Vigdís Hauksdóttir
Vigdís Hauksdóttir
Eftir Vígdísi Hauksdóttur: "Því má í raun segja að innlenda virðisaukaskattskerfið sé tæknilega „gjaldþrota“ eftir árásir fyrrverandi fjármálaráðherra á það."

Fingraför fyrrverandi fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar sjást víða. Eftir að hann tók við stjórnartaumunum í fjármálaráðuneytinu hefur allt farið þar til verri vegar. Enda fór svo að Steingrímur skipti um ráðuneyti eftir að hann var búinn að rústa skattkerfi landsmanna. Um 170 skattalagabreytingar hafa verið gerðar í tíð Steingríms. Jú – hann ætlaði að skatta landsmenn út úr kreppunni. Vinstrimenn hafa sjaldnast skilið samhengi hóflegra skatta og skattheimtu. Undir forystu Steingríms og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var hafist handa við að ráðast á annars ágætt virðisaukaskattskerfi. Samkvæmt bókhaldi ríkissjóðs er allur innskattur færður til frádráttar þeim útskatti sem reiknast af virðisaukaskattsskyldum viðskiptum innanlands (á vörum og þjónustu). Man ég enn umræðuna á Alþingi þegar Steingrímur lagði til hækkun virðisaukaskatts á matvæli – úr 7% og upp í 24,5%. Rökin voru að slíkt væri almenn tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Mættu þessar tillögur mikilli andstöðu hjá okkur framsóknarmönnum. En Steingrímur og AGS voru ekki ráðalausir. Í stað þess að láta gott virðisaukaskattskerfi í friði gerði hann aðra atlögu að kerfinu og lagði til nýtt virðisaukaskattsþrep – að matvæli ættu að bera 14% skatt og aðrar vörur 25% skatt. Steingrímur var rekinn til baka með þessar tillögur líka og eftir stendur að efra virðisaukaskattsþrepið var hækkað í 25,5%, sem er hæsti virðisaukaskattur sem þegnar þurfa að inna af hendi á byggðu bóli. En hverju skilaði þetta ríkissjóði? Jú – tæplega 40 milljarða tekjutapi á álagningarárunum 2010 og 2011. Því má í raun segja að innlenda virðisaukaskattskerfið sé tæknilega „gjaldþrota“ eftir árásir fyrrverandi fjármálaráðherra á það. Í skriflegu svari frá fjármálaráðherra sem barst mér nú í vikunni kemur fram að tekjur af innlendum virðisaukaskatti voru 33 milljarðar 2009, 20 milljarðar 2010 og í bráðabirgðatölum fyrir uppgjör ársins 2011 er innskatturinn kominn í tæpa níu milljarða í mínus – sem á í raun ekki að vera hægt – því kerfið á að vera „virðisaukandi“. Þessi tekjustofn ríkisins er hruninn. Ætli Steingrími þyki það ekki glæsileg niðurstaða hjá sér eftir þriggja ára setu sem fjármálaráðherra.

Höfundur er lögfræðingur og þingmaður Framsóknarflokksins í Reykjavík.