[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Skiptar skoðanir eru um skynsamlega uppbyggingu hlutabréfamarkaðarins • Ýmsir telja æskilegt að hvetja minni fyrirtæki sem hafa mikinn metnað til að stækka til að sækja eigið fé á markað • Forstjóri Kauphallarinnar lítur til Marel og...

• Skiptar skoðanir eru um skynsamlega uppbyggingu hlutabréfamarkaðarins • Ýmsir telja æskilegt að hvetja minni fyrirtæki sem hafa mikinn metnað til að stækka til að sækja eigið fé á markað • Forstjóri Kauphallarinnar lítur til Marel og Össurar í því samhengi • Aðrir telja að fyrirtæki verði að vera nokkuð stöndug til að skynsamlegt sé að skrá þau á markað • Marel og Össur hafa vaxið hratt á skömmum tíma og standa enn í lappirnar

Fréttaskýring

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Forstjóri Kauphallarinnar hefur sagt í viðtali í Morgunblaðinu að hann hafi mikinn áhuga á að fá einnig minni fyrirtæki í Kauphöllina. Ekki bara stór félög. Hann benti á að Marel og Össur, sem eru meðal flottustu fyrirtækja landsins, hafi verið nokkuð lítil þegar þau voru skráð á markað. Morgunblaðið skoðaði því nánar sögu félaganna.

Það sem félögin eiga sammerkt er að þau eru tæknifyrirtæki og eru stofnuð þegar ákveðin tæknibylting verður í heiminum, sem gerir litlum fyrirtækjum frá litlu landi, kleift að vera í alþjóðlegri starfsemi. Svo þegar ódýrt lánsfjármagn flæðir yfir heimsbyggðina grípa þau tækifærið og fara að kaupa fyrirtæki. Og stækka ört. En það er annað sem er ekki síður mikilvægt: Þegar lánsfjárkrísan skellur á standa fyrirtækin í lappirnar.

Kauphöllin er ung

Kauphöllin hér er ung að árum og var markaðurinn á bernskustigi þegar félögin voru skráð. Mögulega hefur það haft sitt að segja um góðan árangur á upphafsárunum. Við erum enn að reyna að byggja upp skynsamlega menningu á markaði. Það er til dæmis ekki langt síðan venjulegt fólk skuldsetti heimili sín til að kaupa bréf í deCode, og fór illa út úr því. Venjulegt fólk sem fjárfesti í hlutabréfum og átti þau enn í hruninu er reyndar væntanlega enn með óbragð í munninum. En við erum enn að læra og það er til mikils að vinna að koma upp öflugum hlutabréfamarkaði.

Áður en lengra er haldið er ágætt að hugleiða hvað Kauphöll er. Þetta er vettvangur til að para saman fjármagn og viðskiptatækifæri. Það er hlutverk Kauphallarinnar og Fjármálaeftirlitsins að búa til skynsamlegan ramma og gæta þess að ekki sé verið að bjóða upp á falskar vörur. Annars er það í grunninn afar mikilvægt að það sé auðvelt fyrir fyrirtæki að fá skráningu á markað og fyrir fjárfesta að taka þátt í honum. Regluverkið má hvorki fæla frá góð viðskiptatækifæri né fjárfesta.

Ólíkar hugmyndir um hlutverk

Sumir sem blaðamaður hefur rætt við eru sammála þessari stefnubreytingu hjá Kauphöllinni. Að hún verði meðal annars vettvangur fyrir duglegt fólk til að afla fjár fyrir lítil fyrirtæki sem hafi í kjölfarið tækifæri á að stækka og dafna. Aðrir telja að fyrirtækin verði að vera nokkuð stór, væntanlega ekki minni en verslunarfyrirtækið Hagar, til að geta lifað góðu lífi á markaði, t.d. til að tryggja eðlilega verðmyndun.

Sé áhugi fyrir því hjá minni fyrirtækjum að afla fjármagns með hlutafjáraukningu, er afar mikilvægt að þau sé metnaðarfull og hafi í hyggju að stækka og eflast. Það nefnilega blasir við að stjórnendur Marels og Össurar voru afar metnaðarfullir. Það má heldur ekki líta fram hjá því, að við skráningu stunduðu bæði fyrirtækin umfangsmikil viðskipti á erlendri grundu.

