67 ára Hellisbúi Sænski leikarinn Tomas Bolme sem Gunnar Helgason mun leikstýra í haust er talsvert eldri en þeir Hellisbúar sem Íslendingar þekkja. Bolme hefur í gegnum árin leikið jafnt í sænsku sjónvarpi sem og á sviði.
67 ára Hellisbúi Sænski leikarinn Tomas Bolme sem Gunnar Helgason mun leikstýra í haust er talsvert eldri en þeir Hellisbúar sem Íslendingar þekkja. Bolme hefur í gegnum árin leikið jafnt í sænsku sjónvarpi sem og á sviði. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Júlía Margrét Alexandersdóttir julia@mbl.is Það er engin tilviljun að Gunnar Helgason hefur verið fenginn til að leikstýra uppsetningu á Hellisbúanum í Scalateatern í Stokkhólmi í haust.

Júlía Margrét Alexandersdóttir

julia@mbl.is

Það er engin tilviljun að Gunnar Helgason hefur verið fenginn til að leikstýra uppsetningu á Hellisbúanum í Scalateatern í Stokkhólmi í haust. Hellisbúinn í leikstjórn Gunnars sem settur var upp í Sænska leikhúsinu í Helsinki árið 2003 gengur enn fyrir fullu húsi ytra og hefur slegið finnskt sýningarmet í leikhúsinu en engin sýning hefur verið sýnd jafn oft.

„Sýningarnar í Finnlandi hafa gengið vonum framar en þetta er leikhús sænskumælandi Finna. Hellisbúinn sem ég leikstýri núna er hinn sænski leikari Tomas Bolme. Við hittumst um páskana og leiklásum saman og erum svona að aðlaga Hellisbúann að honum,“ segir Gunnar. Bolme á farsælan leikferil að baki í Svíþjóð, hefur leikið bæði á sviði, í sjónvarpi og kvikmyndum og meðal annars brugðið fyrir í hinum vinsælu sjónvarpsþáttum um lögregluforingjann Wallander sem sýndir hafa verið hér á landi. Sýningar á Hellisbúanum hefjast í lok september. En er öðruvísi að vinna í sænsku leikhúsi en í íslensku?

„Svíar og Finnar eru mjög skipulagðir. Þeir plana leikárin langt fram í tímann, eitt og hálft ár með einhverjum smá glugga til að breyta ef þarf. En í febrúar á hverju ári er næsta leikár á hreinu og leikarar vita hvenær þeir eru að vinna og hvenær þeir eru í fríi. Svo er líka svolítið skondið að Svíar tala ekki í dögum heldur í vikum. Þeir spyrja ekki hvað ég ætli að gera á morgun, miðvikudag eða laugardag heldur hvort ég sé laus í viku númer þrjátíu og tvö. Ég gat ómögulega svarað þessu í byrjun svona án þess að fara að telja sérstaklega, maður veit að vika númer eitt er janúar og vika 52 er desember en þetta er þeim algjörlega tamt. En það er mjög gott að vinna með þeim.“

Tomas Bolme er aðeins eldri en þeir Hellisbúar sem Íslendingar hafa séð og Gunnar hefur leikstýrt. „Þannig að við höfum verið að aðlaga leikritið að því að hann er 67 ára en forverar hans eru flestir um þrítugt. Bæði þurfti að skoða þær karlfyrirmyndir sem hann talar um að hann hafi átt þegar hann var að alast upp og svo er svona eitt og annað. Jú, ég er góður í sænskunni. Ég lærði hana vel þegar ég setti Hellisbúann fyrst upp í Sænska leikhúsinu í Helsinki árið 2003 og þetta er fljótt að koma.“