Kolmunni Árgangurinn mælist nú sterkur í fyrsta skipti í árafjölda og er það von manna að stærri kolmunnaárgangar skili sér í auknum veiðum.
Kolmunni Árgangurinn mælist nú sterkur í fyrsta skipti í árafjölda og er það von manna að stærri kolmunnaárgangar skili sér í auknum veiðum. — Morgunblaðið/Friðþjófur Helgason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Skúli Hansen skulih@mbl.

Fréttaskýring

Skúli Hansen

skulih@mbl.is

Við sjáum þennan eina árgang nokkuð víða og hann gæti verið nokkuð stór,“ segir Sveinn Sveinbjörnsson fiskifræðingur, sem tók þátt í árlegum 24 daga rannsóknaleiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni sem lauk í síðustu viku.

Sveinn bætir við að ekki hafi náðst nógu góð mæling á árganginum ennþá, 2011-árganginum, en hann hafi sést hér og þar og meira verið af honum en af árgöngum undanfarinna ára.

Kemur til með að auka veiðar

„Hann kemur örugglega til með að auka þær ef þetta er eins og mér sýnist vera,“ segir Sveinn, aðspurður hvaða áhrif sterkari árgangur kolmunna muni hafa á kolmunnaveiðar á næstu árum. Að sögn Sveins skiptir miklu máli í þessu samhengi hvort það verði fleiri en einn góður árgangur. Hann segir um verulega breytingu að ræða á milli árganga.

„En við sjáum þetta ekki fyrr en þetta er komið inn í veiðina raunverulega eftir svona 2-3 ár. Þá förum við virkilega að sjá hvort þessi árgangur er svona stór eins og við vonumst til að hann verði,“ segir Sveinn og bætir við: „Ef allir næstu árgangar eru mjög lélegir þá mun það valda breytingum á veiðunum, það er nokkuð ljóst.“

Lélegir árgangar síðustu ár

Aðspurður segist Sveinn ekki geta sagt til um hvað valdi því að þessi árgangur virðist vera stærri en fyrri kolmunnaárgangar. „Við vitum ekki af hverju við höfum haft svona lélega árganga undanfarin mörg ár en fyrir þann tíma höfðum við þessa feiknalega stóru árganga sem héldu uppi miklu meiri veiði en við gátum búist við,“ segir Sveinn.

„Við hefðum átt að sjá minnkun í stofninum miðað við þær veiðar sem stundaðar voru af því að þegar við spáum um stofnstærð, á meðan við vitum ekki hvað árgangarnir eru stórir, reiknum við með meðalárgöngum oftast nær,“ segir Sveinn og bætir við: „En yfir heillangt tímabil voru árgangarnir miklu stærri en meðalárgangar þannig að það var hægt að halda uppi þessari miklu veiði.“

Að sögn Sveins er orðið mjög langt síðan síðast sást stór árgangur af kolmunna en hann segir kolmunnaárganga hafa verið lélega í langan tíma. „Nú förum við vonandi að sjá nýtt tímabil með góðum árgöngum en fyrstu vísbendingar fyrir þennan árgang virðast vera mjög góðar,“ segir Sveinn í samtali við Morgunblaðið.

Mjög jákvæðar fréttir

„Þetta eru mjög jákvæðar fréttir,“ segir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar. Að sögn Gunnþórs hefur stofninn verið í lægð á síðustu árum og nefnir hann sem dæmi að fyrir ári hafi verið úthlutað alls um 15 þúsund tonna kvóta af kolmunna. Í ár hafi kvótinn verið tæp 70 þúsund tonn en þegar kolmunnaveiðar hafi gengið sem best, fyrir u.þ.b. áratug, hafi menn verið að veiða yfir 400 þúsund tonn af kolmunna. „Það er alltaf jákvætt þegar fiskistofnarrétta úr sér,“ segir Gunnþór.

Spurður að því hversu verðmætur kolmunninn sé segir Gunnþór: „Hann er af stærstum hluta nýttur í mjöl- og lýsisvinnslu og það eru náttúrlega sterkir markaðir þar. Þannig að hann vegur mjög þungt hjá þeim fyrirtækjum og byggðarlögum sem eru í uppsjávarveiðum og vinnslu.

Kolmunnaveiðar

Náðu hámarki 2003

Kolmunnastofninn hefur verið í þónokkurri lægð á síðustu árum og eru kolmunnaveiðar núna ekki nema brot af því sem þær voru fyrir tæpum áratug.

Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu veiddu íslensk skip rúm 286 þúsund tonn af kolmunna árið 2002 en veiðarnar náðu hámarki árið 2003 þegar íslensk skip veiddu rúmlega 501 þúsund tonn af kolmunna.

Á síðasta ári voru kolmunnaveiðar hinsvegar verulega takmarkaðar en þá veiddu Íslendingar ekki nema 5.887 tonn af kolmunna eða sem nemur 1,2% af kolmunnaveiði ársins 2003. Í ár gengu kolmunnaveiðar hinsvegar töluvert betur en árið áður og var heildaraflinn rúm 58 þúsund tonn.

Samið er um heildarkolmunnaaflann árlega á ársfundi Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar.