Óvissa „Svo er spurning hvort „stóri hjálmurinn“, Petr Cech, getur eitthvað í markinu og hvort nokkrir lykilmenn verða ekki örugglega hraustir,“ segir Kári.
Óvissa „Svo er spurning hvort „stóri hjálmurinn“, Petr Cech, getur eitthvað í markinu og hvort nokkrir lykilmenn verða ekki örugglega hraustir,“ segir Kári. — Morgunblaðið/Eggert
Fylgist með leikjunum íklæddur gamalli treyju frá tímum Tékkóslóvakíu

Kári Freyr Doddason, þjálfari og bóndi, var vígður inn í fótboltasöfnuð Tékka þegar hann dvaldist sem skiptinemi stutt frá landamærum Tékklands og Póllands. „Það eru liðin 10 ár síðan ég hélt út, 18 ára gamall, og bjó þá hjá pólsk-tékkneskri fjölskyldu austast í Tékklandi, steinsnar frá Kraká. Þar fékk ég að læra á menninguna á staðnum, og fótboltinn fylgdi vitaskuld með.“

Kári segist reyndar hafa verið byrjaður að fylgjast með tékkneska liðinu áður en kom að skiptináminu. „Þeir höfðu náð 2. sæti á EM 1996 og vakið töluverða lukku. Tékkarnir geta verið skæðir með boltann, eru með duglega leikmenn og hafa skartað kempum á borð við Patrik Berger og Karel Poborský.“

Á Evrópumeistaramótinu nú reiknar Kári með að sínir menn komist í það minnsta upp úr riðlinum, en þar etja þeir kappi við Rússa, Grikki og Pólverja. „Ég held þeir verði tæpir, en spái því að Rússar og Tékkar komist áfram. Svo er spurning hvort „stóri hjálmurinn“, Petr Cech, getur eitthvað í markinu og hvort nokkrir lykilmenn verða ekki örugglega hraustir. Það þarf bara að hafa nokkra rétta menn á réttum stöðum, liðsheildina í lagi og komast í gang og þá er von á góðu.“

Saman hafa Kári og tékkneska landsliðið gengið í gegnum súrt og sætt. Honum er enn minnisstætt tap gegn Tyrkjum í lokaleik riðilsins 2008, þegar þeir voru 2-0 yfir fram yfir 60. mínútu þegar Tyrkjunum tekst að skora þrjú mörk á 15 mínútum. „Það var ofboðslega erfið stund og ég var margar vikur að jafna mig á áfallinu – gat ekki fylgst með fleiri leikjum í keppninni eftir þessa útreið.“

Öllu gleðilegra var þegar Kári var á vappi um bæ einn í Tékklandi og sér þar Milan Baros álengdar. „Ég ákvað þá þegar að taka smá „stalker“ á þetta og elti hann að hóteli. Þar voru þeir allir, stóru goðin eins og Jan Koller og Karel Poborský. Ég setti mig einfaldlega í túristahlutverkið og tókst að fá mynd af mér með kempunum.“ ai@mbl.is

Gott að fá sér eina pullu

Þegar kemur að leikjum tékkneska liðsins fylgir Kári Freyr ákveðnum helgisiðum. „Ef tími gefst til reyni ég að láta leikina ekki framhjá mér fara og helst að hafa einn kaldan tékkneskan Budwar eða Pils við höndina. Ég á síðan eldgamla treyju frá tímum Tékkóslóvakíu, sem ég reyni að klæðast ef svo ber undir, og held mikið upp á.“

Tékkar eru vanir því að fá sér bjór og pylsur með leikjum og Kári reynir að halda í hefðina. „Ef mikilvægur leikur er á dagskrá er fátt betra en að koma saman í góðra vina hópi og fá sér eina pullu.“