Sigurður Jónsson
Sigurður Jónsson
Eftir Sigurð Jónsson: "Núverandi forseti hefur setið a.m.k. tvöfalt lengur í embætti en leyfa ætti."

Núverandi forseti hefur setið a.m.k. tvöfalt lengur í embætti en leyfa ætti og aðeins þess vegna er hann vanhæfur til áframhaldandi forsetastarfs. Því er reglan um tvö kjörtímabil eða 8 ár algeng í öðrum löndum. Valdið og hóglífi spillir fólki. Jafnvel þótt um sé að ræða ekki valdameira embætti en forsetastarfið, þá er greinilegt að áhrif langvarandi embættissetu í því eru þau sömu. Nú þegar sitjandi forseti býður sig fram í fimmta skiptið og ljóst er að hann og aðrir frambjóðendur munu skrifa sína starfslýsingu að verulegu leyti sjálfir þá vandast valið fyrir kjósendur. Skoðanakannanir sýna að Ólafur Ragnar er líklegastur til að hljóta forsetaembættið. Þeir sem eru af þeirri ástæðu sem ég nefndi í upphafi eða vegna embættisfærslu hans og vegna lýsinga hans á framtíðarstarfinu ekki tilbúnir að veita honum brautargengi hafa að sjálfsögðu íhugað hvort álitlegt sé að kjósa einhvern mótframbjóðenda hans.

Ef sú skoðun hefur leitt í ljós að þeir höfði ekki til kjósenda þá eru valkostirnir tveir, þ.e.a.s. að kjósa ekki eða að skila auðu.

Ég er ekki einn um það að finnast vanta einn viðbótarvalkost á kjörseðilinn, þ.e.a.s. að geta greitt því atkvæði að forsetaembættið verði lagt niður.

Forseti þingsins gæti sem best annast þau verkefni sem forseti hefur innt af hendi og nauðsynleg teljast. Síðan væri forsætisráðherra ótvíræður oddviti og málsvari stjórnar og framkvæmdavaldsins.

Því miður er borin von að þessum valkosti verði bætt á kjörseðlana fyrir forsetakjörið í ár, og þá eru valkostirnir aðeins tveir eins og áður sagði.

Höfundur er framkvæmdastjóri.

Höf.: Sigurð Jónsson