Geoff Eley „Ég held að það geti orðið ákveðin gliðnun í þjóðfélaginu, sem geti leitt til sundrungar... og fólk gæti farið að snúast til pólitísks ofbeldis.“
Geoff Eley „Ég held að það geti orðið ákveðin gliðnun í þjóðfélaginu, sem geti leitt til sundrungar... og fólk gæti farið að snúast til pólitísks ofbeldis.“ — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Karl Blöndal kbl@mbl.is Geoff Eley, prófessor í sagnfræði við Michigan-háskóla, hefur í 40 ár rannsakað bæði fasisma og vinstri hreyfingar í Evrópu auk þess sem hann hefur skrifað um hið sögulega minni þjóða og hvernig það mótast.

Viðtal

Karl Blöndal

kbl@mbl.is

Geoff Eley, prófessor í sagnfræði við Michigan-háskóla, hefur í 40 ár rannsakað bæði fasisma og vinstri hreyfingar í Evrópu auk þess sem hann hefur skrifað um hið sögulega minni þjóða og hvernig það mótast. Hann telur að eftir síðari heimsstyrjöld hafi myndast samfélög í Evrópu, sem byggðust á andstöðunni við fasisma og höfðu þá sérstöðu að almenningur taldi sig eiga hlutdeild í þeim. Nú hafi hins vegar orðið rof þar sem gap hafi myndast milli hinna hefðbundnu stjórnmála og almennings og verði ekkert að gert gæti það orðið gróðrarstía öfgaafla og pólitísks ofbeldis.

„Burtséð frá kreppu evrunnar er hin pólitíska sátt, sem myndaðist með mjög skilvirkum hætti eftir 1945 og stóð þar til í upphafi áttunda áratugarins, í upplausn,“ segir Eley. „Eftir sjöunda áratuginn hefur hún verið skrúfuð í sundur og í staðinn hefur komið það sem við köllum nú nýfrjálshyggju, sem um tíma leiddi af sér nýja sátt, en grunnur hennar var mun ótryggari.“

Eftirstríðssáttin rofin

Eley segir að veðjað hafi verið á einkaneyslu, niðurrif hinna gömlu innviða, ekki bara velferðarríkisins og hagstjórnar í anda Keynes, heldur líka hins víðtæka þjóðfélagssáttmála, sem skipan mála eftir stríð var reist á með stéttarfélög í miðdepli.

„Upplausn þessa fremur sterkbyggða virkis í nafni einkavæðingar, markaðsafla, þessara hugmynda, sem urðu ráðandi, um það hvað fær samfélagið til að virka, hefur skilið eftir sig verulega óreiðu,“ segir hann. „Það opnar leiðina fyrir annars konar pólitíska hugsun og virkni og gerir að verkum að hægt er aðhyllast hugmyndir, sem við kennum við öfgar. Áhrifamesta afleiðing hnattvæðingarinnar, hinn haftalausi, þverþjóðlegi vinnumarkaður, spilar inn í þetta. Þar hafa verkamenn ekki lengur það öryggi, sem sáttmálinn eftir seinna stríð veitti. Það skapar síðan alls kyns kvíða í kringum þjóðernisvitund og brostnar væntingar um samstöðu í samfélaginu. Ég held að vandinn í kringum þessar breytingar sé aflvaki andúðarinnar á útlendingum og innflytjendum, kveikja útlendingaótta og kynþáttahyggju og hafi valdið virkni á hinum róttæka hægri armi, sem hlýtur uggvekjandi almennan hljómgrunn um þessar mundir.“

Eley segir rétt að hafa í huga hvernig sáttin eftir seinni heimsstyrjöld var fest í sessi. „Styrkur og stöðugleiki sáttarinnar í Vestur- og Norður-Evrópu fólust í því að fólk samsamaði sig ríkjunum, sem þróuðust eftir 1945. Í tilfelli Bretlands byggðist það augljóslega á samstöðunni í stríðinu og þeirri tilfinningu að allir hefðu snúið bökum saman í nafni hins góða málstaðar í stríðinu. Á meginlandi Evrópu kristallaðist það í andspyrnunni í stríðinu.“

Eley kveðst telja að þessi sátt hafi að hluta náðst vegna einingar um pólitíska andstöðu við fasisma, sem ekki væri aðeins ógn við lýðræðið heldur borgaraleg gildi og sómakennd og hefði verið svarað fullum hálsi og lagður að velli. En það var ekki aðeins andstaðan við fasisma, heldur einnig sú tilfinning að nú mætti byggja heim mjög frábrugðinn þeim, sem var fyrir 1939.

