Óvænt? Margir eru búnir að bóka Þjóðverjana í úrslitaleikinn en Ítalir hafa sýnt flotta leiki á mótinu. Þeir þurfa þó líklega að skora gegn Þýskalandi.
Óvænt? Margir eru búnir að bóka Þjóðverjana í úrslitaleikinn en Ítalir hafa sýnt flotta leiki á mótinu. Þeir þurfa þó líklega að skora gegn Þýskalandi. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Tómas Þór Þórðarson tomas@mbl.is Það er ekki orðum aukið að segja að tvær risaþjóðir í fótboltasögunni mætist í undanúrslitum EM í kvöld þegar Ítalir og Þjóðverjar keppa á þjóðarvelli Pólverja í Varsjá.

Fótbolti

Tómas Þór Þórðarson

tomas@mbl.is

Það er ekki orðum aukið að segja að tvær risaþjóðir í fótboltasögunni mætist í undanúrslitum EM í kvöld þegar Ítalir og Þjóðverjar keppa á þjóðarvelli Pólverja í Varsjá. Þessar tvær risaþjóðir deila með sér sjö heimsmeistaratitlum og fjórum Evrópumeistaratitlum. Þær hafa báðar á einhverjum tímapunkti verið efstar á styrkleikalista FIFA og aldrei farið neðar en 22. sæti.

Þjóðverjum hefur gengið öllu betur á Evrópumótinu í gegnum tíðina en þeir hafa unnið keppnina þrisvar og farið sex sinnum í undanúrslitin. Ítalir hafa unnið EM einu sinni og farið þrívegis í undanúrslitin.

Aldrei skorað í undanúrslitum

Ítalska landsliðið státar af einstökum árangri þegar kemur að undanúrslitum á EM í fótbolta. Liðið hefur þrívegis verið einum leik frá úrslitum og unnið tvisvar, án þess þó að skora svo mikið sem eitt mark í leikjunum þremur.

Árið 1968 gerðu Ítalir og Sovétmenn markalaust jafntefli og þar sem ekki var búið að fatta upp á vítaspyrnukeppninni var kastað upp hlutkesti um hvort liðið myndi mæta Júgóslavíu í úrslitaleiknum. Ítalir höfðu betur þar og urðu svo Evrópumeistarar eftir sigur á Júggunum í leik sem þurfti að spila aftur þar sem sá fyrri endaði með jafntefli.

„Það er ekki hægt að tala um frábæran sigur þegar maður vinnur á hlutkesti,“ sagði Ítalinn og Inter-maðurinn Giacinto Facchetti þegar hann rifjaði upp leikinn skömmu áður en hann lést árið 2006.

„Ítalía spilaði samt leikinn manni færri mest allan tímann því einn leikmaðurinn meiddist og í þá daga mátti ekki skipta inn á öðrum manni fyrir slasaðan leikmann. Svo fékk annar leikmaður krampa þannig að Ítalir kláruðu leikinn níu og hálfur á móti ellefu,“ sagði Facchetti. Ítalía tapaði svo fyrir Sovétmönnum í undanúrslitum 1988, 2:0, og komst í úrslitaleikinn árið 2000 eftir markalaust jafntefli og vítaspyrnukeppni gegn Hollandi.

Orðnir of sigurvissir?

Þjóðverjar eiga að fara í úrslitaleikinn. Þannig er umræðan í Þýskalandi og þýska þjóðin og þýsku fjölmiðlarnir heimta að liðið vinni Ítali. Spurningin er bara: Eru þeir orðnir of sigurvissir?

„Nei, alls ekki. Við vitum vel af styrkleika Ítala. Þeir eru búnir að spila vel á mótinu og áttu mjög góðan leik gegn Englandi. Enska liðið fékk varla færi,“ sagði miðjumaðurinn Sami Khedira yfirheyrður af þýsku pressunni um hvort Þjóðverjar væru að bóka sigur gegn Ítölum.

Joachim Löw, þjálfari Þýskalands, gerði sér lítið fyrir og hvíldi sóknartríóið sitt, Mario Gomez, Lukas Podolski og Thomas Müller, í átta liða úrslitunum gegn Grikklandi og fær þá ferska inn í kvöld. Þeir hafa líka fengið tveimur dögum lengri hvíld en Ítalirnir sem virka þó í flottu formi.

Undanúrslit EM
» Þýskaland hefur sex sinnum komist í undanúrslit á EM og unnið fimm þeirra leikja. Þjóðverjar státa af þremur Evrópumeistaratitlum.
» Ítalía hefur þrívegis komist í undanúrslit og unnið tvisvar. Ítalir hafa einu sinni unnið Evrópumótið, árið 1968 á heimavelli.
» Þýskaland og Ítalía mætast í undanúrslitum EM í kvöld í Varsjá klukkan 18.45.
» Sigurvegarinn leikur til úrslita í Kíev á sunnudaginn.