Frægð „Þegar við ferðumst erlendis er alltaf einhver sem kannast við Eyþór úr myndinni, þó hann hafi ekki fengið að lifa margar mínútur á skjánum,“ segir Ingibjörg um eiginmanninn.
Frægð „Þegar við ferðumst erlendis er alltaf einhver sem kannast við Eyþór úr myndinni, þó hann hafi ekki fengið að lifa margar mínútur á skjánum,“ segir Ingibjörg um eiginmanninn. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Eflaust gætu margir hugsað sér að skipta á störfum við Ingibjörgu Guðmundsdóttur. Ingibjörg er framkvæmdastjóri Skemmtigarðsins, sem rekur bæði leiktækin í Smáralind og stórt útileikjasvæði í Grafarvogi.

Eflaust gætu margir hugsað sér að skipta á störfum við Ingibjörgu Guðmundsdóttur. Ingibjörg er framkvæmdastjóri Skemmtigarðsins, sem rekur bæði leiktækin í Smáralind og stórt útileikjasvæði í Grafarvogi.

„Jú, það eru vissulega forréttindi að fá að starfa við skemmtigarð, og hluti af starfinu að prufa öll tækin reglulega. Þetta er líka þannig starfsemi að við þurfum stöðugt að leita að nýjum tækjum og viðbótum við úrvalið, sem aftur kallar á að framkvæmdastjórinn verður að reyna alls kyns skemmtileg tæki og græjur og vanda valið,“ segir Ingibjörg.

Skemmtigarðurinn í Smáralind opnaði skömmu fyrir síðustu áramót og hefur slegið í gegn. „Mikill straumur hefur verið af gestum og Skemmtigarðurinn er að hafa greinileg áhrif á heimsóknartölur verslunarmiðstöðvarinnar. Veitingastaðirnir í kringum okkur hafa fundið fyrir góðri söluaukningu og önnur fyrirtæki í húsinu virðast hæstánægð með þessa viðbót.“

Sumarið er líka háannatími í Grafarvoginum og fjölmargir sem nota sumarblíðuna til að bregða sér í minigolf, litbolta, ratleiki, laser-tag eða þrautabraut. „Strax í byrjun apríl fara fyrirtækin af stað og bóka svæðið fyrir hópefli, hvataferðir, fjölskyldudaga og sérstakar skemmtidagskrár,“ segir Ingibjörg.

Auk þess að taka vel á móti gestum þarf síðan stöðugt að breyta, bæta og stækka. Ingibjörg segir nú í bígerð að bæta nýjum skemmtitækjum við í Smáralind og stækka aðstöðuna í Grafarvoginum enn frekar. „Það er svo margt sem við gætum gert að við verðum helst að gæta okkur að því að forgangsraða vandlega.“

Eiginmaður Ingibjargar og meðeigandi er Eyþór Guðjónsson sem m.a. hefur unnið það sér til frægðar að fara með eitt af aðalhlutverkunum í hryllingsmyndinni Hostel. Ingibjörg hlær dátt þegar hún er spurð hvernig það sé að búa með kvikmyndastjörnu. „Við eigum enn gúmmílíkan af afsöguðum haus Eyþórs og notum sem stofustáss. Gestir þreytast ekki á að skoða þennan kostagrip. Enn gerist það svo að þegar við ferðumst erlendis er alltaf einhver sem kannast við Eyþór úr myndinni, þó hann hafi ekki fengið að lifa margar mínútur á skjánum.“ ai@mbl.is