Ellen Svava Finnbogadóttir húsmóðir fæddist á Ísafirði 25. október 1922. Hún lést 23. maí 2012.

Foreldrar hennar voru Dagmar Una Gísladóttir, f. 20. sept. 1898, d. 21. mars 1971, og Finnbogi Ingólfur Magnússon, f. 23. júní 1898, d. 31. des. 1951. Systkini hennar eru Guðrún Margrét Finnbogadóttir, f. 19. jan. 1918, d. 10. des. 1941, Rögnvaldur Finnbogason, f. 25. okt. 1919, d. 9. júlí 1997, Kristján Finnbogason, f. 6. apríl 1926, Bogi Arnar Finnbogason, f. 10. des. 1934, Dagmar Gréta f. 13. febrúar 1936, d. 8. ágúst 1936.

Eiginmaður Ellenar var Hallgrímur Helgason, f. 24. jan. 1929, d. 9. júní 2009. Börn Ellenar eru 1) Guðrún Margrét Stefánsdóttir, f. 17. des. 1947, maki Haraldur Harrý Lárusson, þau eiga þrjú börn og fimm barnabörn. a) Ellen Hrefna, gift Ottó Winter, þau eiga tvö börn: Anna Andrea og Tómas Harrý, b) Haraldur Þór, c) Jón Magnús giftur Aneliesse, þau eiga þrjú börn: Adríana Margrét, Maríana Sofía, Victoria Camila. 2) Helgi, f. 10. mars 1954. 3) Dagmar Sesselja, f. 23. jan. 1955, maki Guðlaugur Eiríksson, þau eiga þrjú börn og þrjú barnabörn, a) Ellen Svava, gift Magnúsi Guðlaugssyni, þau eiga þrjú börn: Íris Eva, Karen Ósk, Bjarki Freyr, b) Aðalheiður Ósk, unnusti Arnar Freyr Búason, c) Eiríkur. 4) Finnbogi Ingólfur, f. 16. febrúar 1957, hann á þrjú börn, a) Egill Samson, hann á einn son: Ólafur, b) Hallgrímur, giftur Ásu Laufeyju Sigurðardóttur, þau eiga þrjú börn: Sigríður Freyja, Guðlaug María, Matthías Kári, c) Dagmar Una, gift Jónasi Haraldssyni. 5) Rögnvaldur Arnar, f. 19. feb. 1965, hann á þrjú börn, a) Guðbjörn Már, f. 12. sept. 1991, d. 11. sept. 2010, b) Sylvía Svava, c) Ragnar Helgi.

Útför Ellenar fór fram í kyrrþey 6. júní 2012.

Elskulega móðir mín. Þá er komið að leiðarlokum og margs að minnast.

Ég er svo þakklát fyrir hvað við höfum alla tíð verið miklar vinkonur, getað talað mikið saman og verið til staðar fyrir hvor aðra. Ég veit að þú lifir áfram í öðrum heimi með ástvinum þínum sem farnir eru. Minning þín lifir í hjörtum okkar.

Ég segi við þig:

Takk fyrir að gefa mér lífið.

Takk fyrir að vera alltaf til staðar.

Takk fyrir elsku þína og blíðu.

Takk fyrir að kenna mér heiðarleika.

Takk fyrir að vera yndisleg mamma og amma.

Takk fyrir að gera mig að þeirri manneskju sem ég er.

Takk fyrir allt elsku mamma mín.

Móðir mín kæra er farin á braut, til mætari ljósheima kynna.

Hún þurfti að losna við sjúk- dóm og þraut, og föður minn þekka að finna.

Vönduð er sálin, velvildin mest,

vinkona, móðir og amma.

Minningin mæta í hjartanu fest,

ég elska þig, ástkæra mamma.

Þakka þér kærleikann, hjartalag hlýtt,

af gæsku þú gafst yl og hlýju.

í heimi guðsenglanna hafðu það

blítt,

uns hittumst við aftur að nýju.

(Höf. ók.)

Ég kveð þig núna í hinsta sinn með orðunum þínum „Farðu varlega“ elsku mamma.

Þín dóttir,

Dagmar.

Nú í sumarbyrjun þegar landið tekur árstíðarbreytingum og allt líf vaknar eftir vetrardvalann kvaddi móðir mín lífið. Hún horfði björtum augum fram á þennan bjartasta tíma ársins. En skjótt skipast veður í lofti. Mamma veiktist snögglega á mánudegi og á miðvikudegi kveður hún þessa tilveru lífs síns, umvafin hlýju og kærleik ástvina þinna. Þeir voru erfiðir þessir tveir sólarhringir sem móðir mín barðist fyrir lífi sínu. Eftir situr djúpur söknuður enda var hún skemmtilegur og sterkur persónuleiki, hún mamma mín.

Mamma var fædd og uppalin á Ísafirði til 15 ára aldurs, er fjölskyldan tekur sig upp og flytur til Reykjavíkur. Mamma saknaði alltaf Ísafjarðar og minntist hans alltaf með hlýju og söknuði. Margar skemmtilegar sögur sagði hún okkur af mönnum og málefnum frá þessum fæðingarbæ sínum. Tvær systur sínar missti mamma ungar, Dagmar Gréta var aðeins sex mánaða og Guðrún Margrét lést 23 ára gömul frá tveimur ungum sonum sínum. Þessir tímar voru fjölskyldunni mjög erfiðir og minntist mamma alla tíð systra sinna með miklum söknuði og eftirsjá.

