[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þýsku knattspyrnuliðin Wolfsburg og Bayern München hafa komist að samkomulagi um kaupverð Bayern á króatíska landsliðsmanninum Mario Mandzukic .

Þýsku knattspyrnuliðin Wolfsburg og Bayern München hafa komist að samkomulagi um kaupverð Bayern á króatíska landsliðsmanninum Mario Mandzukic . Hann er 26 ára gamall framherji sem átti góðu gengi að fagna með Króötum á Evrópumótinu en hann skoraði 3 mörk í riðlakeppninni. Fjölmiðlar greina frá því að Bayern greiði 13 milljónir evra fyrir leikmanninn. Það jafngildir rúmum 2 milljörðum íslenskra króna.

Slaven Bilic , sem er tekinn við þjálfun rússneska knattspyrnuliðsins Lokomotiv Moskva eftir að hafa stýrt landsliði Króata undanfarin ár hefur fengið landa sinn og landsliðsmanninn Vedren Corluka til liðs við sig. Corluka kemur til Moskvuliðsins frá Tottenham en hann var í láni hjá þýska liðinu Bayer Leverkusen stóran hluta á síðustu leiktíð. Corluka gerði þriggja ára samning við lið Lokomotiv.

Barcelona greindi frá því í gær að það hefði samið við hinn 19 ára gamla Joan Angel Roman . Hann kemur til Börsunga frá Englandsmeisturum Manchester City en City keypti hann frá spænska liðinu Espanyol fyrir þremur árum og greiddi fyrir hann 1 milljón punda. Roman náði ekki að vinna sér sæti í aðalliði City en nú ætlar hann að freista gæfunnar hjá Börsungum.

Knattspyrnudómarinn Þorvaldur Árnason mun dæma seinni leik SP Tre Penne frá San Marínó og F91 Dudelange frá Luxemborg en leikurinn er í fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildar UEFA. Leikið verður í San Marínó og Þorvaldi til aðstoðar verða þeir Gunnar Sverrir Gunnarsson og Frosti Viðar Gunnarsson . Fjórði dómari verður svo Erlendur Eiríksson .

Roy Hodgson , þjálfari enska landsliðsins, hefur komið Wayne Rooney til varnar eftir að Fabio Capello , fyrrverandi landsliðsþjálfari Englands, skaut á enska framherjann í útvarpsþætti í gær.

Capello gagnrýndi Rooney fyrir frammistöðu sína á Evrópumótinu og með enska landsliðinu almennt. Honum finnst Rooney bara spila vel fyrir Manchester United.

„Eftir að hafa horft á síðasta leik enska landsliðsins get ég ekki betur séð en Rooney skilji bara skosku. Hann spilar bara vel í Manchester þar sem sir Alex Ferguson talar skosku,“ sagði Capello.