Guðni Einarsson gudni@mbl.is Söluaukning á nýjum fólksbílum fyrstu fimm mánuði þessa árs var 76,6% miðað við söluna í sömu mánuðum í fyrra.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Söluaukning á nýjum fólksbílum fyrstu fimm mánuði þessa árs var 76,6% miðað við söluna í sömu mánuðum í fyrra. Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, segir að bílasala sé greinilega að taka við sér þótt hún haldi engan veginn í við þörfina á endurnýjun bílaflotans. Því er spáð að heildarsalan geti orðið um 6.500 fólksbílar á þessu ári.

Um helmingur af nýju fólksbílunum sem seldust frá janúar og til loka maí, 1.772 bílar af 3.338 bílum, fór til bílaleigna. Bílaleigurnar þurfa að endurnýja flota sína ört og bæta við vegna aukins straums ferðamanna. Bílaleigubílarnir koma svo margir á markað í haust og hleypa lífi í sölu notaðra bíla.

Bílamarkaðurinn hefur færst æ meira yfir í notaða bíla undanfarin ár, að sögn Özurar. Hann segir að frá árslokum 2008 hafi nær engin sala verið í nýjum bílum þar til í fyrra. Þá fór markaðurinn að taka við sér. Þessu hefur fylgt að fólk hefur frekar skipt í aðeins yngri notaðan bíl frekar en að kaupa sér nýjan bíl.

„Við sjáum breytingu núna. Fólk er aðeins farið að kaupa sér nýja bíla,“ segir Özur. „Þetta er þó ekkert orðið eins og væri í eðlilegu ári.“ Hann segir að eðlileg endurnýjunarþörf bílaflotans sé talin vera 12-14 þúsund bílar á ári. Miðað við það hefði þurft að flytja inn 5-6 þúsund nýja bíla fyrstu fimm mánuði ársins.