Þegar mest lét voru 75 fyrirtæki skráð í Kauphöllina, þar á meðal fyrirtæki eins og Hans Petersen, sem rak fáeinar verslanir, og eru viðmælendur blaðsins sammála um að fyrirtækið hafi ekki átt erindi á markað. Þetta snýst nefnilega um metnað stjórnenda, auk þess verða fyrirtækin hafa rétta menningu til að geta verið á markaði og góð tölvukerfi til að geta veitt fjárfestum góðar og mikilvægar upplýsingar.

Fram að bankahruni drottnuðu íslensku bankarnir í Kauphöllinni og má segja, að þeir hafi verið svo fyrirferðarmiklir að fjárfestar hafi lítið litið til annarra tækifæra undir það síðasta.

Sumir telja að það hafi verið eðlilegt fyrir jafn stór fyrirtæki að færa sig yfir á erlenda markaði. Með því hafi áhugi fjárfesta mögulega glæðst á öðrum innlendum félögum, og það hafi verið auðveldara fyrir bankana að fanga athygli erlendra fjárfesta. Meðal annars vegna þess að margir erlendir fjárfestar horfa ekkert til íslensku kauphallarinnar og þetta yki líkur á að fá erlend greiningarfyrirtæki til að fjalla reglulega um fyrirtækin, en skoðanir greiningaraðila skipta fjárfesta miklu máli. Með því að skrá fyrirtækin í kauphöll þar sem önnur áþekk fyrirtæki eru, næst athygli fleiri fjárfesta sem eru sérhæfðir í grein fyrirtækisins. Það sem hefði líka áunnist með því að færa bankana úr íslensku Kauphöllinni, er að bréfin hefðu verið skráð í annarri mynt en íslensku krónunni, en margir fjárfestar vilja ekki taka bæði rekstraráhættu og gjaldmiðlaáhættu.

En þá komum við að annarri hlið á þessu máli: Í kauphöllum lítilla landa hljóta það að vera stór alþjóðleg félög sem bera af – ekki innlend félög sem rekast til þess að gera snemma á veggi, hvað varðar vöxt. Það sem innlendir fjárfesta græða á því að kaupa í slíkum félögum er annars vegar að mögulega getur fyrirtækið vaxið mikið og með fjárfestingunni er verið að veðja á alþjóðlegan markað; fyrirtækið er með alþjóðlegar tekjur sem er æskilegt fyrir áhættudreifingu. En mögulega hafa innlendir fjárfestar ekki þekkingu á því að fara sjálfir út í heim með sitt fé. Almennir borgarar hefðu mögulega misst af miklum vaxtarfyrirtækjum hefðu þau verið annars staðar. Sem sagt: Sumir telja að Kauphöllin eiga að vera vettvangur fyrir minni fyrirtæki til að vaxa og dafna, en þegar þau hafi náð ákveðinni stærð, sé æskilegt að þau leiti á aðra markaði, til að ná til erlendra fjárfesta. Aðrir telja að Kauphöllin eigi að vera vettvangur fyrir stöndug íslensk fyrirtæki, og að það sé óhjákvæmilegt að alþjóðleg félög muni verða þar fyrirferðarmest.

Svo eru kauphallir að sjálfsögðu eins og hver önnur fyrirtæki að því leyti að það er æskilegt að þær sérhæfi sig, að þær finni sér einhverja ákveðna syllu eða sérstöðu. En þessi sérstaða getur ekki verið heimalandið, því stórir fjárfestar sérhæfa sig sjaldan í löndum, þeir kjósa mun frekar að sérhæfa sig í ákveðnum greinum. En svo má velta því fyrir sér, hvort Ísland sé of lítið fyrir sérhæfða kauphöll. Íslenska kauphöllin reyndi á tímabili að sérhæfa sig í sjávarútvegi. Hún var næststærsta sjávarútvegskauphöll í heimi árið 2002 á mælikvarða markaðsvirðis og með flest skráð félög eða 19. Nú er einungis ein útgerð skráð í Kauphöllina. En hvernig sjá stjórnendur Kauphallarinnar þetta fyrir sér? Þeir horfa töluvert aftur til ársins 2004. Þeim þykir æskilegt að hér séu 30-40 fyrirtæki.

