Jákvæð Dr. Janka Zalesakova vill hefja fræðslu um líkamann og orkuþörf strax á leikskólaaldri.
Jákvæð Dr. Janka Zalesakova vill hefja fræðslu um líkamann og orkuþörf strax á leikskólaaldri. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lífsstílssjúkdómar verða sífellt algengari í Evrópu og yngra fólk þjáist sífellt meira af sjúkdómum sem áður voru tengdir öldrun.

Lífsstílssjúkdómar verða sífellt algengari í Evrópu og yngra fólk þjáist sífellt meira af sjúkdómum sem áður voru tengdir öldrun. Í heilsulindum þar sem læknar og aðrir sérfræðingar eru til staðar gefst gott tækifæri til að veita fræðslu um breyttan lífsstíl. Dr. Janka Zalesakova lofar náttúrulegar auðlindir Íslands og segir landið geta orðið þungamiðju heilsulindareksturs í Evrópu.

María Ólafsdóttir

maria@mbl.is

Dr. Janka Zalesakova er sérfræðingur í lífsstílssjúkdómum.

Hún hefur unnið sem ráðgjafi á sviði heilbrigðismála fyrir ýmis lönd og stofnanir, meðal annars Evrópusambandið. En stærstan hluta starfsævi sinnar hefur Janka starfað sem læknir á heilsulindum í heimalandi sínu Slóvakíu.

Mörg tækifæri á Íslandi

Í Slóvakíu, Austurríki og Þýskalandi eru heilsulindir hluti af heilbrigðiskerfinu og ætlaðar bæði til endurhæfingar og meðferðar. Í starfi sínu sem framkvæmdastjóri stærstu slíkrar heilsulindar kom Janka á samstarfi við önnur lönd og er í dag í forystu fyrir slóvakísk samtök heilsulinda, en þau eru hluti af European Spas Association (ESPA) þar sem Janka gegnir starfi varaformanns. Samstarf komst á við Ísland árið 2000 og hefur Janka síðan þá heimsótt landið reglulega. Hún þekkir orðið vel til á Íslandi og telur að hér bíði fjölmörg tækifæri á sviði lífsgæðatengdrar ferðaþjónustu.

„Ég var heilluð af Íslandi og öllum þeim náttúrulegu uppsprettum sem hér er að finna. Hér er ölkeldu- og jarðhitavatn svo og kísilvatn eins og í Bláa lóninu. Kísilvatn þykir mjög heilnæmt og er sóst eftir að nota það við lækningar í heilsulindum. Það fyrirfinnst víða hér, meðal annars á Reykhólum, þar sem ég hef bent á að kjörið væri að koma upp heilsulind. Einnig er víða að finna leir sem hægt er að nota í böð eins og víða er gert í Mið-Evrópu. Hér eru loftslagsaðstæður líka góðar og í raun er Ísland lítið land með gríðarstóra möguleika fyrir framtíðina,“ segir Janka.

Örar lífsstílsbreytingar

Miklar breytingar á lífsstíl fólks á síðastliðnum 20 árum hafa haft mikil áhrif á heilsufar. Mataræðið hefur breyst og fólk hreyfir sig minna. Janka bendir á að í dag séu

85% sjúkdóma í Evrópu lífsstílstengd. Þessar breytingar hafa meðal annars þau áhrif að sífellt yngra fólk mun glíma við alvarlega sjúkdóma í framtíðinni. Sjúkdóma sem áður voru tengdir hækkandi aldri.

„Við lifum lengur en erum ekki heilbrigðari og eyðum því mörgum árum ævi okkar við slæma heilsu. Ég tel mikilvægt að hefja fræðslu strax á leikskólaaldri um það hvernig líkaminn virki út frá því hvaða orku hann þurfi og hvernig hún nýtist í líkamanum. Það er mikilvægt að unga fólkið fái slíkar upplýsingar og það er líka skylda stjórnvalda að koma að slíku. Matvælaiðnaðurinn gerir okkur erfitt fyrir því sífellt er herjað á börnin með auglýsingum um ýmiss konar mishollan mat. Þarna liggur rót vandans og persónulega þykir mér við heyja ójafna baráttu við matar- og lyfjafyrirtæki. Þessi fyrirtæki hafa svo mikil ítök en veita oft eingöngu skammtímalausnir. Lyf eru til að mynda tekin við svefnvandamálum en þau verka á líkamann og ekki hugann þar sem breytingin verður að gerast,“ segir Janka.

Lífsstílstengdir sjúkdómar

Hvað varðar mataræðið samsinnir Janka því að miklar breytingar hafi orðið á því eftir að framleiðslan færðist frá heimilunum til matvælaframleiðanda. Fólk viti því ekki endilega hverju sé bætt við matinn og fræðsla sé nauðsynleg.

„Í mínu heimalandi var maturinn áður búinn til heima fyrir úr ferskum hráefnum og fólk var heilbrigðara en nú til dags þegar margt er keypt tilbúið í næsta stórmarkaði.

Þetta vandamál er líka félagslegt því skyndibitamatur er oftast ódýr og alls staðar í boði. Ef við tileinkum okkur slíkt mataræði munu sífellt fleiri þjást af hjartasjúkdómum, sykursýki og fleiri sjúkdómum á næstu 20 árum. Heilsulindir eru góðar til að breyta lífsstílnum því þar gefst tími til að fræða fólk og kannski sérstaklega unga fólkið. Nauðsynlegt er að kynna þeim girnilegan og hollan mat. Ég las til að mynda í grein nýlega að á Íslandi sé dagleg meðalinntaka ungs fólks 100 g af sykri en 48 g af grænmeti og þessu verður að snúa við,“ segir Janka.

Janka er stödd hérlendis á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og hélt fyrirlestur um þetta málefni í vikunni.

Heilsulindaparadís

Allt er til alls í náttúrunni

Dr. Janka Zalesakova segir marga staði á Íslandi koma til greina við rekstur heilsulinda og að markaðssetja mætti landið sem heilsulindaparadís. Hún segir marga Þjóðverja koma í sérstakar heilsulindarferðir til Slóvakíu, en þar er löng hefð fyrir því að nota ölkelduvatn í lækningaskyni. Ferðamennirnir dvelji þá í nokkrar vikur í landinu í senn og skapa mætti slík tækifæri á Íslandi. Janka segir skipta máli hvernig slíkar heilsulindir séu kynntar. Evrópubúar viti að þær standi fyrir endurhæfingu en í huga Bandaríkjamanna snúi þær stundum frekar að fegurðaraðgerðum.