Jórunn Sigríður Thorlacius fæddist í Steintúni við Bakkafjörð 14. ágúst 1928. Hún lést á dvalarheimilinu Grund í Reykjavík 11. júní 2012.

Foreldrar hennar voru Þórarinn Valdimar Magnússon, f. 17.12. 1903, d. 6.8. 1978 og Sigurbjörg Sigurðardóttir, f. 29.5. 1901, d. 31.12. 1985. Systkini Jórunnar: Theódóra Thorlacius, f. 1927, Hólmfríður S. Thorlacius, f. 1929, d. 2006, Guðrún Anna Thorlacius, f. 1931, Sigfríð Thorlacius, f. 1932, d. 1965, Magna Þóranna, f. 1933, d. 1933, óskírður bróðir, f. 1938, d. 1938, Magnús Þórarinn Thorlacius, f. 1940, d. 1972, óskírður bróðir, f. 1942, d. 1942.

Fráfallinn eiginmaður Jórunnar var Sigtryggur Guðmundsson, f. 1927, d. 2012, saman áttu þau átta börn. 1) Kristín, f. 1953, hún á fimm börn og býr í Noregi, maki Ágúst Ármann Lárusson. 2) Arnkell Þór, f. 1955, hann býr í Danmörku, maki Tína Níelsen. 3) Sigurbjörg, f. 1957, hún á þrjú börn. 4) Brynjar, f. 1958, hann á fjögur börn, maki Sigþóra Oddný Sigþórsdóttir. 5) Guðmundur, f. 1960, hann á þrjú börn, maki Anna Magna Bragadóttir. 6) Guðrún, f. 1963, hún á tvö börn, maki Guðmundur Guðlaugsson. 7) Elva, f. 1965, hún á þrjú börn, maki Þórður Björnsson. 8) Óðinn, f. 1968, hann á tvö börn, maki Tipsuda Param. Fyrir átti Sigtryggur, eiginmaður Jórunnar, Helenu, f. 1948, hún á þrjú börn, maki Eiríkur Rósberg.

Jórunn ólst upp í Steintúni við Bakkafjörð, flutti til Reykjavíkur ung stúlka og vann við þjónustustörf á Hótel Borg. Fór síðan í Húsmæðraskóla Suðurlands, Laugarvatni, og útskrifaðist þaðan 1950. Fluttist síðar til Akureyrar þar sem hún kynntist Sigtryggi og giftust þau 31.12. 1954. Þau bjuggu á Akureyri til 1960 en þá fluttu þau suður til Reykjavíkur. Lengst af bjuggu þau í Hjaltabakka 22 í Breiðholtinu. Jórunn starfaði í Breiðholtsskóla um árabil.

Útför Jórunnar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 28. júní 2012, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku mamma.

Það er ekkert sárara í lífinu en það að kveðja þig en ég veit að þú ert frelsinu fegin eftir erfið veikindi síðustu ár. Pabbi sem dó í febrúar síðastliðnum er eflaust búinn að vera óþolinmóður að bíða eftir þér og er fremstur í móttökunefndinni hinum megin.

Fyrir mér varst þú besta mamma í heimi. Alltaf til staðar, sama hvað gekk á.

Þú ólst upp í stórum barnahópi og endaðir sjálf með átta börn. Það var í raun alveg sama hvaða vandamál maður leitaði með til þín, þú leystir þau með þinni visku, þekkingu og innsæi.

Hæfileikar þínir lágu víða, hvað þú varst flink í höndunum, að gera við flíkur og við saumaskap. Ég tók í raun fyrst eftir því þegar ég fór í sveit þrettán ára þegar bóndakonan fór að dást að handbragðinu á stoppuðum ullarsokkum og viðgerðum gallabuxum sem fylgdu mér. Maður gat ávallt leitað til þín með erfið skólaverkefni, sérstaklega í dönsku, í henni varstu góð því þú last ávallt dönsku blöðin þér til skemmtunar og lærðir hana þannig að miklu leyti.

Börnunum mínum varstu ávallt góð amma og fylgdust þau vel með þér í eldhúsinu þegar þú bakaðir kleinur eða pönnukökur sem voru reiddar fram á augabragði. Þar varst þú á heimavelli.

Þú varst mikið fyrir ættfræði, hafðir það frá föður þínum. Gast rakið ættir fjölskyldunnar langt aftur í tímann og miðlaðir því til okkar barnanna.

Þú varst alltaf svo ungleg og falleg kona, hraðgeng eins og ég, kattliðug alla tíð og heilsuhraust enda var góð heilsa og heilbrigt líferni mottó í þínu lífi.

Þú komst svo oft við hjá okkur í göngutúrum um hverfið og fékkst að hvíla lúin bein áður en lagt var í hann aftur.

