Þverun Siglt verður með efni á pramma í fyllingar í Mjóafirði og Kjálkafirði.
Þverun Siglt verður með efni á pramma í fyllingar í Mjóafirði og Kjálkafirði. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Við erum byrjaðir að flytja vinnubúðir og tæki vestur,“ segir Dofri Eysteinsson, forstjóri Suðurverks. Reiknar hann með að verklegar framkvæmdir hefjist við lagningu Vestfjarðavegar í Múlasveit í næstu viku.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Við erum byrjaðir að flytja vinnubúðir og tæki vestur,“ segir Dofri Eysteinsson, forstjóri Suðurverks. Reiknar hann með að verklegar framkvæmdir hefjist við lagningu Vestfjarðavegar í Múlasveit í næstu viku. Það er stærsta vegagerðarverkefni næstu ára.

Fyrsta verkið verður að gera veg út að sjó í Kjálkafirði og útskipunaraðstöðu fyrir efni. Prammi verður síðan notaður til að flytja efnið út á fyrirhugaða vegfyllingu yfir fjörðinn. Það verður sett út í lögum þannig að botnlögin nái að jafna sig og geti borið veginn og brúna. Þegar vegfyllingin verður komin upp úr sjó verður brúin byggð á þurru landi en grafið undan henni þegar hún verður tilbúin. Mest af efninu kemur úr skeringum á nýja vegstæðinu en einnig úr námum.

Vegurinn verður seinna lagður yfir Mjóafjörð með sömu aðferð.

Dofri hefur unnið að fjölbreyttum verkefnum og er ekki ókunnugur vegfyllingum sem þannig eru gerðar. Nefnir hann Dýrafjarðarbrúna sem Suðurverk vann að með Klæðningu. „Þetta eru mikið vegskeringar og við þurfum að sprengja töluvert af klöpp. Það höfum við allt gert áður. Við höfum ekki haft brúargerð með höndum fyrr en erum með öflugan undirverktaka í því.“

Verpti ekki í vor

Umhverfið er viðkvæmt og heyrðust gagnrýnisraddir þegar Vegagerðin var að undirbúa verkið. Skilyrði voru sett um að ekki mætti trufla arnarvarp. Það verður ekki vandamál í sumar því örn verpti ekki í vor í þeim þremur hreiðrum sem liggja ofan í nýja vegstæðinu. Dofri hefur heldur ekki áhyggjur af því að trufla. „Örninn hefur bara gaman af svona framkvæmdum. Við höfum sprengt þarna fyrir vestan fyrir annan verktaka. Þá var örn uppi í klettum og hann kom til að skoða,“ segir Dofri.

Nýi vegurinn liggur á milli Eiðis í Vattarfirði og Þverár í Kjálkafirði. Hann er 16 km að lengd, um 8 km styttri en núverandi vegur.

Samkvæmt útboði á að vera komið bundið slitlag á meginhluta leiðarinnar haustið 2014 en verkinu að ljúka ári síðar. Suðurverk tók að sér að leggja veginn fyrir tæpa 2,5 milljarða en verkið í heild kostar yfir 3 milljarða.