Birkir Þór Gunnarsson fæddist í Reykjavík 28. nóvember 1938. Hann lést á heimili sínu 9. júní 2012.

Útför Birkis fór fram frá Grafarvogskirkju 19. júní 2012.

Í dag verður til moldar borinn einn af okkar ágætustu bræðrum úr Oddfellowstúkunni nr. 3, Hallveigu. Birkir Þór Gunnarsson var einstakur maður og traustur félagi. Hann lét sig líknarstarf stúkunnar varða flestum meir og var formaður þess hóps er með þau mál hefur að gera um langt árabil. Hann lét sér ekki nægja að afhenda styrktarfé til þeirra er á þurftu að halda, heldur fylgdi hann málinu eftir og fékk að vita hvort nóg væri að gert, eða hvort þörf væri á meiri stuðningi. Birkir var einstaklega glaðlyndur maður. Ef ekki voru gamanmál á lofti, þá bætti hann úr því, hann átti þó jafn auðvelt með að ræða trúnaðarmál og allan trúnað hélt hann við viðmælendur sína. Hann var þess konar maður sem auðvelt var að treysta og láta sér þykja vænt um. Hann hafði ákveðnar skoðanir, sem hann lét óhikað í ljósi, en hafði á sama tíma enga þörf fyrir að beygja alla undir sinn vilja. Það eina sem Birkir ætlaðist til af öðrum var að þeir væru jafn heilir og sannir í sínum orðum og athöfnum og hann sjálfur hafði tileinkað sér. Slíka menn er gott að hafa í hópi, þeir veita manni gjarnan nýja sýn á hlutina sem hjálpa til við endanlega ákvörðun. Eiginkonu sína Rósu, missti hann fyrir nokkrum misserum, eftir snörp veikindi. Það var honum mikið áfall, enda ljóst að þar missti Birkir líka sinn besta vin.

Stúkan okkar verður fátækari af lífsgleði og andagift eftir fráfall Birkis, hans skarð er vandfyllt. Ég votta aðstandendum Birkis mína dýpstu hluttekningu á erfiðri stundu.

Jón Karl Einarsson.

Elsku Birkir.

Það er tómlegt að horfa yfir fallega húsið þitt í Ljósuvíkinni þessa dagana. Við nágrannar þínir og vinir erum dofin yfir snögglegu fráfalli þínu og söknum ykkar Rósu sárlega enda finnst okkur við hafa verið svo heppin að hafa átt bestu nágranna í heimi þau tíu ár sem við bjuggum saman. Að þið séuð bæði farin úr þessum heimi og svona stutt á milli ykkar er alveg ótrúlegt enda voruð þið einstaklega lífsglöð og samtaka hjón. Þú varst svo barngóður og greiðvikinn og fannst nú ekki mikið mál að lána okkur bílskúrinn þinn fyrir allt okkar bílskúrsdót á meðan var verið að klára okkar bílskúr. Við náðum ekki að þakka þér almennilega fyrir það enda ætluðum við ekki að kveðja þig endanlega strax. Dætur okkar ólust upp við það að í frystinum hjá Birki og Rósu var alltaf til ís sem þær máttu borða hvenær sem þær vildu og þær voru alltaf velkomnar í spjall og notalegheit hjá ykkur Rósu. Við þökkum fyrir öll árin okkar saman í Ljósuvíkinni og biðjum góðan guð að styrkja Gunna, Jóhönnu, Stebba, Margréti og börn í þeirra miklu sorg.

Valgerður Hanna

Hreinsdóttir.

Í hvers manns huga safnast minningar og reynsla, viðhorf og lífssýn mótast. Brot af bergi lands og þjóðar, sem skáldið nefndi forðum. Þessi mósaíkmynd raðast ófyrirsjáanlega, oftar en ekki gilda lögmál tilviljana um það hvern við hittum, hvar og hvenær, gefendur og þiggjendur. Þau samskipti verða samt með tímanum inntak lífsins og í minni mynd blikar þar hlutur Birkis Þórs Gunnarssonar, félaga og bróður í leik.

Birkir var einn gefendanna. Þeir voru átta sem stofnuðu Örninn 23. apríl 1970, félag borðtennismanna. Sigurður Guðmundsson var maður forms og reglu, formaðurinn. Birkir og Björn Finnbjörnsson voru vinirnir tveir, leikgleðinnar og lífsgleðinnar, sjálfra sinnar og heils félags.

Greinarhöfundur potaði sér inn í þennan félagsskap og lifði með þeim blómaskeið næsta áratug eða svo, tugir og hundruð félaga um skeið. Kínverjar áttu sinn hlut í því, Nixon og Maó laumuðu brotum í mósaíkmyndina stóru.

Fyrir fáeinum vikum var Birkir kominn aftur, eins og fleiri, inn í eldri útgáfu félagsskaparins frá 1970 sem lifað hafði sitt blómaskeið. Enn mæta þó til leiks Óli, Emil, Jói, Raggi, Árni, Siggi Herlufs, og Jónas og enn fleiri, komnir undir verndarvæng Péturs Stephensen. Það var eins og Birkir hefði aldrei farið.

