Guðrún Jónína Halldórsdóttir fæddist í Reykjavík 28. febrúar 1935. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli 2. maí 2012.

Útför Guðrúnar var gerð frá Hallgrímskirkju 16. maí 2012.

Guðrún J. Halldórsdóttir er látin.

Við vorum saman í stjórn Vináttufélags Íslands og Lettlands, sem blómstraði á árunum 1992-1996. Var hún þar í hávegum höfð, sem félagslynd og forfrömuð menntamanneskja.

Einnig var hún jákvæð gagnvart bókmenntum. Þannig var sagt um hana, að þegar ljóðskáld eitt gat ekki borgað skólagjöld sín að aflokinni veru í Námsflokkum Reykjavíkur, og taldi í stað þess maklegt að þakka fyrir sig með eigin ljóðum, þá hefði hún séð ástæðu til að taka þeim viðskilnaði með ljúfmennsku.

Ég rakst á hana nokkrum sinnum á förnum vegi á síðari árum, og þykir mér nú að henni mikill sjónarsviptir.

Mér þykir við hæfi að kveðja hana nú með einu óbirtu ljóði mínu, sem minnir mig hvað mest á viðhorf hennar til þjóðfélagsmála; en það heitir Sverðadansarinn:

Útrásarvíkingurinn, sverðadansarinn:

sá sem dansaði á sverðseggjum

af því hann taldi það vera

hina einu sönnu sælu;

hólmgöngu við hrædda menn:

sem eins og hann vildu finna

ástina og hamingjuna

hver höfðu náð að heflast burtu

einhvers staðar eftir bernskuna;

fjölskylduna sem skyldi finnast

einhversstaðar milli hnífsblaða,

milli breiðfylkingaraða sverða, saxa

Sumir komust raunar upp með glæpinn

en þó voru þeir fleiri sem í fótinn

skárust

og urðu litlir, klumbufættir karlar

Tryggvi V Líndal.