Pálmi Ólason fæddist á Þórshöfn á Langanesi 1. maí 1934. Hann lést á Landspítalanum 25. maí 2012.

Útför Pálma fór fram frá Fossvogskirkju 5. júní 2012.

Afi var mjög góður afi. Hann var líka mjög góður maður og gaf mikið af sér. En ég þekkti afa-hliðina best og langar að skrifa nokkur orð um góðan afa.

Minningar um afa eru flestar frá Ytri-Brekkum að sumarlagi eða þegar ég var í pössun hjá ömmu og afa í Hraunbænum. Á Ytri-Brekkum fékk ég að aðstoða við að vökva hríslurnar með honum, leika lausum hala í náttúrunni og svo fórum við gjarnan í sund, frændsystkinin, með afa fremstan í flokki. Afabörnin voru alltaf í fyrsta sæti og við frændsystkinin áttum alltaf hauk í horni þegar foreldrarnir voru ósanngjarnir að okkar mati. Þegar ég fór í pössun til ömmu og afa í Hraunbænum horfði afi með mér ótrauður á teiknimyndir í sjónvarpsherberginu, stundum þær sömu þrisvar í röð. Mér þótti mjög skemmtilegt þegar afi bjó til gátur, en þær átti hann endalaust til. Það er ein vísa sem minnir mig á þá tíma og var oft sungin fyrir mig í pössun hjá ömmu og afa:

Afi minn og amma mín

úti' á Bakka búa.

Þau eru mér svo þæg og fín,

þangað vil ég fljúga.

(Höf. ók.)

Í seinni tíð hafði hann líka alltaf áhuga á því sem ég var að gera og fylgdist vel með öllu mínu. Það er svo margt sem ég get rifjað upp um gamla tíma með afa sem gleður mig og ég er mjög þakklát fyrir að hafa átt hann að svona lengi. Hvíl í friði.

Bríet Sveinsdóttir.