Þá var ég, túristinn, sem kom til Bretlands í allt öðrum erindagjörðum en að hylla drottninguna, löngu búin að gefast upp og farin eins og óður Íslendingur að versla í búðunum á Oxford Street.

Síðastliðna helgi var ég stödd í Lundúnum. Það fór ekki framhjá neinum manni sem þar var að Bretar voru að fagna drottningunni. Það fór heldur ekki framhjá neinum að Bretar elska drottninguna sína gríðarlega mikið og fáir sem eru henni ekki hliðhollir enda þekkir meirihluti Breta ekki annað en að hún sé við völd.

Á valdaafmæli drottningarinnar sigldi hún niður Thames ána ásamt þúsund bátum og veifaði til fólksins.

Þennan dag var kalt í veðri og skúrir, en fólkið lét það ekki á sig fá og var mætt við ána mörgum klukkutímum og jafnvel sólarhring áður en drottningin myndi sigla þar framhjá. Bretar gengu niður að ánni í nokkurskonar skrúðgöngu, allir skreyttir með fánum, grímum eða öðrum munum sem voru skreyttir í bresku fánalitunum og oft með mynd af drottningunni.

Það var orðið ansi mikið af fólki við ána þegar ég loksins komst að Waterloo. Ég hafði þá verið á lestarstöð í ríflega tvo klukkutíma en allar lestir sem komu voru svo troðfullar af fólki að það var ekki nokkur leið að komast þar inn. Ég komst loks inn í sjöttu lestina með tilheyrandi látum og barnsgráti enda nær ólíft inni í troðinni lestinni.

Ég sá lítið sem ekki neitt út á ána þegar ég kom þarna um sex klukkutímum áður en búast mátti við drottningunni. Þá voru margir Bretar mættir með útilegustóla og nesti, enn aðrir gistu í tjöldum yfir nóttina og virtist enginn ætla að snúa við og hætta við þetta allt saman nema ég. 1,2 milljónir manna voru mættir við ána þegar drottningin loks sigldi þar í gegn. Þá var ég, túristinn, sem kom til Bretlands í allt öðrum erindagjörðum en að hylla drottninguna, löngu búin að gefast upp og farin eins og óður Íslendingur að versla í búðunum á Oxford Street. Ég horfði síðan með hinum Íslendingunum á drottninguna sigla niður ána í sjónvarpinu enda ekki hægt að finna annað sjónvarpsefni á bresku sjónvarpsstöðvunum þann daginn.

Elísabet drottning var aðeins 25 ára þegar hún tók við krúnunni. Ég myndi alveg njóta þess að láta milljón manns húka úti í vondu veðri til að sjá mig veifa. Ég skal alveg verða drottning í smástund, en ég efast um að ég nenni því í 60 ár.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir aslaug@mbl.is