Marel hóf íslensku útrásina með stórri yfirtöku

Marel hefur þrisvar sinnum tvöfaldað stærð sína með yfirtökum sem það hefði væntanlega ekki getað ef það væri ekki skráð á hlutabréfamarkað. Segja má að félagið hafi hafið íslensku útrásina árið 1997 þegar það keypti danska félagið Carnitech, sem var jafn stórt og Marel á þeim tíma.

Útrásarsaga Marels er reyndar ansi löng. Félagið var stofnað árið 1983 og tveimur árum síðar opnaði það söluskrifstofu í Kanada. Metnaður hefur því ávallt verið fyrir hendi. Á sama tíma eru önnur félög að reyna fyrir sér erlendis, Eimskip, Flugleiðir og Sambandið. Tíðarandinn hefur því mögulega haft sitt að segja.

En byrjum á byrjuninni. Uppruna fyrirtækisins má rekja til eðlisfræðistofu raunvísindadeildar Háskóla Íslands sem Páll Theodórsson veitti forstöðu. Þar var verið að skoða hvernig nýta mætti tölvutæknina sem var að fæðast til að bæta nýtingu og afköst í fiskiðnaði. Rögnvaldur Ólafsson, prófessor í verkfræðideild, er oft titlaður sem frumherjinn að baki fyrirtækinu. Hann aftur á móti vann einungis stuttan tíma fyrir fyrirtækið sjálft.

Fyrstu vörur fyrirtækisins voru tölvuvogir m.a. til að vega og skrá fisk í fiskvinnslustöðvum. Fyrst um sinn voru þær sérsmíðaðar fyrir hvern og einn viðskiptavin en svo var þróuð ný útgáfa sem hægt var að fjöldaframleiða. Með þróun voga sem var mögulegt að nota um borð í skipum tók fyrirtækið mikinn vaxtarkipp, jók veltu og umfang á alheimsmarkaði. Það er á þeim tíma sem félagið fer á markað. Marel var skráð á markað 29. júní árið 1992 til að afla fjár fyrir fyrirsjáanlegan vöxt félagsins. Á morgun hefur félagið verið skráð í Kauphöllina í tuttugu ár. Í fyrsta hlutafjárútboðinu sem farið var í, til að skrá bréfin á markað, var aflað 28 milljóna króna. Á þessum tíma komu 80% teknanna frá útlöndum.

Um svipað leyti höfðu verkfræðingar fyrirtækisins breytt vélum sem Marel hafði þróað fyrir fisk og aðlagað þær fyrir kjúklingaiðnaðinn í Bandaríkjunum. Þeir voru sem sagt að nýta sér þekkingu sem var aflað í einum iðnaði fyrir annan markað. Það var svo um aldamótin sem fyrirtækið smíðar vélar frá grunni fyrir kjúklingaiðnaðinn.

Það voru ellefu félög skráð á markað árið 1992. Starfsmenn Marel voru 46 í lok ársins og tekjurnar voru innan við hálfur milljarður króna. Við skráningu kom drjúgur hluti teknanna frá Rússlandi. En á þessum tíma breyttist áhersla fyrirtækisins frá því að einblína á þjónustu við sjávarútveg í að sinna bæði sjávarútvegi og kjúklingaiðnaði.

Þetta varpar ljósi á hverju öflugir kjölfestuatvinnuvegir geta áorkað. Fyrirtæki fá þar tækifæri til að þjónusta þá, byggja upp þekkingu sem síðan er hægt að nýta annars vegar í öðrum greinum og hins vegar getur það verið grundvöllur að útrás. Heimamarkaðurinn hjálpaði til við uppbyggingu á vöru eða þjónustu sem hægt var að selja erlendis.

