Andrei Arshavin fer fyrir Rússum á EM.
Andrei Arshavin fer fyrir Rússum á EM. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rússar áttu góðan sprett á Evrópumótinu 2008, flestum nokkuð á óvart, og þótti mörgum þeir sjá skýr fingraför þjálfarans Guus Hiddinks á leik liðsins.
Rússar áttu góðan sprett á Evrópumótinu 2008, flestum nokkuð á óvart, og þótti mörgum þeir sjá skýr fingraför þjálfarans Guus Hiddinks á leik liðsins. Sóknarleikurinn var talsvert laglegri en sést hefði til Rússa um langa hríð og skilaði hann þeim alla leið í undanúrslitin það árið. Þeim mistókst hins vegar að komast á Heimsmeistaramótið í Suður-Afríku 2010 og við liðinu er tekinn landi Hiddinks, reynsluboltinn Dick Advocaat. Sóknin er ekki jafnleiftrandi og þá en varnarlínan er þeim mun þéttari. Engu að síður er í framlínunni að finna þekktustu leikmennina, þá Roman Pavlyuchenko og Andrei Arshavin. Leikmaðurinn sem augu flestra beinast að í sumar er hins vegar hinn sókndjarfi miðjumaður Alan Dzagoev sem leikur með CSKA Moskvu. Nái hann að sýna sitt rétta andlit gæti þar verið komið eitt þeirra nafna sem standa upp úr annars bragðdaufum riðli, og blasir þá við að eitthvert stórliðið klófestir hann fljótt.