Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Eftir Stefán Gíslason: "Það er fullkomlega eðlilegt að forseti Íslands tali máli atvinnulífsins almennt, en það er hins vegar ótækt að forsetinn gerist málsvari einstakra fyrirtækja og einstaklinga..."

Ég ætla ekki að kjósa Ólaf Ragnar Grímsson á laugardaginn. Fyrir því eru nokkrar ástæður, en ein þeirra dugar til að útiloka hann sem valkost í forsetakosningunum. Þessi eina ástæða er þáttur Ólafs Ragnars í atburðarásinni sem leiddi til hruns íslenska bankakerfisins haustið 2008.

Þáttur Ólafs Ragnars Grímssonar í aðdraganda bankahrunsins er rakinn í Viðauka I við Rannsóknarskýrslu Alþingis. Þar kemur fram að forsetinn hafi verið áberandi sem boðberi útrásarinnar og hafi beinlínis gengið „erinda tiltekinna fyrirtækja eða einstakra fjárfesta“. Það er fullkomlega eðlilegt að forseti Íslands tali máli atvinnulífsins almennt, en það er hins vegar ótækt að forsetinn gerist málsvari einstakra fyrirtækja og einstaklinga og skrifi jafnvel meðmælabréf fyrir þá persónulega í nafni embættis síns. Í rannsóknarskýrslunni eru tilgreind fjölmörg dæmi um þetta. Með þessu brást forsetinn hlutverki sínu og um leið trausti þjóðarinnar.

Ólafur Ragnar hefur mótmælt ýmsu af því sem sagt er um verk hans í rannsóknarskýrslunni. Þau mótmæli breyta þó ekki atburðarásinni afturvirkt. Margt af því sem kemur fram í skýrslunni er stutt með orðréttum tilvitnunum í bréf forsetans. Þau tala sínu máli. Meðal annarra dæma um óeðlilega beitingu forsetaembættisins í þágu einstakra fyrirtækja má nefna hádegisboð sem hann hélt á Bessastöðum 2004 fyrir tvo stjórnendur Singer & Friedlander sem „voru að kanna trúverðugleika Kaupþings [] til að sannfæra þá um ágæti bankans“. Sama ár „hélt forsetinn kvöldverði fyrir seljendur norskra banka sem Glitnir var að kaupa“ og ári síðar „var samningur Eimskips við aðila í Kína undirritaður á Bessastöðum“. Kannski birtust óeðlileg tengsl forsetans við viðskiptalífið þó allra gleggst í bréfi hans 28. janúar 2007 til Al Gores, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, þar sem fram kemur að fyrirlestur forseta Íslands á fyrirhugaðri ráðstefnu á vegum Gores „will be sponsored by Glitnir Bank“. Slík kostun er með öllu óásættanleg þegar þjóðhöfðingi á í hlut.

Hér hefur aðeins verið drepið á örfá atriði í rannsóknarskýrslunni, en auðvelt er að kynna sér málið nánar á www.rannsoknarnefnd.is, (8. bindi). Meginniðurstaða mín er sú að forseti sem hefur fengið slíka umsögn með réttu sé ekki hæfur til að gegna embættinu áfram. Í forsetakjörinu á laugardaginn getur þjóðin hins vegar valið á milli 5 annarra frambjóðenda, sem allir eru hæfir til starfans.

Höfundur er umhverfisstjórnunarfræðingur í Borgarnesi.

Höf.: Stefán Gíslason