Bestu stundir þínar voru úti í náttúrunni, á ferðalagi um landið og í berjamó. Þú varst mikil náttúrumanneskja, enda þekktir þú velflestar íslenskar jurtir og blóm. Þið pabbi áttuð svo góðar stundir saman í friðsældinni í Þjórsárdalnum.

Minning þín mun lifa með okkur öllum sem fengum að kynnast þér.

Við þökkum fyrir það af einlægni og ást.

Sorg?

Hljóða sorg?

Eldvígsla, sem öll við reynum,

innstæða í hugans leynum.

Handbær, þegar helst er þörf

að hefja þrek á æðra svið.

Haldbest er að hjartað ráði,

þegar liggur lífið við.

Ef við þekktum ekki myrkrið,

sæjum við ekki sólskinið.

(Þórarinn frá Steintúni)

Blessuð sé minning þín.

Þinn sonur,

Guðmundur Sigtryggsson.

Elsku mamma. Mig langar að kveðja þig og þakka þér fyrir allt sem þú gafst mér þau tæp 54 ár sem við áttum saman, þú varst alltaf okkur systkinunum stoð og stytta og má segja að þú hafir alið okkur upp meira og minna ein þar sem pabbi var löngum stundum að heiman við sín störf. Það hefur ekki alltaf verið létt verk að ala upp átta börn sem þú komst í þennan heim á aðeins 14 árum, en með þinni snilld og kænsku og hæfilegu kæruleysi tókst þér bara vel til og skilaðir góðu verki á þinni ævi sem var vægast sagt ekki alltaf dans á rósum. Ekki hafðir þú úr miklu að moða og þú þurftir því að staga í alla sokka, strauja þvott og sjá til þess að enginn úr hópnum væri svangur. Og mikið varstu snjöll þegar þú raðaðir okkur fimm gríslingum upp á eldhúsborð og stappaðir matinn á stóran disk og mataðir okkur því ekki var tími eða pláss til að fara að leggja á borð fyrir allan þennan hóp. Það var oft mannmargt hjá okkur heima á Hjaltabakkanum og hópur vina og kunningja sem fylgdu hverju okkar krakkanna með þeim hávaða og látum sem því fylgdi, þá sýndir þú ótrúlega þolinmæði sem maður hefur oft hugsað um þegar maður sjálfur stóð í sömu sporum. Og þegar við fórum að heiman og störfin léttust fóruð þið að geta gert meira fyrir ykkur sjálf, ferðast hér heima og til útlanda og komuð ykkur upp litlum sælureit í Þjórsárdalnum. Ég veit að síðustu ár hafa verið þér erfið og Alzheimers-sjúkdómurinn tekið mikið frá þér, þó þekktir þú okkur systkinin fram á síðasta dag. Mikið er ég þakklátur að hafa verið hjá þér þegar þú fórst og séð hvað það var þér mikill léttir.

Elsku mamma, ég kveð þið með ljóði eftir afa Þórarin.

Húmslæðu vefur um haf og láð

helköld örlaganótt.

Vindar gnauða við gættir og ljóra

til griða fær enginn sótt.

Leiðin, vinur, er lokuð til baka,

láttu útfallið við þér taka.

Í ævilokin fæst engu breytt.

Haustblaðið fellur í haf tímans, - hljótt og eitt.

Þinn

Brynjar.

Elsku amma okkar.

Það eina sem er gefið í lífinu er að allir þurfa að kveðja einhvern tímann. Þó svo að maður hafi alla ævi til þess að undirbúa sig þá er alltaf jafn erfitt að kveðja ástvini sína, jafnvel þótt það sé langt síðan við kvöddum þig eins og við þekktum þig.

Hér sitjum við, ekki enn búnar að átta okkur á því að þú sért búin að kveðja en huggum okkur við það að þú ert nú komin aftur til afa og allra þeirra sem þú hefur þurft að kveðja í gegnum árin. Bara að hugsa út í það hvað þú hefur gengið í gegnum og barist fyrir miklu en alltaf staðið bein í baki segir manni hvað þú varst sterk kona. Þú varst alltaf svo falleg, ekki skrítið að afi okkar hafi kolfallið fyrir þér. Vinir okkar hafa meira að segja haft orð á því hvað þú leist vel út á níræðisaldri með þitt perluhvíta hár og sléttu húð. Það eru fáar konur sem geta státað af því.

Þegar við horfum til baka á okkar æskuminningar þá koma fyrst upp í hugann þau ótal mörgu skipti sem fjölskyldan hittist heima hjá ykkur afa á Hjaltabakkanum. Þar stóðst þú alltaf fyrir þínu sem gestgjafi og borðin svignuðu undan öllum ömmukræsingunum og þá sérstaklega vöfflunum góðu. Og það er nú ekkert lítið verk að halda utan um svona stóra fjölskyldu. Samt varst þú alltaf til staðar fyrir okkur öll. Það sem við myndum ekki gera fyrir einn berjamó í viðbót eða eina ferð í Þjórsárdalinn með ykkur afa. Þar eigum við margar góðar minningar sem munu alltaf fylgja okkur.

