Tómlegt Það er afar tómlegt í Úlfarsárdal þar sem fjölda lóða var skilað.
Tómlegt Það er afar tómlegt í Úlfarsárdal þar sem fjölda lóða var skilað. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Skúli Hansen skulih@mbl.

Fréttaskýring

Skúli Hansen

skulih@mbl.is

Reykjavíkurborg hafði borist formleg erindi frá eigendum tólf útboðslóða í Úlfarsárdal, samkvæmt svari Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi borgarstjóra, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar um stöðu lóðarhafa á nýbyggingarsvæðum borgarinnar, dagsettu 22. maí 2009. Öllum þessum lóðaeigendum var svarað með sama hætti, þ.e. á þann veg að ekki væri heimild til þess að skila útboðslóðum. Þar að auki höfðu reyndar allmargir lóðarhafar spurst fyrir símleiðis um möguleika á að skila lóðum en samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg er ekki til neitt yfirlit yfir þess háttar fyrirspurnir.

Í sama svarbréfi kemur jafnframt fram að 49 lóðum og 75 íbúðum, sem úthlutað var á föstu verði, við Reynisvatnsás hafi verið skilað og að samtals 56 lóðum og 320 íbúðum, sem úthlutað var á föstu verði, við Úlfarsárdal hafi verið skilað til borgarinnar.

Gat orðið dýrt fyrir borgina

Að sögn Kristbjargar Stephensen borgarlögmanns vildu 11 lóðarhafar til viðbótar fá að skila atvinnulóðum. Kristbjörg segir að búið hafi verið að reikna það út árið 2010 að ef allir þessir 11 lóðarhafa hefðu fengið að skila inn lóðum sínum þá hefði það kostað borgina tvo milljarða á þeim tíma. „Svo var búið að finna það út að ef allir íbúðarlóðarhafar, sem ekki voru búnir að hefja framkvæmdir, myndu vilja skila, og gætu það vegna sinna kröfuhafa, þá gæti það numið allt að þremur milljörðum,“ segir Kristbjörg og bætir við að þó svo að ljóst hafi verið að aldrei myndu allir skila þá var ekki vitað hversu hátt hlutfall þeirra myndi vilja skila lóðum sínum og sömuleiðis voru ekki heldur til nein gögn sem hefðu getað hjálpað við að leggja mat á raunkostnað við þetta.

Biðu átekta

„Það kom mjög fljótt í ljós í opinberri umræðu að Reykjavíkurborg væri að hafna því að taka við þessum lóðum. Því má ætla að fjölmargir lóðahafar hafi ekki sent inn formlega beiðni heldur beðið átekta eftir niðurstöðu dómstóla,“ segir Kristbjörg. Að sögn hennar fóru samtals fimm íbúðarlóðamál fyrir dómstóla, þar af þrjú alla leið upp í Hæstarétt. Þá segir hún að fjögur af þessum fimm málum hafi verið höfðuð af einstaklingum en eitt málanna hafi verið höfðað af verktaka sem ætlaði sér að byggja fjölbýlishús.

„Það var gert samkomulag um að það væri algjör óþarfi að áfrýja öllum fjórum málunum með tilheyrandi kostnaði fyrir aðila, að þeir skildu einungis áfrýja tveimur málum og að við myndum láta niðurstöðuna ráða í öllum fjórum málunum,“ segir Kristbjörg aðspurð út í þessi dómsmál og bætir við að til viðbótar þessu þá hafi Reykjavíkurborg unnið ellefu lóðamál fyrir héraðsdómi síðastliðinn mánudag. Að sögn hennar vörðuðu öll ellefu dómsmálin lóðir sem eru staðsettar í nýju hverfi sunnan Sléttuvegar en hins vegar hafi hin fimm dómsmálin öll varðað lóðir í Úlfarsárdal. Aðspurð út í þau stjórnsýslumál sem höfðuð voru gegn borginni vegna skila á lóðum segir Kristbjörg: „Það var þó nokkur fjöldi mála sem var kærður til ráðuneytisins sem úrskurðaði í öllum tilvikum Reykjavíkurborg í óhag. Reykjavíkurborg var ósammála þessum úrskurðum og taldi að niðurstaða ráðuneytisins væri ekki rétt og það reyndi á það í þessum málum sem fóru fyrir dómstóla.“

Lóðamál í Reykjavík
» Í maí árið 2009 hafði Reykjavíkurborg borist formleg erindi frá eigendum samtals 12 útboðslóða í Úlfarsárdal.
» Eigendum allra þessara tólf lóða var neitað um skil á lóðunum.
» Ellefu lóðarhafar til viðbótar vildu skila atvinnulóðum til borgarinnar.
» Að sögn borgarlögmanns var búið að reikna það út árið 2010 að ef fengist hefði að skila þessum 11 atvinnulóðum þá hefði það kostað borgina um tvo milljarða á þeim tíma.
» Ef heimilt hefði verið að skila öllum þeim lóðum þar sem framkvæmdir voru ekki hafnar þá hefði það getað kostað borgina um 3 milljarða, segir borgarlögmaður.
» Borgin vann ellefu héraðsdómsmál tengd lóðum sunnan Sléttuvegar síðastliðinn mánudag.
» Ekki eru til tölur yfir óformlegar skilabeiðnir af hálfu lóðarhafa, en þær munu hafa verið allmargar.