Formaður LEB hefur sett mjög harða fyrirvara við afgreiðslur mála í starfshópnum, svo harða, að samþykki formanns við afgreiðslu mála í starfshópnum 4. nóvember sl. er að mínu mati fallið brott.

Velferðarráðuneytið og ríkisstjórnin í heild verður að breyta um stefnu í velferðarmálum, ef stjórnin ætlar að geta horft framan í kjósendur í næstu kosningum. Fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar leiðir í ljós, að ríkisstjórnin getur gert góða hluti. Stjórnin getur enn leiðrétt stefnu sína í velferðarmálum. Hún á að gera það strax.

Höfundur er viðskiptafræðingur og formaður kjaranefndar FEB.