Fyrsta stóra yfirtakan

Nú komum við að tímamótum í íslensku viðskiptalífi: Fyrsta stóra yfirtakan á erlendu félagi. Marel tók Carnitech yfir árið 1997 en það var stærra og hafði betri afkomu en Marel. Carnitech framleiddi tækjabúnað fyrir matvælavinnslu, bæði á sjó og landi. Eftir yfirtökuna fór velta Marel í 4,5 milljarða króna. Árni Oddur Þórðarson, núverandi stjórnarformaður Marels og forstjóri Eyris, sem er kjölfestufjárfestir Marel, var fjármálaráðgjafi hjá Búnaðarbankanum á þessum tíma og var ráðgjafi í tengslum við yfirtökuna. Til að afla fjár fyrir yfirtökunni var farið í 550 milljóna króna hlutafjáraukningu auk þess sem Norræni fjárfestingarbankinn lánaði jafnvirði 200 milljóna íslenskra króna í danskri mynt.

Árið 1995 var ákveðið að skjóta þriðju tekjustoðinni undir reksturinn; kjötiðnaði. En áður var fyrirtækið þekkt fyrir lausnir fyrir kjúklingaiðnað og sjávarútveg, eins og áður sagði.

Það vill svo skemmtilega til að árið 2004 kaupir fjárfestingafélagið Eyrir, undir forystu Árna Odds, stóra hluti í bæði Össuri og Marel, sem eru umfjöllunarefni úttektarinnar. Eyrir átti stóran hlut í Össuri í sjö ár en er enn þann dag í dag kjölfestufjárfestir í Marel. En þessi nýi eigandi fær klapp á bakið frá mörgum viðmælendum blaðsins fyrir hversu vel næstu yfirtökur tókust.

Ákveðið að þrefaldast á fáum árum

Á aðalfundi í upphafi árs 2006 var kynnt ný stefna; Marel ætlaði að verða leiðandi á sínu sviði – og það hratt. Auka átti veltu fyrirtækisins í 500 milljónir evra úr 129 milljónum á árinu 2006 á þremur til fimm árum með yfirtökum, sem sé þrefalda umfang fyrirtækisins. Stjórnendur þess töluðu um þetta opinberlega, annars vegar til að fá starfsmennina í lið með sér og til að laða að fjármagn fyrir þessa nýju stefnu. Í kjölfarið var blásið til 5,5 milljarða króna hlutafjáraukningar og um 6 milljarða skuldabréfaútboðs.

Danski keppinauturinn Scanvægt, sem var næstum því jafn stór og Marel, var keyptur árið 2006. Eigandinn, Grundtvig Invest A/S, fékk borgað í reiðufé og hlutafé í Marel og á um 8% í félaginu í dag. Erlendir aðilar eiga um 17% í félaginu í dag, næststærstur er bandaríski hlutabréfasjóðurinn Columbia Acorn International með 5% hlut. Erlendir greiningaraðilar skrifa ekki greiningar um fyrirtækið.

Enn fremur var keyptur rekstur og eignir tveggja breskra félaga árið 2006, AEW Thurne og Delford Sortaweigh, fyrir um 13,6 milljónir punda, sem samsvaraði þá um 1,2 milljörðum króna. Kaupverðið var fjármagnað með eigin fé, sem sótt var með fyrrnefndri hlutafjáraukningu og fyrrnefndri skuldabréfaútgáfu.

Og að lokum var það stóri áfanginn: Stork. Það tók reyndar tvö ár að komast að samningaborðinu en í maí 2008 – rétt fyrir bankahrun – var Stork yfirtekið fyrir 38 milljarða króna. Með yfirtökunni meira en tvöfaldaðist umfang Marel. Til að fjármagna kaupin var m.a. farið í 15 milljarða króna hlutafjáraukningu.

Marel er fjármagnað af þremur hollenskum bönkum auk þess sem Landsbankinn kemur einnig þar að. Eins og sést af þessari yfirferð hefur skráning á hlutabréfamarkað reynst fyrirtækinu mikilvæg.

