Ómar Sigurðsson
Ómar Sigurðsson
Eftir Ómar Sigurðsson: "Þjóðin á skýlausan rétt á að Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir verði dregin fyrir landsdóm. Annað væri móðgun við þjóðina."

Á síðustu öld voru framsýnir menn sem komu fram með hugmyndir sem áttu eftir að skjóta stoðum undir uppbyggingu og framfarir hér á landi, langt umfram það sem annars staðar gerðist í heiminum. Uppúr aldamótunum 1900 var íslenska þjóðin bláfátækt bændasamfélag, undir yfirráðum Dana og við bjuggum í torfkofum. Með fullveldi þjóðarinnar kviknaði djörfung og framsækni manna á borð við Einar Benediktsson, sem hvatti til þess að við færum af árabátunum sem við ýttum úr vör og hefðum togaraútgerð. Við horfðum upp á Englendinga og Fransmenn mokfiska á togurum á fiskislóðum okkar. Þá hvatti Einar Benediktsson til þess að virkja fallvötnin, þjóðinni til framfærslu og beitti sér fyrir stofnun áburðarverksmiðju, sem var stóriðja þess tíma. Allt átti þetta eftir að rætast, þjóðinni til heilla og fullyrða má að þetta var það eina sem gat fært okkur úr torfkofunum í mannsæmandi híbýli. Að vísu eftir dag Einars Benediktssonar sem álasaði sjálfum sér að hafa ekki barist harðar og sett meiri þunga í málið til að flýta því. Einar felldi þungan dóm yfir sjálfum sér, „Að skiljast við ævinnar æðsta verk í annars hönd það er dauðasökin“ (E.B.)

Í dag stjórnar hugmyndasnauður hvítvínsklúbbur þjóðinni, ekki bara það, ríkisstjórnin drepur allar góðar hugmyndir aðrar en þær að opna eina búlluna enn í hundrað og einum. VG- og Samfylkingarliðið liðið situr á kaffihúsum 101 og sötrar hvítvín á miðjum dögum, á fullum launum hjá ríkinu. Það skilur ekki hinar vinnandi stéttir, eða kjör þeirra sem minna mega sín í samfélaginu sem nú borga reikninginn m.a. fyrir klúður Steingríms J. Sigfússonar sem kastaði út um gluggann nítján miljörðum í Sparisjóð Keflavíkur. Hverjir borga? Sjómenn, með hinum nýja landsbyggðarskatti (svokallað auðlindagjald), aldraðir og öryrkjar, eins og ævinlega hjá norrænu velferðarstjórninni; þessir hópar fá reikninginn. Skyldu Jóhanna og Steingrímur J. vera jafn kröfuhörð við sjálf sig og Einar Benediktsson var á sínum tíma? Nei, þau hafa ekki reisn eða hugrekki til þess. Bæði hafa þau verið dæmd sek af dómstólum landsins, Steingrímur þegar hann var landbúnaðarráðherra og Jóhanna sem forsætisráðherra. Sannleikurinn er sá að þau eru bæði of miklar bleyður til að axla ábyrgð. Til eru þeir sem halda því fram að þau leggi allt í sölurnar til að halda stjórninni saman, þó það bitni augljóslega á þjóðarhag, vegna ótta við að vera dregin fyrir landsdóm, og þjóðin á skýlausan rétt á því að það verði gert, við fyrsta tækifæri. Annað væri móðgun við þjóðina.

Höfundur er skipstjóri.

Höf.: Ómar Sigurðsson