Dagsformið „Á sunnudaginn er mjög mikilvægur leikur á móti Spáni og ef liðið nær þar jafntefli eða jafnvel sigri held ég að hópurinn sé í stakk settur til að ná í það minsta í undanúrslit ef ekki í sjálfan úrslitaleikinn,“ segir Róbert
Dagsformið „Á sunnudaginn er mjög mikilvægur leikur á móti Spáni og ef liðið nær þar jafntefli eða jafnvel sigri held ég að hópurinn sé í stakk settur til að ná í það minsta í undanúrslit ef ekki í sjálfan úrslitaleikinn,“ segir Róbert — Morgunblaðið/Eggert
Ef Ítölum gengur vel reiknar Róbert Spanó prófessor með að halda veglega veislu

„Ég man ekkert allt of vel eftir æskuárunum yfirleitt, en ein sterkasta minningin sem ég á er frá heimsmeistarakeppninni 1982 þegar Ítalir verða heimsmeistarar. Ég var þá 10 ára gamall og pabbi hafði efnt til mikillar ítalskrar hátíðar fyrir vini og ættingja. Þegar svo sigurinn var í höfn voru fagnaðarlætin gríðarleg, og við karlarnir og drengirnir í hópnum ókum um bæin með fagnaðarlátum og ítalska fánan blaktandi,“ segir Róbert Spanó. „Það var heiðskírt þennan dag, ofboðslega gott veður, og í alla staði fullkominn dagur.“

Róbert er hálfítalskur og hefur stutt ítalska liðið dyggilega allt síðan sigurdaginn eftirminnilega. „Það eru ekki margir sem halda með Ítölum og flestum eðlislægt að halda frekar með þeim sem Ítalir eru að spila á móti hverju sinni. Þeir þykja spila frekar leiðinlegan bolta að því leyti að vera með mjög sterka vörn og miðju en sækja lítið fram. Þannig lið eru sjaldan í uppáhaldi og þaðan af síður að þeim sé spáð sigri, en hefðin situr enn föst í mér og mikil trú á getu liðsins fyrir hvert mót.“

Mynda maskínu

Róbert reiknar ekki með öðru en að vörnin verði nær órjúfanleg hjá Ítölunum á EM. Liðið er alveg endurnýjað frá heimsmeistaramótinu fyrir tveimur árum, og á öllu von. „Þarna er fullt af leikmönnum sem Íslendingar hafa sennilega aldrei heyrt um. Þetta eru engar stórstjörnur en saman myndar liðið öfluga maskínu.“

Gangur liðsins á EM mun sennilega ráðast strax í fyrsta leik. „Á sunnudaginn er mjög mikilvægur leikur á móti Spáni og ef liðið nær þar jafntefli eða jafnvel sigri held ég að hópurinn sé í stakk búinn til að ná í það minnsta í undanúrslit ef ekki í sjálfan úrslitaleikinn,“ segir Róbert og bætir kíminn við að hann hafi alltaf fullkomna trú á möguleikum Ítalanna.

Meðal þeirra sem Róbert bindur miklar vonir við er hinn lágvaxni Sebastian Giovinco. „Hann gæti alveg átt það til að brillera á vellinum. Giovinco er að ég held minnsti leikmaðurinn í keppninni, ekki nema 164 cm á hæð, spilar með Parma og er skæður framherji, lipur og eldsnöggur á vellinum,“ segir hann. „Síðan er náttúrlega Mario Balotelli sem spilar með Manchester. Menn hafa tekið eftir að hann er hálfruglaður en á sennilega eftir að blómstra. Daniele De Rossi er hins vegar í uppáhaldi, feiknagóður leikmaður á miðjunni.“

Róbert reiknar með að horfa á fyrstu leikina í rólegheitunum, en ef liðinu gengur vel má eiga von á veislu á heimilinu þegar líða tekur á mótið. „Þá er alveg ljóst að við höldum einhverja skemmtun fyrir gesti. Ég fæ þá pabba meistarakokk til að leggja mér lið og skapa alvöru ítalska veislu.“ ai@mbl.is