Arndís Lára Tómasdóttir fæddist í Reykjavík 10. febrúar 1932. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 20. maí 2012.

Útför Arndísar fór fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju 29. maí 2012.

Laddý var vinkona mömmu og við eigum margar minningar um hana frá því við vorum að alast upp. Það var gaman að fylgjast með þeim Laddý og mömmu sökkva sér ofan í ýmis baráttumál og oft svo mikið í gangi. Laddý var ein af fáum útvöldum sem fengu að reykja heima hjá okkur án áróðursræðu frá okkur stelpunum, af því það var hún.

Það var alltaf svo hlýlegt að vera nálægt Laddý og hún veitti okkur alltaf athygli. Henni fylgdi svo mikil glaðværð og hún bar virðingu fyrir börnum, okkur fannst við vera fullgildar manneskjur og að hún væri vinkona okkar líka, þótt við værum bara börn. Laddý og Gæi urðu síðan hálfgerðir staðgenglar ömmu og afa fyrir okkur systurnar. Feimnar spurðum við hvort við mættum kalla þau afa og ömmu eins og hinir krakkarnir. Þannig var Laddý, afar góðhjörtuð og blíð kona og alltaf var stutt í hláturinn. Svona amma eins og alla langar að eiga.

Alltaf var Laddý til taks fyrir mömmu og okkur öll og var mikill samgangur á milli fjölskyldna okkar. Við vorum þar oft við hátíðleg tækifæri eins og á afmælum, jólum og á gamlárskvöld. Þá var stórfjölskyldan samankomin í Kotinu og það var nú mikið fjör og margir krakkar. Húsnæðið var ævintýralegt, allt umhverfið eitt leiksvæði og nálægðin við sjóinn svo heillandi. Laddý var okkur svo góð og alltaf reiðubúin að hjálpa til við allt sem til féll, hvort sem það var saumaskapur, aðstoð í veislum, redda kjól fyrir fiðluball í menntaskóla eða stytta pils eða buxur á síðustu stundu.

Við heimsóttum Laddý á sjúkrahúsið fyrir stuttu og hún spurði frétta af okkur og börnunum. Þrátt fyrir veikindin hló Laddý dátt, brosti allan tímann og vildi halda í höndina á okkur til skiptis. Þannig munum við hana, hláturinn hennar og hlýjuna sem hún sýndi okkur þótt sárþjáð væri sjálf. Með þessum fátæklegu orðum viljum við þakka henni allt sem hún var okkur.

Guðrún Ösp (Dúnna)

og Ragnheiður.