Tíðarandinn Neyslumynstrið breyttist við bankahrun. „Færri virtust vilja klæða sig upp eins og „bisnessmenn“. Greinilegt var að íslenskir menn fóru að leita í fjálslegra útlit,“ segir Sindri Sigurþórsson um ástandið.
Tíðarandinn Neyslumynstrið breyttist við bankahrun. „Færri virtust vilja klæða sig upp eins og „bisnessmenn“. Greinilegt var að íslenskir menn fóru að leita í fjálslegra útlit,“ segir Sindri Sigurþórsson um ástandið. — Morgunblaðið/Eggert
• Salan er góð hjá versluninni Karlmenn á Laugavegi en neytendur kaupa ekki sömu hlutina og áður • Hugsanlegt að tollar á fatnað framleiddan utan Evrópu hafi áhrif á smekk og tísku landans • Íslenskir karlar eru á margan hátt þægilegir viðskiptavinir við að eiga

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Sindri Már Sigurþórsson verslunarstjóri segir kreppuna hafa nær alveg farið framhjá herrafatabúðinni Karlmenn á Laugavegi. „Við fundum fyrir örlítilli niðursveiflu, en ástandið jafnaði sig fljótt og í dag getum við ekki sagt að við finnum mikið fyrir kreppunni,“ segir hann. „Bæði held ég að þarna hjálpi okkur að vera á góðum stað neðarlega á Laugaveginum, svo margir heimamenn og ferðamenn eiga leið hjá og líta við í búðinni. Eins mætti skrifa góða sölu á að við seljum vandaðan fatnað í milliverðflokki svo það er alls ekki dýrt fyrir heimamenn að versla við okkur til að halda fataskápnum í horfinu.“

Verslunin opnaði upphaflega á Laugavegi 74 árið 1997 og hét þá Íslenskir karlmenn. Það var faðir Sindra, Sigurþór Þórólfsson, sem stofnaði reksturinn en hann hafði áður unnið hjá Herragarðinum um langt skeið. Fyrir um fimm árum flutti verslunin á Laugaveg 7, með styttra nafn, og segir Sindri að það hafi verið töluverð viðbrigði að vera á nýja staðnum. „Við finnum það greinilega að hér á neðri hluta Laugavegsins er meira að gera, og er eins og ferðamennirnir nenni ekki allir að labba upp alla götuna.“

Stýra tollarnir tískunni?

Vöruúrvalið í Karlmönnum spannar allt það sem huggulega klæddir herramenn þurfa á að halda, frá pólóbolum, T-bolum og gallabuxum upp í jakkaföt, skyrtur og spariskó.

Fötin koma einkum frá framleiðendum í Þýskalandi og Danmörku. Þetta segir Sindri að skýrist af því að þar hafi verslunin fundið glæsilegan fatnað á réttu verði. Því sé samt ekki að neita að það hefur áhrif á innkaupin að lagður er 15% tollur á fatnað sem framleiddur er utan ESB.

„Íslendingar hafa svipaðan fatasmekk og íbúar Norður-Evrópu, og sennilegt að dæmigerður bandarískur herrafatnaður myndi ekki njóta mikilla vinsælda hér. Þó er gaman að velta fyrir sér hvort tískan á Íslandi og úrvalið í verslunum væri öðruvísi ef ekki væru lagðir þessir tollar á fatnað frá framleiðendum vestanhafs. Þó okkur kunni að þykja buxurnar þeirra fullvíðar og sniðið á jökkunum ekki nógu gott, þá er samt sem áður hægt að finna ýmislegt skemmtilegt hjá bandarískum hönnuðum sem óhagkvæmt væri að flytja inn vegna tollanna. Komin til landsins yrðu þessi föt einfaldlega of dýr.“

Vilja vera frjálslegri

Þó salan sé góð sést það á ólíkum vöruflokkum í búðinni að ástandið í samfélaginu hefur breyst. Neytendur kaupa sér aðrar flíkur en áður í takt við annan tíðaranda. „Strax eftir bankahrun féll t.d. sala á bindum alveg niður, og ekki fyrr en nú fyrst að við sjáum að hreyfing er aftur að komast á bindin. Færri virtust líka vilja klæða sig upp eins og „bisnessmenn“, minna fór af jakkafötum en meira af stökum buxum og jökkum. Greinilegt var að íslenskir menn fóru að leita í frjálslegra útlit,“ segir Sindri. „En um leið og bindin fóru og hálsmálin opnuðust sáum við líka að flestar skyrtur fóru að skarta einhverjum lit eða mynstri á innanverðu hálsmálinu og fleiri fóru að bregða á leik með vasaklút í brjóstvasanum á jakkanum.“

Eru ekki lengi að gera upp hug sinn

Það hefur sína kosti að reka verslun sem selur herrafatnað eingöngu. Sindri segir hálfglettinn að óneitanlega þurfi oft að hafa frekar lítið fyrir körlunum. „Oft sé ég það gerast að karlar koma til okkar með konum sínum, og eru búnir að velja sér jakkaföt á fimm mínútum. Karlinn á það þá til að hreykja sér af því að hafa verið svona snöggur, en ekki þurft eins og konan að grannskoða alla verslunina í klukkustund til að kaupa sér eina flík.“

Sindri segir stóran hóp íslenskra karlmanna leggja töluverðan metnað í að klæða sig vel og hugsa um útlitið, og kunna að meta úrvalið og þjónustuna í verslun eins og Karlmönnum. „Fyrir þá sem eru latari að hugsa um tísku og fatnað er svo oft umhyggjusöm eiginkona sem lætur sig varða hvernig húsbóndinn á heimilinu klæðir sig. Þær sjá þá um að draga manninn með sér í innkaupaferð, eða hreinlega kaupa fötin fyrir manninn og leggja það ekki einusinni á hann að koma og máta.“