Guðni Ágústsson
Guðni Ágústsson
Eftir Guðna Ágústsson: "Gunnar var brilljant og það logaði eldur úr augum hans og mælskan varð að freyðandi löðri úr munnvikunum þegar hann komst í ham og ræðan féll fram eins og foss."

Frændur, vinir og aðdáendur Gunnars Bjarnasonar afhjúpuðu á dögunum minnisvarða um leiðtogann sem ruddi brautir fyrir íslenska hestinn um allan heim. Minnisvarðinn er á fallegum hól við Skemmuna á Hvanneyrarstað, þaðan sér vítt yfir hinn fallega Borgarfjörð, og horfir heim að Álfhóli þar sem Gunnar bjó um langa hríð. Fögur er umgjörðin og fjallanna hringur sem minnir á brot af sjóndeildarhring hins hugumstóra Gunnars sem hafði veröldina alla undir í að auglýsa og dásama Ísland og hestinn okkar. Það er vel við hæfi að minna á Gunnar í þeirri andrá að tuttugasta Landsmót hestamannafélaganna er haldið í Reykjavík í Víðidalnum en Gunnar var Fáksmaður. Gunnar stóð að fyrsta landsmótinu á Þingvöllum 1950 og æ síðan meðan hann lifði. Hann sigraði ríki og álfur og seldi útlendingum hugmyndina um að hesturinn okkar væri bæði fjölhæfasti og besti fjölskylduhestur heimsins. Mér er til efs að nokkur íslenskur maður hafi á síðustu öld náð jafn miklum árangri í að auglýsa og selja útlendingum landið sem fóstraði þennan einstaka hest.

„Guð blessi Ísland“

Nú sitja í brekkunum í Víðidalnum þúsundir manna, þar af stór hluti aðdáenda og eigenda hestsins úr flestum álfum veraldar. Gunnar fór mikinn og stofnaði hestamannafélög um alla Evrópu, en Þýskaland var landið sem tók honum opnustum örmum en þar er mikið um hrossabúgarða Íslandshestamanna eins og reyndar á Norðurlöndum og víðar. Gunnar var brilljant og það logaði eldur úr augum hans og mælskan varð að freyðandi löðri úr munnvikunum þegar hann komst í ham og ræðan féll fram eins og foss. Þjóðverjarnir hrifust af mælsku hans og töldu víst að Gunnar væri að selja þeim gamla germanska hestinn. Þeir klöppuðu og fögnuðu og sögðu í kór: ,,Gamli germanski hesturinn er ekki lengur týndur. Hann er kominn aftur frá Íslandi. Guð blessi Ísland.“ Og kannski var það staðreyndin, hvaðan komum við Íslendingar í fyrndinni?

Skyldan kallar á frumkvæði

Ævintýrið um íslenska hestinn er þar statt að hann er ræktaður í tugum landa og öllum heimsálfum. Í stofninum eru 140 þúsund hross erlendis en 80 þúsund hross hér heima. Við eigum þennan hest en höfum gefið öðrum þjóðum hlutdeild í honum, Ísland er upprunalandið. Skyldan er þessi, að fylgja hugsjónum Gunnars Bjarnasonar og lærisveina hans eftir. Við verðum að vera forystulandið sem alltaf leggur til besta erfðaefnið. Og það er viðurkennt að Íslandsfæddir og uppaldir hestar skara fram úr. Gunnar stofnaði meðal annars FEIF-alþjóðasamtökin um hestinn. Allt stendur þetta enn á þeim grunni sem hann markaði með störfum sínum. Við höfum aldrei verið betur undir það búin en nú að leiða forystuna áfram. Á síðustu árum hafa orðið stórstígar framfarir og öll aðstaða hestamanna hér betri en hún var. Reiðhallir, fagfólk og landbúnaðarháskólarnir skila mikilli þekkingu og frábæru fólki til starfa. Tamningamenn fara með námskeið um allan heim. Hrossabúgarðar afburðafólks í ræktun og reiðmennsku hér á landi skipta hundruðum. Hesturinn skilar mikilli veltu og mörgum ársstörfum inn í þjóðarbúið.

Sendiherra og rannsóknarsjóður

Næstu stóru verkefnin ættu að vera tvö, annars vegar rannsóknarsjóður og hins vegar sendiherrastaða. Þegar eru Íslendingar og FEIF byrjuð að áforma með hinum stóra Íslandshestaheimi að stofna rannsóknar- og vísindasjóð. Slíkur sjóður þarf að verða stór með einar tvö hundruð milljónir í stofnfé. Góðu fréttirnar eru þær að færustu menn telja þörfina á slíkum sjóði mikla og geta skipt miklu máli fyrir framþróun hrossastofnsins. Og að hugmyndin kviknaði samtímis hér heima og erlendis og bæði Íslendingar og útlendingar vilja tengja sjóðinn nafni eldhugans Gunnars Bjarnasonar. Ennfremur er mikil þörf á því að frumkvöðull eða sendiherra verði ráðinn sem verði tengiliður við útlönd og vinni á þeim sviðum, sem var aðalstarf Gunnars síðustu árin. En hann gegndi opinberu starfi og bar starfsheitið „ráðunautur útflytjenda um hestaverslun og fulltrúi í félagsmálum erlendis“. Var í raun sendiherra um íslenska hestinn. Um slíka stöðu gætu margir aðilar sameinast því hesturinn auglýsir Ísland best og dregur að ferðamenn og einstaka Íslandsvini, það heyrist á tungutakinu í Víðidalnum.

Höfundur er fyrrv. landbúnaðarráðherra.

Höf.: Guðna Ágústsson