Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson lét ýmis athyglisverð orð flakka á blaðamannafundi í Brussel á dögunum.

Össur Skarphéðinsson lét ýmis athyglisverð orð flakka á blaðamannafundi í Brussel á dögunum. Sum þeirra vill hann helst að verði skýrð sem misskilningur erlendra blaðamanna sem séu þá væntanlega ekki mikið sleipari í erlendum tungumálum en sumir forystumenn Íslands.

En vandi Össurar á blaðamannafundum erlendis er sá að þeir eru gjarnan teknir upp og varpað út á lýðnetinu þar sem allur almenningur getur kynnt sér orðkynngi svarenda.

Eitt af því sem íslenskum almenningi kann að þykja forvitnilegt við að horfa á umræddan blaðamannafund er þegar utanríkisráðherra Íslands svarar spurningunni um það hvort Ísland sé reiðubúið til að opna hafsvæði sitt fyrir sjómönnum frá Evrópusambandinu.

Þessu svarar Össur svo: „Ísland verður opið fyrir því að uppfylla niðurstöður samningaviðræðnanna.“

Þá vita menn það. Utanríkisráðherrann hefur engin orð um það að miðin við Ísland séu fyrir Íslendinga, aðeins að farið verði eftir niðurstöðum „samningaviðræðnanna“.

Og Össur veit sjálfur, enda hefur Evrópusambandið ekki farið í felur með það, að í „samningaviðræðunum“ er ekki verið að semja um að breyta reglum ESB. Þar með liggur fyrir að Ísland sé að mati Össurar tilbúið til að opna miðin og hleypa útlendingunum aftur inn.