Mamma vann lengi hjá Lyfjaverslun ríkisins og þar kynntist hún mikið af góðu fólki. Góð vinkona hennar á þessum tíma var Guðrún Á. Símonardóttir og stóð hugur mömmu mjög til söngnáms. En ekki voru efni og aðstæður til þess þá. En í staðinn söng hún fyrir sjálfa sig og okkur börnin hinar fegurstu perlur og hafði hún svo fallega og hljómfagra rödd, enda var hún alltaf syngjandi.

Árið 1953 kynntist mamma föður okkar, Hallgrími Helgasyni, og giftu þau sig 12. október sama ár og þá byrjaði brauðstritið, eins og mamma sagði oft og iðulega. Börn hennar og Hallgríms urðu fjögur og fyrir átti mamma eina dóttur. Eftirvæntingin var mikil í stórri fjölskyldu þegar flutt var í nýja húsið í Kópavogi árið 1961. Á þessum tíma var Kópavogur nánast eins og sveit, búskapur stundaður víða og ævintýrin á hverju strái. Þegar við vorum börn saumaði mamma og prjónaði allt á okkur systkini, enda mikil handavinnu- og listakona og lék allt í höndunum á henni.

Fríin sem móðir mín fór í á þessum árum voru húsmæðraorlofin og var hún hrókur alls fagnaðar og tilhlökkun var mikil að komast í þetta langþráða frí. Eftir hana liggja leikrit, gamanvísur og stökur frá þessum ferðum. Mamma var mikil félagsvera og tók hún virkan þátt t.d. í starfsemi kvenfélaga.

Mamma hafði alla tíð áhuga á andlegum málefnum og var viss um að líkamsdauðinn væri ekki endir lífsins. Jarðlífið væri aðeins viss áfangi á þroskabrautinni, líkaminn væri aðeins hylki sem sálin yfirgæfi á andlátsstundinni. Ég er viss um það á andlátsstund hennar, þegar hún brosti í tvígang, að hún sá ættingja sína koma og taka sig í faðm sinn, færa henni líkn og leysa hana frá þrautum.

Mig langar að lokum að láta fylgja með ljóð frá móður minni þar sem hún minnist æskustöðva sinna.

Unaðsstundir átti hér,

þakkir ykkur færi.

Þú ávallt býrð í huga mér,

Ísafjörður kæri.

Ég þakka móður minni fyrir samveruna að sinni og Guð geymi hana.

Þinn sonur,

Helgi.

Fallin er frá mín elskulega móðir og amma barnanna minna.

Margs er að minnast í bæði gleði og sorg. Hún gaf sér alltaf tíma fyrir mig. Á góðum stundum samgladdist hún mér og á erfiðum stundum huggaði hún mig og veitti mér stuðning. Hún sá alltaf það góða í fólki og lifði samkvæmt því.

Fimmtug tók hún upp á því að skella sér í Gítarskóla Ólafs Gauks og ég man hvað hún hafði gaman af að spila á gítarinn sinn. Hún ljómaði öll þegar hún spilaði á hann og á ég mjög góðar minningar af henni spilandi þar sem hún brosti út í eitt.

Mikið var spilað heima, þá aðallega Rússi, Manni og Rommí. Þá var oft mikið hlegið og oftar en ekki af mér því ég var með eindæmum tapsár og hélt því oftar en einu sinni fram að það hafði verið svindlað á mér! Ég hef lúmskan grun um að hún hafi ansi oft leyft mér að vinna.

Móðir mín var mjög barngóð og ég veit að börn, barnabörn og barnabarnabörn sakna hennar mikið.

Ég veit að Guðbjörn sonur minn, faðir og aðrir ástvinir hafa tekið vel á móti henni. Nú bíður móður minnar eilíft líf með ástvinum sínum sem hafa kvatt þennan heim. Þetta eru ekki endalok heldur byrjun á nýju lífi. Ég kveð móður mína og ömmu barnanna minna með miklum söknuði. Þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið okkur.

Rögnvaldur, Sylvía Svava og Ragnar Helgi.

Elsku amma og langamma okkar. Við munum ætíð muna hlýjuna þína, létta skapið og húmorinn þinn. Þú varst algjört yndi, svo ljúf og góð. Við vitum að þér líður vel þar sem þú dvelur nú. Minning þín lifir í hjörtum okkar.

Vertu ekki grátinn við gröfina mína

góði, ég sef ekki þar.

Ég er í leikandi ljúfum vindum,

ég leiftra sem snjórinn á tindum.

Ég er haustsins regn sem fellur á fold

og fræið í hlýrri mold.

Í morgunsins kyrrð er vakna þú vilt,

ég er vængjatak fuglanna hljótt og stillt.

Ég er árblik dags um óttubil

og alstirndur himinn að nóttu til.

Gráttu ekki við gröfina hér –

gáðu – ég dó ei – ég lifi í þér.

(Höf. ók. þýð: Ásgerður Ingimarsdóttir)

Hvíl í friði elsku besta amma og langamma okkar.

Ellen Svava, Aðalheiður Ósk, Eiríkur, Íris Eva,

Karen Ósk og

Bjarki Freyr.

HINSTA KVEÐJA
Kæra tengdamamma mín, Ellen Svava. Er ég kveð þig hinstu kveðju vil ég þakka þér kærleikann og velviljann í minn garð alla tíð.
Þeir segja mig látinn, ég lifi samt
og í ljósinu fæ ég að dafna.
Því ljósi var úthlutað öllum jafnt
og engum bar þar að hafna.

Frá hjarta mínu berst falleg rós,
því lífið ég þurfti að kveðja.
Í sorg og í gleði ég senda mun ljós,
sem ykkur er ætlað að gleðja.
(Höf. ók.)
Þinn tengdasonur,
Guðlaugur.