Össur fór frá einni vöru í að vera næststærstur í heimi

Hefur vaxið mikið með yfirtökum

Össur hefur á tólf árum breyst úr því að bjóða upp á nánast eina vöru í að vera næststærstur í sinni grein á heimsvísu. En fyrirtækið er með um 20% markaðshlutdeild í stoðtækjum í Evrópu og Bandaríkjunum. Hluthafahópurinn hefur líka tekið miklum breytingum enda eru nú um 65% þeirra erlendir. Þegar fyrirtækið var skráð á markað árið 1999 framleiddi það sílíkonhulsur fyrir fótleggi og seldi með aðstoð dreifingaraðila.

Stjórnendur fyrirtækisins voru stórhuga enda var það skráð á markað til að fjármagna vöxt og yfirtöku á erlendu félagi. Össur aflaði 78 milljóna dollara í tveimur hlutfjárútboðum á árunum 1999 og 2000 en á þessum tíma var veltan inna við 50 milljónir dollara eða um einn milljarður króna og starfsmenn um hundrað. Markaðsvirði fyrirtækisins var um fjórir milljarðar króna við skráningu í Kauphöll.

Fjármunirnir sem fengust í hlutafjáraukningunum voru nýttir til að yfirtaka önnur félög, einkum FlexFoot í Kaliforníu, sem var um helmingi stærra en Össur, og bjó til koltrefjafætur.

Það má þó ekki gleyma því, að þegar þarna var komið við sögu hafði Össur verið rekið í nær þrjá áratugi. Fram að þessari afdrifaríku ákvörðun að skrá félagið á markaði var því langur aðdragandi. Stofnandi þess, Össur Kristinsson, réð Jón Sigurðsson, núverandi forstjóra félagsins, árið 1996 og segja má að hann beri mikla ábyrgð á að hafa umbylt félaginu. Um leið og Jón tók við stjórnartaumunum fór hann að reka félagið líkt og það væri skráð í Kauphöll og þremur árum seinna fer það á markað. En á þessum tíma er fjöldi skráðra félaga í Kauphöllinni í methæðum eða 75.

Með yfirtökunum eykst vöruframboð fyrirtækisins. Ef einhver er aflimaður fyrir ofan hné þarf viðkomandi nýtt hné. Enn fremur þarf eitthvað til að halda stoðtækinu, og það er hlutverk sílikonhulsunnar, vörunni sem kom Össuri á kortið. Á skömmum tíma, vegna yfirtakanna, gat Össur boðið upp á heildarlausn í stoðtækjum fyrir fætur: Ökkli, hné, hulsa auk þess sem félagið keypti dreifingarfyrirtæki í Skandinavíu og setti á fót söluskrifstofu í Bandaríkjunum.

Það er að mörgu leyti áhugavert að á Íslandi hafi tekist að skapa stóran stoðtækjaframleiðanda enda hefur hann ekki stóran heimamarkað til að byggja á. Það er jú blessunarlega svo, að afar fáir Íslendingar eru aflimaðir á ári hverju. En öflugur heimamarkaður er oft góður jarðvegur fyrir fyrirtæki til að vaxa og dafna. Það er jú mun auðveldara fyrir minni fyrirtæki að ná árangri á heimamarkaði en úti í hinum stóra heimi.

Herjað á nýjan markað

Raunar er það svo, að þessi markaður er til þess að gera lítill á heimsvísu. Stjórnendur ákváðu því að fara yfir á stærri leikvöll. Eftir að hafa skoðað málin var talið skynsamlegt að herja einnig á spelkumarkaðinn. Þær styðja við útlimi þegar á þarf að halda. Farið var í nokkuð litla yfirtöku árið 2003 en svo tvær ansi stórar árin 2005 og 2006, og raunar aðra minni til viðbótar. Bandaríska félagið Royce Medical var keypt fyrir 216 milljónir dollara og franskt félag Gibaud fyrir 130 milljónir dollara. Á þessum tíma vex fyrirtækið um nánast 90% og verkefnið hefur æ síðan verið að samþætta reksturinn. Búa til eitt félag úr öllum þessum félögum sem hafa verið yfirtekin. Enda vill félagið búa til eina heild en ekki vera eignarhaldsfélag sem á fjölmörg ósamstæð fyrirtæki í svipuðum geira. Fyrirtækið er annað stærst í spelkunum á heimsvísu, en á móti kemur þarf ekki jafnvel mikla hlutdeild til að ná þeim árangri og í gerviútlimunum. Markaðshlutdeildin er um 5-7%.