Af öllum ljóðunum sem þú sagðir okkur þá er okkur minnisstætt þetta ljóð því það var þér svo kært. Þú baðst okkur að muna alltaf þessa vísu og á hún því alltaf góðan stað í hjörtum okkar.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Við eigum öll þér að þakka að halda fjölskyldunni saman.

Þú varst fyrirmyndareiginkona, mamma, amma, langamma og kona í alla staði. Þú ert hetjan okkar og við munum alltaf líta upp til þín.

Við efumst ekki um að þú munir njóta þín í Sumarlandinu með afa. Hvíldu nú í friði, elsku Jóa litla lóla.

Þínar ömmudætur,

Andrea, Jóhanna

og Þórey Rán.

Elsku Jórunn amma mín. Nú ertu farin í Draumalandið góða, þar sem Siddi afi bíður þín ásamt hóp af ættingjum og vinum sem taka vel á móti þér. Þú varst alveg yndisleg amma í alla staði og ég á svo margar góðar minningar um þig frá því ég fæddist. Held að það sé ekki hægt að finna hjartahlýrri manneskju á jörðinni. Myndir ekki gera flugu mein enda er mér og mörgum svo minnisstætt þegar þú bjargaðir býflugu út úr Hjaltabakkanum með báðum lófunum þar sem hún stakk þig að lokum. Sem lýsir svolítið hversu góð manneskja þú varst.

Á alveg hrúgu af æðislegum minningum um ykkur afa á Hjaltabakkanum þar sem allir í fjölskyldunni komu saman í kaffi og kleinur. Gisti oft og mörgum sinnum hjá ykkur sem barn og þið hugsuðuð alltaf svo vel um mig. Svo var ekki amalegt að hafa ömmu sína sem gangavörð í Breiðholtsskóla. Þar sem ég leitaði oft til þín og fannst gott að hafa þig nálægt, enda frekar viðkvæmur krakki í fyrstu bekkjunum. Ég man að þú elskaðir sól og ef það var gott veður þá varstu ekki lengi að tylla þér á góðan stað í kringum Hjaltabakkann. Sé bara fyrir mér sumarsól, þú í sólbaði og mikið af blómum í kringum þig og ég leikandi í kring að elta lífseiga köttinn ykkar, Mjásu. Ég myndi halda að það væri svipuð stemning þar sem þú ert núna með afa og Mjásu.

Ég ferðaðist mikið með ykkur afa um landið í hjólhýsinu góða þar sem planið var bara að elta sólina og stoppa í einhverri laut í óbyggðum. Þetta voru ævintýraferðir fyrir mig og þið eigið góðan þátt í að kenna mér að meta náttúruna betur. Alltaf þegar ég keyri niður Kambana sé ég okkur t.d. fyrir mér í hjólhýsinu í dalnum innan við Hveragerði í fallegu veðri við læk.

Þú ert mesta hetja sem ég veit um enda áttu skilið einhver verðlaun fyrir að ala upp átta börn á Hjaltabakkanum nánast ein meðan afi var að vinna mikið og fyrir að ala upp pabba minn sem er besti maður sem ég veit um. Og það sem þú hefur gengið í gegnum yfir ævina er ótrúlegt og sama hvað gerðist þá stóðstu aftur í lappirnar. Svo sterka og hugrakka manneskju er erfitt að finna. Lít mikið upp til þín og kann að meta allt sem þú hefur gefið mér í lífinu.

Ég trúi því varla að það sé komið að leiðarlokum, amma mín, og minning þín mun lifa í hjarta mínu það sem eftir er. Þú varst með stórt hjarta og vildir öllum svo vel. Held þú hafir verið lífssödd í endann og sért fegin að vera komin á góðan stað eftir erfið veikindi. Búin að eiga litríkt líf með Sidda afa, börnum þínum, barnabörnum og langömmubörnum. Ég kvaddi þig í seinasta skipti á Grund áður en ég fór til Flórída. Hélt í höndina á þér á meðan þú horfðir á mig, brosandi og vissir alveg hvað var í gangi. Síðan horfðirðu á eftir mér fara út úr herberginu, liggjandi með bros á vör.

Sakna þín, elsku amma, en ég trúi því að einhverntímann hittumst við aftur á góðum stað. Vil enda þetta á bæn sem þú sagðir alltaf með mér áður en ég fór að sofa á Hjaltabakkanum.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Daði Freyr.