Aðstoð Starfsemi Hjálparstarfs kirkjunnar verður með óbreyttu sniði í sumar og eins er Kaffistofa Samhjálpar opin alla daga.
Aðstoð Starfsemi Hjálparstarfs kirkjunnar verður með óbreyttu sniði í sumar og eins er Kaffistofa Samhjálpar opin alla daga. — Morgunblaðið/Golli
Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.is Mæðrastyrksnefnd sinnir málefnum sem m.a. verða til vegna aðgerða og aðgerðaleysis stjórnvalda en þau launa henni með sinnuleysi, segir Ragnhildur G. Guðmundsdóttir, formaður nefndarinnar.

Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

Mæðrastyrksnefnd sinnir málefnum sem m.a. verða til vegna aðgerða og aðgerðaleysis stjórnvalda en þau launa henni með sinnuleysi, segir Ragnhildur G. Guðmundsdóttir, formaður nefndarinnar. Lokað var fyrir úthlutun hjá nefndinni 13. júní síðastliðinn vegna endurbóta á húsnæði samtakanna og til að hvíla sjálfboðaliðana, sem hafa verið undir miklu álagi síðastliðna mánuði.

Ragnhildur segir veturinn hafa reynst erfiðan, bæði hafi fjölgað í hópi þeirra sem leita aðstoðar og eins hafi neyð þeirra aukist. „Það hafa orðið verulegar verðhækkanir og kauphækkanir ekki í samræmi við það og sömuleiðis hafa breytingar á bótakerfinu, sem áttu að jafna kjörin, gert það að verkum að allir fá jafn lítið,“ segir hún.

Sorglegur hugsunarháttur

Hún segir nefndina afar þakkláta öllum þeim sem hafa lagt henni lið en vandar opinberum aðilum ekki kveðjurnar. „Fyrirtæki hafa sýnt okkur mikinn stuðning og eins einstaklingar og félagasamtök. Við erum afskaplega þakklát fyrir það. Hins vegar styrkir Reykjavíkurborg okkur ekki neitt og ríkið hefur skorið niður alla styrki til okkar,“ segir hún.

Að sögn Ragnhildar nam framlag ríkisins til Mæðrastyrksnefndar 8 milljónum síðustu tvö ár en á fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir að það leggi fram eina milljón króna til starfseminnar. Hún segir þetta vott um sorglegan hugsunarhátt fólks sem hækki eigin laun en skeri allt niður hjá þeim sem minna mega sín.

Berjast við að halda sér á floti

„Við fylgjumst hér með fólki berjast við að halda sér og sínum á floti en alltaf er hoggið í sama knérunn og hoggið inn að beini á þessu fólki,“ segir Ragnhildur. „Fólki er haldið í gíslingu og fleiri fátæktargildrur búnar til. Stjórnmálamenn geta dregið fram hvaða tölur sem þeir vilja en veruleikinn er þessi og þeir ættu bara að mæta á svæðið og tala við fólkið sem er að koma til okkar. Það er ekki að koma vegna þess að það langi svo að hitta okkur, heldur er það að koma af því að það er í neyð,“ segir hún.