Hrávara Óvissa um þróun efnahagsmála hefur lækkað verð á áli líkt og annarri hrávöru. Aukin eftirspurn eftir áli hefur á sama tíma dregið úr álbirgðum.
Hrávara Óvissa um þróun efnahagsmála hefur lækkað verð á áli líkt og annarri hrávöru. Aukin eftirspurn eftir áli hefur á sama tíma dregið úr álbirgðum. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnhildur Ásta Guðmundsdóttir gunnhildur@mbl.is Verð á áli hefur farið lækkandi á heimsmörkuðum undanfarna mánuði. Nemur lækkun meðalverðs áls á fyrstu sex mánuðum ársins um 13% á milli ára.

Gunnhildur Ásta Guðmundsdóttir

gunnhildur@mbl.is Verð á áli hefur farið lækkandi á heimsmörkuðum undanfarna mánuði. Nemur lækkun meðalverðs áls á fyrstu sex mánuðum ársins um 13% á milli ára. Á sama tíma hefur eftirspurn eftir áli verið að aukast á heimsvísu. Má m.a. rekja þróunina til mikillar aukningar á notkun áls í bílaframleiðslu en málmurinn léttir mjög farartæki sem dregur úr útblæstri þeirra og bensíneyðslu. Gert er ráð fyrir að framhald verði á þessari þróun á næstu árum og því séu horfur síst dökkar í áliðnaðinum.

Verð á áli við lokun markaða í gær, miðvikudag, nam 1.848 dollurum á tonnið. Er það nokkru lægra en í júnímánuði í fyrra þegar tonnið stóð í rúmum 2.500 dollurum.

Að sögn Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka álframleiðenda, er lækkunina nú öðru fremur að rekja til þróunar efnahagsmála á heimsmörkuðum, þ.e. óvissu á evrusvæðinu og til þróunar hagvaxtar í Kína. „Þetta hefur leitt til lækkandi hrávöruverðs almennt og þ.m.t. á áli.“

Eftirspurn að aukast

Á sama tíma og verð á áli hefur verið að lækka hefur eftirspurn eftir málminum verið að aukast jafnt og þétt að sögn Þorsteins. Jókst eftirspurnin um 11% í fyrra og gera áætlanir ráð fyrir um 7% aukningu í ár.

Einkum er um að ræða aukna eftirspurn frá framleiðendum samgöngutækja en notkun áls í t.d. bílaframleiðslu hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum. Er þar einkum verið að nýta léttari eiginleika álsins en annarra málma á borð við stál. Með því að létta bíla minnkar kolefnislosun þeirra og bensíneyðsla. Annar þáttur sem knýr áfram eftirspurnina er aukin iðnvæðing stórra ríkja á borð við Kína, Indland og Brasilíu þar sem álnotkun hefur verið að aukast mjög mikið. Horfur eru því bjartar fyrir áliðnaðinn en langtímaspár gera ráð fyrir álverði á bilinu 2.400 til 2.600 dollara næstu tvö til þrjú árin.

Ál í bílaiðnaði

Léttari bíll, minni eyðsla

Á undanförnum árum hafa bílaframleiðendur jafnt og þétt verið að auka magn áls í bílum á kostnað þyngri málmtegunda. Talið er að við hvert kíló af áli sem fer í bíl í stað stáls t.d. sé verið að létta bíl um 2 kg af heildarþyngd. Léttari bíll losar minna af kolefni út í andrúmsloftið auk þess sem hann eyðir minna bensíni.