Þrátt fyrir ótal krísufundi helstu leiðtoga Evrópusambandsins á undanförnum mánuðum og misserum um ógöngur evrunnar, bólar ekkert á nokkurri lausn á þeim gríðarlega vanda sem gjaldmiðillinn á í.
Þrátt fyrir ótal krísufundi helstu leiðtoga Evrópusambandsins á undanförnum mánuðum og misserum um ógöngur evrunnar, bólar ekkert á nokkurri lausn á þeim gríðarlega vanda sem gjaldmiðillinn á í.

Í dag hefst tveggja daga ráðstefna leiðtoga ESB í Brussel, þar sem helsta umræðuefnið verður efnahagsástandið í álfunni.

Ef marka má helstu viðskiptamiðla heims, eru afskaplega litlar væntingar bundnar við þann fund, eða að hann leiði til sameiginlegrar niðurstöðu, sem feli í sér lausn á gríðarlegum skuldavanda landa eins og Spánar, Kýpur og Grikklands.

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, er ekki öfundsverður um þessar mundir. Hann sagði á spænska þinginu í gær, að Spánn gæti ekki fjármagnað sig lengi á þeim kjörum sem bjóðast um þessar mundir, en álagið á spænsk ríkisskuldabréf til tíu ára er nú 6,8%.

Það virðist vera að fjölga í hópi sérfræðinga, sem spá því að lönd eins og Spánn og Grikkland og hugsanlega Ítalía, eigi enga aðra leið en hætta evrusamstarfinu og taka á ný upp eigin gjaldmiðil.