Úti við Mörg börn búa við skort.
Úti við Mörg börn búa við skort. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Um 27% reykvískra foreldra sem þiggja fjárhagsaðstoð eiga barn með sértæka námsörðugleika, hegðunarröskun, langvarandi sjúkdóm eða fötlun. Meðal foreldra á atvinnuleysisbótum er þetta hlutfall 20% en 15% meðal foreldra í launaðri vinnu.

Um 27% reykvískra foreldra sem þiggja fjárhagsaðstoð eiga barn með sértæka námsörðugleika, hegðunarröskun, langvarandi sjúkdóm eða fötlun. Meðal foreldra á atvinnuleysisbótum er þetta hlutfall 20% en 15% meðal foreldra í launaðri vinnu.

Þetta kemur fram í rannsókn fjögurra kvenna fyrir velferðarsvið Reykjavíkurborgar en markmiðið var að kanna aðstæður reykvískra barnafjölskyldna.

Þátttakendur í könnuninni voru 694, þar af 539 konur, og tóku 55% þeirra sem leitað var til þátt.

Konurnar sem unnu rannsóknina heita Ásdís Aðalbjörg Arnalds, Elísabet Karlsdóttir, Heiður Hrund Jónsdóttir og Vala Jónsdóttir og er ein niðurstaðan sú að foreldrar sem þiggja fjárhagsaðstoð í borginni eru í meirihluta ungar, einhleypar konur og algengt er að þær hafi ekki menntað sig að loknum grunnskóla.

Fá minni aðstoð

Foreldrar sem njóta fjárhagsaðstoðar og foreldrar á atvinnuleysisbótum hitta vini og ættingja oftar en foreldrar í launaðri vinnu en geta þó síður reitt sig á að fólk sem ekki býr á heimilinu aðstoði við umönnun barna, heimilisstörf eða viðhald húsnæðis, en foreldrar í launaðri vinnu.

Fram kemur í rannsókninni að þegar einstaklingar sem þáðu fjárhagsaðstoð árið 2011 voru spurðir hvaða örðugleika, sjúkdóm eða fötlun barnið þeirra væri greint með, að í 47% tilvika var um ofvirkni og/eða athyglisbrest (ADHD) eða aðra hegðunarröskun að ræða.