„Þetta ferli lýðræðisvæðingar samfélagsins hafði þegar hafist á Norðurlöndum,“ segir hann. „En það var langt frá því að vera tilfellið annars staðar í Vestur- og Suður-Evrópu. Því hafði ekki aðeins tekist að sigra fasismann og stríðið að því leyti gott, heldur var það einnig gott að því leyti að tekist hafði að yfirstíga það sem á vantaði á fjórða áratugnum, galla kerfisins, sem hafði brugðist. Þar fór saman andstaðan við fasisma og félagslegar umbætur. Ég held að það hafi skapað hina víðtæku og lýðræðislegu hlutdeild almennings í sáttinni eftir seinni heimsstyrjöld og gert að verkum að hún stóð svo lengi, alveg til loka áttunda áratugarins. Síðan hefur þessi sátt verið tekin í sundur.“

Barátta um þjóðarminni

Eley segir að frá tímabilinu 1989 til 1991 hafi staðið yfir barátta um þjóðarminnið, hvernig þjóðir muna söguna. „Það var mikill ótti meðal vinstri manna og framsækinna hugsuða í Vestur-Þýskalandi um að í kjölfar sameiningar myndi íhaldssöm þjóðernishyggja sækja í sig veðrið á ný. Á tíunda áratugnum voru margar orrustur háðar um hið sögulega minni þjóðarinnar.“

Eley segir að deilurnar á tíunda áratugnum hafi síður en svo leitt til endurvakningar þjóðernishyggju, heldur staðfest að nýju sáttina, sem varð til eftir seinna stríð.

„Málinu er þó ekki lokið, það er ekki hægt að segja: Við unnum. Þvert á móti og deilurnar hafa haldið áfram. Því er enn opið hvernig hið sögulega minni verður umritað hvað varðar hin brýnu, pólitísku mál samtímans. Og reyndar held ég að óvissan sé aftur að aukast.“

Ein ástæðan fyrir því er sennilega einnig sú að fjarlægðin við stríðið eykst. Í Þýskalandi krafðist 68-kynslóðin uppgjörs við arfleifð foreldra sinna frá stríðinu. Nú eru komnar kynslóðir, sem eru mun laustengdari þessari sögu.

„Þetta er eitt af því, sem ég fjalla um í fyrirlestrinum,“ segir Eley. „Ég fæddist 1949 og er því af 68-kynslóðinni, en jafnvel þótt hún sé að hluta fædd eftir að stríðinu lauk, er hún hluti af því. Stríðið var allt í kringum mig. Umræðan milli minnar kynslóðar og kynslóðar foreldra minna, sem oft var full af deilum og ágreiningi, jafnvel þótt eldri kynslóðin væri and-fasísk, var mikilvæg í því að hún gat af sér ný form lýðræðislegra stjórnmála á áttunda áratugunum og út þann níunda.“

Eley segir að orðið hafi uppbrot í flokkspólitíkinni, en umtalsverð gróska sé utan hennar í borgaralegum aðgerðahreyfingum, sem hafa áhrif í borgum, hverfum eða ákveðnum málaflokkum. „Fyrir mér er magnaðasta dæmið um þetta fjöldamótmælin gegn stríðinu 2003. Aldrei höfðu jafn margir fylkt liði á götum úti, en það skipti nákvæmlega engu máli. Það hefur orðið rof. Við höfum hina stofnanavæddu miðju ríkisins þar sem gömlu flokkarnir eru ennþá til án nokkurra tengsla við fjöldann eða fjölmennar flokksraðir eins og áður voru. Þeir eru ekki lengur flokkar sem byggjast á fjölda félaga. Hins vegar eru félagslegar hreyfingar og pólitískir aðgerðahópar og það er mjög óljóst hvernig leiða á þetta tvennt saman.“

Uggvekjandi vísbendingar

Eley segir að þessi vandi lýðræðisins sé einnig kveikjan að áhuga sínum á fasisma. „Mér virðist að þegar stjórnskipunin bilar eins og gerst hefur til dæmis í Bandaríkjunum og í minna mæli í Evrópu og hvorki er lengur hægt að koma á nægilegri sátt milli hinna ráðandi stétta né skapa nógu mikla almenna trú á kerfið skapist sérlega hættulegar aðstæður. Þá byrjar fólk að hugsa utan ramma ásættanlegra stjórnmála. Þá skapast kringumstæður fyrir ofbeldi og ég held að það séu uggvekjandi vísbendingar um að við séum að nálgast þær aðstæður í Bandaríkjunum. Það sama held ég að eigi við í Evrópu, til dæmis Grikklandi. Ég held að það geti orðið ákveðin gliðnun í þjóðfélaginu, sem geti leitt til sundrungar þar sem hin gömlu pólitísku form hætti að virka og fólk gæti farið að snúast til pólitísks ofbeldis.“

Meira á mbl.is

Fjölbreytt efni á söguþingi

Tortíming fortíðarinnar

Geoff Eley, prófessor við Michigan-háskóla í Bandaríkjunum, flytur í dag kl. 13.15 fyrirlestur á Íslenska söguþinginu undir heitinu Tortíming fortíðarinnar: sagan, minnið og samtíminn. Eley hristi upp í viðteknum hugmyndum með gagnrýni sinni á hugmyndina um sérleiðarkenninguna um forsendur fasisma í Þýskalandi á sínum tíma.

Söguþingið hófst í gær og stendur fram á sunnudag. Þar koma fram margir þekktir fyrirlesarar, þar á meðal Linda Colley, sem fjallar um frelsi og heimsveldi, og David Cannadine, sem skrifað hefur um stéttskiptingu á Bretlandi og flytur minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar. Greiða þarf þátttökugjald til að sitja þingið.