Slagur Alexander Scholz, miðvörður Stjörnunnar, í baráttu við Gróttumennina Hafstein Bjarnason og Sölva Davíðsson.
Slagur Alexander Scholz, miðvörður Stjörnunnar, í baráttu við Gróttumennina Hafstein Bjarnason og Sölva Davíðsson. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is „Garðar meiddist í baki og þurfti að fara af velli.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

„Garðar meiddist í baki og þurfti að fara af velli. Við vitum ekki nákvæmlega hvað þetta er en hann fer í skoðun í fyrramálið,“ sagði Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar, við Morgunblaðið eftir sigur á Gróttu, 4:1, í 32 liða úrslitum bikarkeppninnar í knattspyrnu í gærkvöld.

Garðar kom Stjörnunni yfir seint í fyrri hálfleik en var síðan skipt af velli undir lok fyrri hálfleiksins. Hann spilaði ekki síðasta leik Garðbæinga, gegn ÍBV í Eyjum, og það yrði áhyggjuefni fyrir Bjarna ef hann yrði lengur frá keppni.

„En á móti kemur að Ellert Hreinsson kom til landsins í nótt, fór beint í hópinn og kom inná fyrir Garðar. Það er gott að vera búinn að fá Ellert aftur og nú spilar hann með okkur út tímabilið,“ sagði Bjarni og kvað sigurinn á 2. deildar liði Gróttu alls ekki hafa verið auðveldan. „Nei, þetta var þrautin þyngri. Þeir eru með líkamlega sterkt lið og vörðust vel og við þurftum að hafa virkilega fyrir þessu. Þetta var hörkuleikur,“ sagði Bjarni.

Njarðvík stríddi Selfyssingum

Selfyssingar fengu enn harðari mótspyrnu frá 2. deildar liði Njarðvíkur sem var yfir lengi vel á Selfossvelli. Jon André Röyrane jafnaði fyrir heimamenn og Viðar Örn Kjartansson skoraði sigurmarkið fjórum mínútum fyrir leikslok, 2:1. Þá hafði Einari Marteinssyni, Njarðvíkingi, verið vísað af velli.

Afturelding, sem leikur í 2. deild, vann 3. deildar lið Þróttar í Vogum, 3:1, þar sem Wentzel R. Kamban skoraði tvívegis.

Breiðholtsliðið KB, sem leikur í 3. deild, er komið í 16-liða úrslit í fyrsta skipti eftir 1:0 sigur á KFS í Vestmannaeyjum. Sigmar Egill Baldursson skoraði markið í uppbótartíma.