[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Adidas leggur sem fyrr til keppnisboltann fyrir Evrópumótið í Póllandi og Úkraínu. Tangó-mynstrið er komið aftur, fagurkerum til ómældrar gleði.

Í meira en 40 ár hefur þýski framleiðandinn Adidas séð stórmótum knattspyrnuheimsins, HM og EM, fyrir keppnisboltanum sem notaður er á þessum stærstu leiksviðum landsliðaknattspyrnunnar. Eins og hæfir liggur ríkulegur skammtur af þýsku hyggjuviti og hárnákvæmni að baki hönnuninni enda telst ávallt viðburður þegar Adidas sviptir hulunni af mótsboltanum.

Sjónvarpsstjarnan Telstar

Hver man ekki eftir klassíska útlitinu með hvítum sexhyrningum og svörtum fimmhyrningum? Hönnunin var kynnt til sögunnar fyrir HM 1970 og aftur notuð í endurbættri útgáfu á EM 1972 og 1976. Mynstrið var sérhannað til að hreyfing boltans skilaði sér sem best í sjónvarpsútsendingum, enda kallaðist týpan Adidas Telstar, sem er einfaldlega stytting á „television star“. Fljótlega vildu allir Lilju kveðið hafa og mynstrið varð að viðtekinni venju um allan heim – öðruvísi boltar þóttu eiginlega bara skrýtnir.

Tangó tekur yfir leikinn

Þegar blásið var til leiks á HM 1978 í Argentínu var Adidas Tango kominn fram á sjónarsviðið. Höfðu margir á orði að hér væri komin ein fallegasta mynsturhönnun sem sést hefði á fótbolta frá upphafi, mynstur sem trauðla yrði betrumbætt. Tangóinn varð líka lífseigur á stórmótum í framhaldinu og rataði í mörkin á EM árið 1980 og á fjögurra ára fresti í tæpan aldarfjórðung, allt til ársins 2002. Í kjölfar EM 2000 ákvað Adidas nefnilega að leggja tangómynstrinu og kynnti bolta að nafni Fevernova til sögunnar á HM í Japan og Suður-Kóreu.

Áratugur alls konar tilrauna

Mæltist boltinn misjafnlega fyrir, leikmenn höfðu í fyrstu afskaplega takmarkaða stjórn á honum og fyrir bragðið voru sóknarmenn jafnt sem markmenn heldur úti á þekju til að byrja með. Við tók röð sérkennilegra mótsbolta með skrýtin mynstur, sérkennileg nöfn – Roteiro, Teamgeist, EuroPass og Jo'bulani – og eiginleika sem leikmenn á stórmótum kvörtuðu oftar en ekki undan. Þegar út spurðist að Adidas hygðist endurvekja Tangóinn fyrir EM 2012 tóku leikir sem lærðir gleði sína á ný og ekki að ósekju – boltinn er hinn laglegasti að sjá.

Tækniundrið Tango | 12

Adidas Tango|12 er hátæknibolti þar sem mynstrið byggist á klassíska útlitinu, en útfærslan er stórgerðari og útlínurnar skarta fánalitum gestgjafaþjóðanna; hvítt og rautt fyrir Pólland, gult og blátt fyrir Úkraínu. Menn bæði og maskínur prófuðu boltann linnulaust í tvö ár fram að móti, ásamt því að hvert landslið sem tekur þátt í lokakeppni EM 2012 fékk 30 stk. af boltanum með hálfs árs fyrirvara til að æfa sig á. Það er líka af sem áður var, er fótbolti var samsaumur af leðurpjötlum. Tango|12 samanstendur af bútum sem eru hitalímdir saman til að lágmarka misfellur, og dregur þannig úr líkum á óreglulegu flugi. Þá er mynstrið upphleypt til að skapa betra viðnám við skó leikmanna sem gerir þeim aftur kleift að stýra boltanum betur. Þá er efni og bygging boltans sérhönnuð til að halda lofti sem best inni og vatni úti.

Tango|12 verður heimilisvinur áhugafólks um fótbolta út mánuðinn enda sá eini sem tekur þátt í hverjum einasta leik á EM 2012.