Kostagripur Bjarki Sveinbjörnsson hjá orgeli sem er smíðað hjá Lyon&Healy í Chicago um aldamótin 1900.
Kostagripur Bjarki Sveinbjörnsson hjá orgeli sem er smíðað hjá Lyon&Healy í Chicago um aldamótin 1900. — Morgunblaðið/Ómar
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Ísmús er nýr íslenskur gagnagrunnur sem geymir og birtir gögn úr íslenskum menningarheimi. Þar má finna hljóðrit, ljósmyndir, kvikmyndir, handrit og texta. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra opnar vefinn í dag, 8.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Ísmús er nýr íslenskur gagnagrunnur sem geymir og birtir gögn úr íslenskum menningarheimi. Þar má finna hljóðrit, ljósmyndir, kvikmyndir, handrit og texta. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra opnar vefinn í dag, 8. júní, í Salnum í Kópavogi við hátíðlega athöfn.

„Fyrir tíma netsins höfðu menn ekki tök á öðru en bókaútgáfu. En eftir að hægt var að tengja saman hljóð, mynd og skjöl kviknaði þessi hugmynd. Með þessu móti má opna tónmenningargátt þjóðarinnar og veita fólki aðgang að því sem í árhundruð var hulið og á lokuðum söfnum,“ segir Bjarki Sveinbjörnsson, tónlistarfræðingur og hugmyndasmiður vefjarins.

Gögnin sótt víða

Verkefnið á sér 17 ára sögu. Í upphafi var einungis ætlunin að birta myndir af íslenskum tónlistarhandritum og upplýsingum um þau. Verkið vatt upp á sig og Björn Bjarnason menntamálaráðherra opnaði fyrstu gerð Ísmús-verkefnisins við athöfn í Þjóðarbókhlöðunni 28. júní 2001. Þá birtust þar myndir af handritum og vaxhólkahljóðrit Jóns Pálssonar og Jóns Leifs. 1. maí 2004 var um 2.000 hljóðritum úr þjóðfræðisafni Árnastofnunar formlega bætt við verkefnið.

Með tímanum hefur áherslan breyst og nú opnar Ísmús breiðan aðgang að tónlistar- og sagnamenningu og ýmsum heimildum um menningarsögu þjóðarinnar. Hér koma því fram áður óþekktir möguleikar til rannsókna og heimildaöflunar af ýmsum toga, fyrir almenning, sérfræðinga, nemendur og kennara.

„Ég byrjaði á því að sækja gögnin á allar helstu stofnanir sem staddar eru í Reykjavík. Ég fékk leyfi hjá Þjóðskjalasafni, Landsbókasafni og Þjóðminjasafni og Árnastofnun til þess að varðveita frumgögnin. Svo fékk ég einnig leyfi til þess að setja þetta á stafrænt form,“ segir Bjarki sem jafnframt fékk aðgang að hljóðskjölum Ríkisútvarpsins.

„Upphaflega hugmyndin var að veiða allar hljóðupptökur frá Árnastofnun. Fljótlega áttuðum við okkur þó á því að ef við myndum ekki taka allan pakkann þá yrði það aldrei gert,“ segir Bjarki.

Á vefnum má finna fjöldann allan af efni sem kemur úr ólíkum áttum.

„Í þessum frásögnum fáum við einnig rammann utan um þann heim sem fylgir hljóðupptökum frá einstaklingum sem segja frá tónlistinni. Því fáum við miklu stærri mynd af þessu en við gerðum okkur grein fyrir í upphafi þegar við fórum af stað í þessa vinnu,“ segir Bjarki.

Hann segir að efni síðunnar geti höfðað til margra.

„Það geta allir notið síðunnar. Margir geta heyrt þarna í fornum ættingjum. Skólakerfið fær aðgang að ævintýrum og þulum. Eins má finna alls kyns sagnir af hjátrú, sjómennsku, reiðtúrum, tröllasögum, kvæðum, barnavísum og sálmum svo einhver dæmi séu nefnd,“ segir Bjarki.

Vinnan heldur áfram

Mikil vinna hefur farið í þetta frá Bjarka og Jóni Hrólfi Sigurjónssyni, sem unnið hafa sameiginlega að þessu verkfni. Nær ekkert annað hefur komist að. „Þetta er mín heimsmeistarakeppni, Evrópukeppni og Ólympíuleikar. Ég verð að gramsa í hljóðskrám þegar aðrir eru að horfa á Evrópukeppnina í sumar,“ segir Bjarki að lokum. Vefinn má finna á slóðinni www.ismus.is.

Tugþúsundir skráa

Vefurinn inniheldur ógrynni af efni sem Bjarki Sveinbjörnsson og Jón Hrólfur Sigurjónsson hafa aflað, unnið að gagnasöfnun í aukavinnu og m.a. notað sumarfrí í að safna gögnum um orgel á Íslandi.

Meðal efnis sem má finna á ismus.is er: 41.966 hljóðrit, 192 handrit og bækur, 2.644 einstaklingar, 438 kirkjur, 514 orgel, 12.633 ljósmyndir og 706 myndskeið.