Birkir var sem fyrr á þessum vettvangi sannur fulltrúi leikgleðinnar og gaf af henni, jafnt í tapi sem í sigri. Hvorki vantaði hann skap né metnað en fáum eða engum hef ég kynnst sem gaf og endurgalt með sama hætti hver sem leikslok urðu. Eins og íþróttamenn þekkja birtist þar innri maður betur en víða annars staðar. Þetta var víst aldrei skráð í töflurnar okkar allar, né heldur hjálparhöndin sem hann rétti að fyrra bragði. Hér skal það ósagða þakklæti skráð að lokum.

Aðalsteinn Eiríksson.

Það er með miklum trega og söknuði sem ég skrifa þessi eftirmæli um góðan vin og traustan samstarfsmann til margra ára. Það var í byrjun árs 1979 sem við Birkir Þór kynntumst fyrir alvöru þegar við gengum báðir inn í Oddfellowstúkuna Nr. 3 Hallveigu IOOF og urðum strax miklir og góðir vinir. Ég hafði a.m.k. 15 árum áður vanið komu mína á rakarastofu „Hjá Halla rakara“ á Njálsgötunni því ég hafði heyrt að þar væri góður og vinsæll rakari að störfum sem kunni að klippa og greiða stælklippingu sem þá var í tísku. Þetta var enginn annar en Birkir Þór og því má segja að kynni okkar spanni yfir 47 ár. Eftir að hann hætti störfum sem rakari setti hann og kona hans, Rósa, á stofn húsgagnaverslun og bólstrun. Síðustu tvo áratugina og ríflega það hefur Birkir starfað sem einn af aðalstefnuvottum í Reykjavík við góðan orðstír, enda var hann mjög þægilegur í viðmóti og með mikla þjónustulund.

Það er margs að minnast eftir svona löng kynni en þó er mér minnisstæðast þegar ég spurði Birki, ekki löngu eftir að við kynntumst hvort hann væri til í að koma með mér til Vestmannaeyja á sjóstangaveiðimót um hvítasunnuna. Hann var snöggur að svara, já auðvitað en má Rósa mín koma með. Það varð úr að við fórum á þetta mót og lentum í ofsaveðri og ýmsum hrakningum, þannig að ekki fór mikið fyrir veiðinni og afla í þeirri ferð. Þetta varð til þess að þau hjónin, Birkir og Rósa gerðu stjóstangaveiði að sínu helsta frístunda sporti og stunduðu það af miklu kappi í mörg ár. Birkir var einn af þeim aðilum sem endurvöktu Sjóstangaveiðifélag Reykjavíkur og gerðu það að öflugu félagi sem lifir enn góðu lífi í dag. Birkir var lengi formaður þess félags við mikinn og góðan orðstír enda fastur fyrir og fylginn sér í þeim málum sem hann vildi koma í framkvæmd. Það væri hægt að skrifa margt og mikið um okkar löngu og góðu kynni og allt það sem við gerðum á þessum árum, en þær minningar eru best geymdar í mínu hjarta. Minningin um sannan vin mun lifa með okkur öllum um ókomna framtíð og við hugsum til hans með þakklæti og virðingu. Ég þakka fyrir frábært samstarf sem aldrei bar skugga á. Ég bið þann sem öllu ræður í þessu jarðneska lífi að styrkja og blessa fjölskyldu hans, aðstandendur og vini sem eiga um sárt að binda á þessari stundu. Þó eru sárindin mest hjá bræðrunum Gunnari og Stefáni og fjölskyldum þeirra sem voru svo náin og samrýmd í daglegu lífi Birkis. Ég sendi þeim mínar dýpstu samúðar kveðju.

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Thulin Johansen.

Genginn er góður félagi. Fyrir rúmum fjörutíu árum átti Birkir Þór Gunnarsson stóran þátt í því að borðtennisíþróttin færðist úr bílskúrum í íþróttasali og varð viðurkennd hér á landi sem eitthvað meira en tómstundaiðkun. Áhugi hans á íþróttinni og störf hans í hennar þágu, á fyrstu árunum, eru mikils metin. Rósa, konan hans, studdi hann þá sem endranær með ráðum og dáð. Birkir var félagslyndur og stundaði íþróttina af kappi. Hann var mikill keppnismaður og heiðarlegur í sínum leik. Andstæðingar hans við borðtennisborðið báru virðingu fyrir honum og ótrúlega föstum forhandar-smössum hans. Á upphafsárum íþróttarinnar hér á landi vann Birkir oft til verðlauna, m.a. Íslandsmeistaratitil í tvíliðaleik, auk þess að keppa fyrir Íslands hönd. Vegna vinnu sinnar þurfti Birkir að draga sig í hlé frá borðtennisiðkun, en hann var þó aldrei langt undan enda synir hans báðir góðir borðtennisspilarar, og eru enn. Það var síðan ánægjulegt þegar Birkir fór að mæta á æfingar sl. vetur og gerði sér lítið fyrir og vann Íslandsmeistaratitil í tvíliðaleik í sínum aldursflokki.

Birkir var tryggur og góður félagi. Hann var ætíð glaðlegur og hreinskiptinn í framkomu. Aldrei var nein lognmolla þar sem hann fór. Það er stórt skarð höggvið í hóp okkar borðtennismanna í Erninum og við söknum vinar í stað. Við þökkum Bigga áralanga samfylgd og sendum Gunnari og Stefáni og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Borðtennisklúbbs Arnarins,

Ragnar Ragnarsson.