[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Karl Blöndal kbl@mbl.

Baksvið

Karl Blöndal

kbl@mbl.is

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, reyndi í gær að slá á væntingar með því að segja að hvorki væri að finna „skyndilausnir“, „auðveldar lausnir“ né „töfraþulur“ við skuldavanda Evrópu í ræðu, sem hún flutti á þýska sambandsþinginu áður en hún hélt til Parísar til viðræðna við Francois Hollande forseta Frakklands fyrir leiðtogafundinn, sem hefst í Brussel í dag. Taka yrði á rót vandans.

„Allt annað er dæmt til að mistakast frá upphafi,“ sagði hún. „Í besta falli yrði það gluggaskraut.“ Ræða Merkel stóð í 25 mínútur og varð hún ítrekað að gera hlé á máli sínu vegna lófataks.

Evrukreppan hefur nú staðið í tvö ár og mikill þrýstingur er á leiðtoga evruríkjanna um að skila árangri á fundinum. Merkel kvaðst ekki gera sér neinar grillur um stöðu mála.

Styrk Þýskalands takmörk sett

„Það verður ágreiningur í umræðunum í Brussel. Og enn á ný verða augu allra, eða að minnsta kosti augu margra, á Þýskalandi. En ég endurtek að styrkur Þýskalands er ekki ótakmarkaður,“ sagði hún.

Merkel hélt eftir ræðuna til Parísar til viðræðna við Hollande.

Hollande og Merkel greinir á um hvernig bregðast skuli við vandanum. Merkel hefur ekki dregið dul á að hún hefur ekki trú á að evruskuldabréf eða dreifing skulda eins evrulands á öll sé lausn til lengri tíma litið. Hugsunin á bak við slík skuldabréf er að auðvelda veikari ríkjum evrusvæðisins að fjármagna sig vegna þess að áhættunni yrði dreift á öll 17 evrulöndin.

Merkel sagði í fyrradag á fundi með þingmönnum frjálsra demókrata, FDP, að ekki yrði um sameiginlega skuldaábyrgð að ræða „svo lengi sem ég lifi“. Í gær tók hún ekki jafn sterkt til orða, en afstaðan var jafn skýr.

Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB, Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, Mario Draghi, yfirmaður seðlabanka Evrópu, og Jean-Claude Juncker, sem fer fyrir hinum svokallaða evruhópi, leggja til í skýrslu, sem rædd verður á fundinum, að dreifing ábyrgðar á skuldum eigi að hafa „forgang“, Merkel til mikillar skapraunar. Hún deili reyndar niðurstöðum skýrslunnar um aukinn samruna, til dæmis hvað varði eftirlit með bankastarfsemi og í fjármálapólitík, en telur áherslurnar vitlausar. Þessi atriði séu sett í annað sæti og að auki sett fram með ónákvæmum hætti.

Vill „dýpka“ samrunann

Francois Hollande, forseti Frakklands, sagði í gær fyrir fund sinn með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, að hann vildi „dýpka“ samruna Evrópu í efnahags- og gjaldmiðilsmálum. Leiðtogar ríkjanna með stærstu hagkerfin á evrusvæðinu báru í gær saman bækur sínar fyrir fund leiðtoga ESB í Brussel í dag.

Samskiptin milli Frakklands og Þýskalands eru stirðari nú, en þegar Nicolas Sarkozy var við völd.

Hollande hefur hins vegar komið til móts við Merkel með því að útvatna kröfu sína um evruskuldabréf. Þess í stað hefur Merkel komið til móts við kröfur Hollandes um peninga til að ýta undir hagvöxt með því að samþykkja 130 milljarða evra framlag í því skyni.