Erlendir fjárfestar

Upp úr aldamótum fóru stjórnendur Össurar að vinna að því að fá erlenda fjárfesta í hluthafahópinn. Liður í því var að birta fréttatilkynningar og annað efni sem höfðar til fjárfesta á ensku. Össur er enn fremur fyrsta fyrirtækið sem fær að gera upp í erlendri mynt. Það var árið 2002 og þurfti lagabreytingu til. Raunar er það samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastaðli að gera upp í þeirri mynt sem fyrirtækið hefur mest umsvif í og það er dollar í tilviki Össurar. Stjórnendurnir sáu að það flækti málin verulega að þurfa að útskýra verðbólgureikningsskil fyrir áhugasömum, erlendum fjárfestum. Það er afskaplega óheppilegt að eyða löngum tíma í að ræða um krónuna og verðbólgu í stað þess að ræða um rekstur fyrirtækisins og var því ákveðið að semja reikningsskil félagsins í takt við alþjóðlega reikningsskilastaðla þegar árið 2003. Örfáum árum síðar var skylda að fylgja eftir staðlinum hér á landi.

Á sama tíma töldu stjórnendur fyrirtækisins það mikilvægt að fá að skrá hlutabréf fyrirtækisins í dollurum til að ryðja þeirri hindrun sem krónan er úr vegi fyrir erlenda fjárfesta.

Fjárfestar, sérhæfðir í heilbrigðisiðnaði, höfðu áhuga á fyrirtækinu en vildu ekki bæði taka rekstraráhættu með því að fjárfesta í félaginu og líka gengisáhættu. Við Íslendingar þekkjum vel hversu mikið krónan getur sveiflast á skömmum tíma. Ráðherra breytti lögum svo þetta mætti verða að veruleika en rekstraraðili greiðslumiðlunarkerfisins, Seðlabankinn, heyktist á breytingunni sem og stjórn Kauphallarinnar.

Þetta hefur verið nokkuð viðburðaríkt ár, því á sama tíma kom fyrsti erlendi hluthafinn í hluthafahópinn. Það var alþjóðlega sjóðsstýringafyrirtækið Fidelity. Ári síðar varð sænska fjárfestingafélagið Industriverden meirihlutaeigandi í félaginu. Tveimur árum seinna, eða 2004, keypti núverandi aðaleigandi Össurar, danski fjárfestingasjóðurinn William Demant Invest, í félaginu. Stærsti lífeyrissjóður Danmerkur, ATP, kemur í hlutahafahópinn árið 2007. Erlendir aðilar halda á um 65% hlut í félaginu, þeir eru um 600 og eru danskir, breskir og bandarískir. Stjórnendur Össurar vilja fjölga erlendum hluthöfum enn frekar.

Fyrsta erlenda greiningarfyrirtækið fór að skrifa greiningar um Össur árið 2006. Það var mikilvægur áfangi til að ná eyrum erlendra fjárfesta. Nú skrifa fjögur erlend fyrirtæki greiningar um Össur. Félagið er með tvíhliða skráningu á hlutabréfamörkuðum, það var einnig skráð í kauphöllina í Danmörku árið 2009. Vegna gjaldeyrishaftanna fór félagið í 30 milljóna dollara hlutafjáraukningu til að koma viðskiptunum af stað. Það þurfa jú að vera einhver bréf til staðar til að höndla með.

Fyrirtækið er alfarið fjármagnað af erlendum bönkum, Nordea, SEB og ING. Sá samningur var gerður á síðasta ári og í kjölfarið fékk gamli banki Össurar, sem var Kaupþing, 300 milljónir dollara til baka. Þrátt fyrir mikinn vöxt að undanförnu getur Össur ráðist í allt að 70 milljóna dollara yfirtöku án frekari fjármögnunar. Og hvaðan koma tekjur Össurar? Helmingurinn er frá Bandaríkjunum, 40% frá Evrópu, 5% frá Asíu og lítið brot frá Íslandi.