María Sigurlaug Þóra Jónsdóttir fæddist að Húnsstöðum 1. ágúst 1915. Hún lést á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi 12. júní 2012.

Útför Maríu fór fram frá Blönduóskirkju 22. júní 2012.

Nú lokið er jarðvist, þú leggur af stað,

létt í spori gengur þú að,

ljósinu bjarta sem logar svo skært.

Úr lindinni tæru þér vatn verður fært.

Að segja oft erfitt, í sárindum er,

frá söknuði þeim er hugurinn ber.

Því orðin þau verða svo viðkvæm

og sár,

á vanganum birtast og mynda þar tár.

En ég færi þér óskir um glaðlegan

fund,

frá ættingjum öllum á þessari stund.

Í sál okkar allra þú lifir sem fyrr

og sannlega oss veita í lífinu byr.

(Gummi)

Ég kveð ömmu mína með þakklæti fyrir samveruna.

Minning hennar mun lifa með mér alla tíð.

Jóhanna María.

Föstudaginn 22. júní á sumarsólstöðum, þegar hásumar nálgast og allt í blóma, er góð vinkona mín kvödd hinstu kveðju, María Sigurlaug Þóra, oftast kölluð Dadda frá Húnsstöðum. Indælli og skemmtilegri manneskju var vart hægt að hugsa sér. Ég var krakki er við kynntumst fyrst, en hún kom alltaf á Móhelluböllin sem svo voru kölluð. Þau voru haldin 15. helgi sumars, hún var þá líka að hitta kærastann sinn hann Björn, sem átti þá heima á Brúsastöðum, varð hann svo seinna maðurinn hennar. Hann var nú annar öðlingurinn.

Þau tóku við búi á Húnsstöðum en þar höfðu foreldrar hennar búið. Björn stundaði barnakennslu ásamt búskapnum bæði í Torfalækjarhreppi og víðar, og á Blönduósi eftir að þau fluttu þangað. Þau byggðu sér hús að Hólabraut 5 og bjuggu þar á meðan heilsan leyfði. Á þeirra heimili var ég tíður gestur, þar var gott að koma, gestrisni og alúð var þeim í blóð borin og bæði voru þau skemmtileg og fróð enda var þar mikill gestagangur.

Síðustu ár sín dvaldi Dadda á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi. Hún var fædd 1. ágúst 1915 og hefði því orðið 97 ára í sumar. Hún var hress fram undir það síðasta og las ákaflega mikið.

Elsku Dadda mín og Björn frændi, ég sakna ykkar og mér finnst samfélagið fátækara eftir. Ég veit þið hafið átt góða heimkomu í eilífa lífið. Verið þið Guði falin.

Ragnheiður Blöndal

frá Brúsastöðum.