[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Örn ólst upp í Smáíbúðahverfinu í Reykjavík en dvaldi í Haukadal í Dýrafirði á sumrin frá sjö til sextán ára aldurs við ýmis störf á Húsatúni í Haukadal og í fiski á Þingeyri.

Jón Örn ólst upp í Smáíbúðahverfinu í Reykjavík en dvaldi í Haukadal í Dýrafirði á sumrin frá sjö til sextán ára aldurs við ýmis störf á Húsatúni í Haukadal og í fiski á Þingeyri.

Dúx Barcelona Business School

Jón Örn varð stúdent frá MS 1982, lauk BA-prófi í íslensku frá HÍ 1985 og MA-prófi 2000 en meistaraprófsverkefni hans var það fyrsta við HÍ sem var að öllu leyti pappírslaust, skilað á margmiðlunardiski og á vefsvæði. Jón Örn lauk MBA gráðu með láði frá Barcelona Business School 2007 og hlaut þá hæstu einkunn sem skólinn hafði veitt. Sama ár lauk hann þaðan MA gráðu í almannatengslum.

Jón Örn var blaðamaður á DV 1987-89, sinnti kennslu við FB í tvo vetur, starfaði við dagskrárgerð og íþróttafréttamennsku á Stöð 2 1989-93, og aftur 2007, við flutning almennra frétta og dagskrárgerð.

Jón Örn var markaðsstjóri hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Streng hf. 1993-96, stofnaði þá Landsteina Ísland í félagi við fleiri aðila og var þar markaðsstjóri sem og hjá tengdum fyrirtækjum 1996-2001, og markaðsstjóri hjá ecSoftware 2001-2006.

Jón Örn er nú sviðsstjóri hjá HÍ auk þess að sinna dagskrárgerð fyrir sjónvarp um vísindarannsóknir.

„Ég les mikið og tek gjarnan margar skáldsögur í skorpum,“ segir Jón Örn þegar hann víkur að áhugamálunum. „Síðast las ég þríleik Jóns Kalmans Stefánssonar, sem gerist vestur á fjörðum.

Annars á ég mínar stærstu stundir á hverju sumri er ég geng um Hornstrandir. Í sumar stefni ég á Kaldbak, hæsta fjall Vestfjarða.

Hesteyri í Jökulfjörðum er minn uppáhaldsstaður á Íslandi. Þetta yfirgefna þorp í hvannar- og kerfilsskógi, sem hefur meira að segja misst kirkjuna sína, er paradís sem komin er í fullkomna mótsögn við fortíðina. Djúp og eilíf kyrrð staðarins er meira en mögnuð, borin saman við skarkalann sem þarna ríkti frá athafnalífi fyrri tíma, hvalstöð og síðar síldarbræðslu.“

En hvað með boltann, Jón Örn?

„Jú, ég er Víkingur inn að beini, sem er mikið þolinmæðisverk, og held líka meira en ég kæri mig um með Barcelona. Ég hlýt að vera að reskjast þegar ég get fullyrt að hafa spilað í tvo áratugi með eldri drengja liði Víkings. Ég hef líka spilað með Lönsj United en þar á æfingum er fullyrt að menn spili eins og þeir séu í hægri endursýningu.

Í gamla daga spilaði ég svo með Víkverjum úr Reykjavík. Vonandi hitti ég sem flesta af sparkfélögum mínum úr fortíðinni í dag.“

Fjölskylda

Eiginkona Jóns Arnar er Rut Gunnarsdóttir, f. 14.10. 1975, lögfræðingur hjá Íslandsbanka, dóttir Gunnars Indriðasonar tæknifræðings og Hildur Þorvaldsdóttir leikskólastarfsmanns.

Börn Jóns Arnar og Rutar eru Gunnar, f. 30.1. 2001 og Björk, f. 28.10. 2005.

Dætur Jóns Arnar frá því áður: Kristín Lilja, f. 1.4. 1984, nemi í hjúkrunarfræði við HÍ, gift Halli Ólafi Agnarssyni og eru synir þeirra Mikael Logi, f. 29.5. 2005, Gabríel Snær, f. 3.1. 2007, og Agnar Nóel f. 12.3. 2012; Hildur Ýr, f. 28.4. 1992, nýstúdent frá MR.

Alsystkini Jóns Arnar: Jóhanna Andrea, f. 7.11. 1954, aðstoðar-yfirtollvörður í Reykjavík; Guðbjartur Páll, f. 10.7. 1956, hugbúnaðarfræðingur í Reykjavík; Baldur Bjarki, f. 23.4. 1960, bifvélavirki á Selfossi.

Hálfsystur, sammæðra: Bergljót H. Jósepsdóttir, f. 16.2. 1947, snyrtifræðingur á Spáni; Jóna B.Jósepsdóttir, f. 17.1. 1949, í Reykjavík.

Hálfbræður, samfeðra: Ingiberg, f. 13.5. 1939, blikksmiður í Kópavogi; Kristján, f. 12.11.1942, skrifstofumaður í Reykjavík.

Foreldrar Jóns Arnar voru Guðbjartur Sigurgísli Bergmann Kristjánsson, f. 15.12. 1914, d. 20.6. 1967, bílstjóri, ogAndrea Helgadóttir, f. 13.11. 1927, d. 26.7. 2003, sjúkraliði.