Guðrún Anna Björnsdóttir, skólastjóri frá Kornsá, fæddist 28. júní 1884 að Hofi í Vatnsdal en kenndi sig við bæinn sem hún ólst upp á. Foreldrar hennar voru Björn Sigfússon, alþingismaður á Kornsá, og Ingunn Jónsdóttir rithöfundur.

Guðrún Anna Björnsdóttir, skólastjóri frá Kornsá, fæddist 28. júní 1884 að Hofi í Vatnsdal en kenndi sig við bæinn sem hún ólst upp á. Foreldrar hennar voru Björn Sigfússon, alþingismaður á Kornsá, og Ingunn Jónsdóttir rithöfundur. Þau voru þekkt á sinni tíð, komin af norðlenskum bændum og embættismönnum.

Haustið 1901 fór Guðrún í Kvennaskólann á Blönduósi og lauk þaðan prófi 1902 þá átján ára gömul. Hún hélt áfram í Flensborgarskóla og lauk þaðan burtfararprófi 1904. Sama ár gerðist hún kennari í Kvennaskólanum á Blönduósi og var þar til 1907 og tvö ár í Ásahreppi til 1909. Guðrún var skipuð skólastjóri við Barnaskólann á Siglufirði 1909 og gegndi því starfi til 1918.

Ári eftir komuna til Siglufjarðar 1910 stofnaði hún Unglingaskóla Siglufjarðar og var aðalkennari þar til 1916. Hún var skólastjóri beggja skólanna um árabil.

Veturinn 1916-1917 fór hún í Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn og kom með í farteskinu dýrmætan fróðleik um nýjustu strauma barnauppeldis.

Í tíð Guðrúnar var síldarævintýri Siglufjarðar að hefjast og norskir sjómenn farnir að venja komur sínar þangað. Guðrún tók virkan þátt í málefnum samfélagsins og stjórnmálum. Hún var bæjarfulltrúi í fjögur ár og sat í yfirskattanefnd árin 1928-1940, þá var hún einn af stofnendum Kvenfélags Siglufjarðar. Tilgangur félagsins var meðal annars að efla andlegan þroska meðlima og koma á meiri samvinnu meðal kvenna ásamt því að styðja ýmis framfarafyrirtæki og hjálpa bágstöddum. Guðrún var meðal þeirra kvenfélagskvenna sem komu á fót barnaheimili á Siglufirði 1932. Þeim fannst mikilvægt að koma börnunum frá umferð og reykmengun sem hafði aukist vegna uppsveiflu í kringum síldarverksmiðjurnar.

Árið 1911 giftist hún Þormóði Eyjólfssyni, kennara, forstjóra og ræðismanni Siglufjarðar.

Guðrún lést 15. desember 1973.