[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM í fótbolta Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Fjórtánda úrslitakeppni Evrópumóts landsliða í knattspyrnu hefst í dag en að þessu sinni er keppnin haldin í Póllandi og Úkraínu.

EM í fótbolta

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Fjórtánda úrslitakeppni Evrópumóts landsliða í knattspyrnu hefst í dag en að þessu sinni er keppnin haldin í Póllandi og Úkraínu. Opnunarleikur mótsins verður viðureign Pólverja og Grikkja sem fram fer í Varsjá í dag og síðan rekur hver leikurinn annan þar til kemur að úrslitaleiknum sem fram fer í Kiev í Úkraínu sunnudaginn 1. júlí.

Fyrsta Evrópumótið var haldið í Frakklandi árið 1960 þar sem Sovétmenn sálugu fóru með sigur af hólmi. Fram til ársins 1980 kepptu aðeins 4 lið til úrslita um Evrópumeistaratitilinn en nú eru þátttökuþjóðirnar 16 talsins.

Flestir búast við slag á milli Spánverja og Þjóðverja

Sparkspekingar úti um víða veröld hafa keppst við að spá í spilin og rauði þráðurinn í þeirra spádómum er sá að slagurinn um Evrópumeistaratitilinn komi til með að standa á milli Spánverja og Þjóðverja. Þetta getur undirritaður tekið undir en eins bind ég vonir við að Hollendingar geti blandað sér í baráttuna og jafnvel Frakkar, sem mæta til leiks ósigraðir í 21 leik í röð.

Spánverjar eru ríkjandi Evrópumeistarar og þeir geta skráð nýjan kafla í knattspyrnusöguna með því að verða fyrstir til að vinna þrjú stórmót í röð en Spánverjar hömpuðu heimsmeistaratitlinum í Suður-Afríku fyrir tveimur árum. Fari svo að Spánverjar lyfti heimsbikarnum eftirsótta á loft í Kænugarði þann 1. júlí verða þeir fyrsta þjóðin til að verja Evrópumeistaratitilinn.

Hér á eftir verður stiklað á stóru yfir liðin sem ég tel að komi til með að verða í baráttunni um Evrópumeistaratitilinn í ár.

Gríðarleg vel mönnuð sveit Spánverja

Það þarf ekki mikla visku til að sjá hversu gríðarlega vel mönnuð sveit Spánverja er en leikmenn frá risaliðunum Barcelona og Real Madrid eru þar í fararbroddi. Xavi, Andrés Iniesta og Xabi Alonso verða í stórum hlutverkum og Fernando Torres þyrstir í sýna hvað í honum býr en það var eimitt hann sem skoraði sigurmarkið í úrslitaleiknum gegn Þjóðverjum fyrir fjórum árum. Nú þegar David Villa er ekki til staðar stendur upp á Torres að skora mörkin og ég held að hann svari kallinu og verði jafnvel markakóngur keppninnar.

Verða að hafa Özil í stuði

Þýska liðið er svo sannarlega til alls líklegt undir stjórn Joachims Löw. Þrátt fyrir ungan aldur er komin mikil reynsla í lið Þjóðverja sem hafa unnið til verðlauna á tveimur síðustu stórmótum. Þeir töpuðu úrslitaleiknum á EM gegn Spánverjum fyrir fjórum árum og hrepptu svo bronsið á HM fyrir tveimur árum. Á því móti sýndu Þjóðverjar frábær tilþrif og skorðu til að mynda fjögur mörk gegn bæði Englendingum og Argentínumönnum. Átta liðsmenn Bayern München eru í leikmannahópi Þjóðverja og flestum þeirra er ætluð stór hlutverk en sá leikmaður sem Þjóðverjar verða að hafa í stuði ætli þeir sér langt er miðjusnillingurinn Mesut Özil, leikmaður Real Madrid. Hann kemur til með að verða mikilvægasti leikmaður þýska liðsins.

Lýkur 24 ára bið Hollendinga?

Hollendingar eiga sér marga aðdáendur og undirritaður er einn þeirra. Í áranna rás hefur hollenska landsliðið yljað áhorfendum með skemmtilegum sóknarleik og glæsilegum tilþrifum. Skyldi 24 ára bið Hollendinga ljúka? Hollendingar hafa einu sinni unnið stórmót en í Þýskalandi 1988 fóru þeir alla leið á Evrópumótinu og lögðu Sovétmenn í úrslitaleik, 2:0. Í liði Hollendinga þá voru snillingar á borð við Marco van Basten, Ruud Gullit og Ronald Koeman. Hollendingar töpuðu úrslitaleiknum á HM fyrir tveimur árum en nú stefna þeir á gullið og til þess að svo verði þarf allt að ganga upp hjá þeim appelsínugulu. Arjen Robben, Robin van Persie og Wesley Sneijder koma til með að draga hollenska vagninn. Á HM 2010 byrjuðu Hollendingar á því að vinna Dani í fyrsta leik sínum og aftur verða Danir fyrstu mótherjar Hollendinga.

Frönsk bylting

Frakkar urðu að hálfgerðu athlægi á HM fyrir tveimur árum þar sem þeir fóru heim eftir riðlakeppnina með 1 stig og eitt mark en mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá. Það má líkja því við franska byltingu en landsliðsþjálfarinn Laurent Blanc hefur gjörbreytt liðinu og frá því að vera með allt niður um sig fyrir tveimur árum eru Frakkar til alls líklegir á EM með leikmenn eins Franck Ribéry, Karim Benzema og Samir Nasri innanborðs.

Hver átti von á því að Grikkir og Danir færu alla leið?

Þrátt fyrir þessa spádóma er allt eins líklegt að við fáum að sjá eitthvert spútniklið sem nær að gera usla á meðal hákarlanna.

Ekki einn einasti maður átti von á því að Grikkir færu alla leið á EM í Portúgal 2004 og hver man ekki eftir því þegar Danir, sem fengu óvænt sæti í úrslitakeppninni korteri fyrir mót þegar Júgóslövum var vísað úr keppninni, fögnuðu Evrópumeistaratitlinum 1992 í Svíþjóð. Það óvænta gæti gerst í Póllandi og Úkraínu og fyrst væntingarnar eru litlar sem engar á Englandi og víða um veröld fyrir enska liðinu er sá möguleiki fyrir hendi að Steven Gerrard verði fyrsti Englendingurinn til að lyfta Evrópubikarnum á loft. Ég hef þó enga trú á því!

EM í knattspyrnu

» Mótið hefst í Varsjá dag og lýkur með úrslitaleik í Kiev sunnudaginn 1. júlí.
» Frá deginum í dag og til 19. júní verða tveir leikir á dag, ávallt kl. 16.00 og 18.45.
» Leikjadagskrá mótsins og liðsskipan allra 16 liðanna er að finna í veglegu EM-blaði sem fylgir Mogganum í dag.