Fjallamaður Guðni Olgeirsson við Fossabrekkur í Ytri-Rangá, skammt frá Rangárbotnum. Hellismannaleið er afar vel stikuð og lítil hætta á villum.
Fjallamaður Guðni Olgeirsson við Fossabrekkur í Ytri-Rangá, skammt frá Rangárbotnum. Hellismannaleið er afar vel stikuð og lítil hætta á villum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Hellismannaleið er ekki ýkja þekkt á meðal göngufólks en það verður líklega fljótt að breytast því þeir sem fara leiðina hrósa henni jafnan í hástert og hjálpa til við að breiða út fagnaðarerindið.

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Hellismannaleið er ekki ýkja þekkt á meðal göngufólks en það verður líklega fljótt að breytast því þeir sem fara leiðina hrósa henni jafnan í hástert og hjálpa til við að breiða út fagnaðarerindið. Leiðin er fjölbreytt og landslagið ægifagurt. „Þú ert strax kominn út í kyrrðina,“ segir Guðni Olgeirsson sem er helsti frumkvöðull á bak við leiðina.

Óformlegur hópur hefur á undanförnum árum unnið að því að stika leiðina sem upphaflega var 56 km gönguleið frá Rjúpnavöllum inn í Landmannalaugar sem yfirleitt var gengin á þremur dögum. Lokið var við að stika leiðina árið 2009 en í fyrra var fjórða leggnum bætt við; 25 km leið frá Leirubakka þar sem Heklusetrið er og að Rjúpnavöllum.

Guðni er sonur Olgeirs Engilbertssonar frá Nefsholti sem hefur ferðast um Fjallabak í meira en hálfa öld og saman hafa þeir feðgar unnið að stikun Hellismannaleiðar í samvinnu við vini, fjölskyldu og sjálfboðaliða og fengið styrk og stuðning frá Landsvirkjun og ferðaþjónustunni á svæðinu. Allt er unnið í sjálfboðaliðavinnu. „Það er mikil barátta meðal minna vina og fjölskyldu að koma með í vinnuferðir, þær þykja mjög eftirsóknarverðar. Góð stemning á kvöldin og svona,“ segir hann.

Aðgengileg leið

Hægt er að gista í skálum eða á góðum tjaldstæðum eftir hverja dagleið. Skálarnir eru mjög aðgengilegir og Guðni segir einfalt að komast að þeim með tjaldvagna og fellihýsi. Og þótt leiðin sé að mestu á fjöllum þvera allar dagleiðirnar vegi. Vilji einhver ganga hluta leiðarinnar sé því auðvelt að skutla viðkomandi til og frá.

Guðni segir að Hellismannaleið sé ágætur valkostur við Laugaveginn og upplögð fyrir gönguhópa sem vilji glíma við nýjar leiðir á hverju ári. Þá kveði töluvert að því að útlendingar gangi alla leið frá Skógum, yfir Fimmvörðuháls, upp Laugaveginn og ljúki göngunni á Hellismannaleið – eða öfugt. Leiðin frá Skógum að Leirubakka er um 150 km, 8-9 dagleiðir. „Ég efast um að hægt sé að búa til fjölbreyttari samfellda gönguleið hér á landi,“ segir Guðni.

Meiri upplýsingar má nálgast á Facebook, Hellismannaleið.