Eignasafnið Smáralind vegur þungt í eignasafni Regins. Útherji vonast til að þeir sem hyggja á skráningu á markað læri af reynslu Landsbankans.
Eignasafnið Smáralind vegur þungt í eignasafni Regins. Útherji vonast til að þeir sem hyggja á skráningu á markað læri af reynslu Landsbankans. — Morgunblaðið/Ernir
Það var að mörgu leyti ágætt að hlutafjárútboð fasteignafélagsins Regins gekk ekki betur en raun ber vitni. Upphaflega ætlaði Landsbankinn að selja allt félagið fyrir um 14,2 til 18,3 milljarða króna.

Það var að mörgu leyti ágætt að hlutafjárútboð fasteignafélagsins Regins gekk ekki betur en raun ber vitni. Upphaflega ætlaði Landsbankinn að selja allt félagið fyrir um 14,2 til 18,3 milljarða króna. Eftir að starfsmenn bankans höfðu rætt við mögulega fjárfesta ráku þeir sig á það, að kaupendurnir voru ekkert sérstaklega spenntir fyrir verðinu. Til að varpa ljósi á verðhugmyndir kaupenda, má benda á að IFS greining mat virði Regins á 11,8 milljarða króna.Brugðið var á það ráð að draga úr framboðinu á bréfum, sem sé selja ekki félagið allt heldur 75% hlut, og lækka útboðsverðið í 10,5 til 15,5 milljarða króna. Eftir útboðið kom í ljós að markaðsvirði félagsins er 10,6 milljarðar króna.

Það má auðvitað brosa yfir þessari línu úr fréttatilkynningu frá Landsbankanum – sem örfáum dögum áður ætlaði að selja allt félagið: „Landsbankinn vill með áframhaldandi eignarhlut sínum undirstrika trú sína á fasteignafélaginu og framtíð þess.“ Það er ekkert annað.

En af hverju er Útherji ánægður með að hlutafjárútboð hafi ekki gengið betur? Jú, fjárfestar eru sannarlega aðþrengdir með fjárfestingakosti. Það eru fullt af peningum til í landinu, og lífeyrissjóðirnir gera lítið annað en að gildna, og það býður hættunni heim að fjárfestar stökkvi á sölutilboð sem ekki eru nógu góð. Þarna var sýnt að þeir eru ekki reiðubúnir að taka þátt í hverju sem er. Ef við horfum fram á veginn, styttist vonandi í að Eimskip og fasteignafélagið Reitir fari á markað. Mögulega fylgja Advania og Vodafone.

Seljendur bréfanna í þessum útboðum hljóta að taka mið af þessari reynslu Landsbankans, sem gæti leitt til þess að þeir bjóði bréfin til sölu á lægra verði en ef útboð Landsbankans á bréfum Regins hefði gengið eins og í sögu. Það er nefnilega nokkuð skynsamlegt að fjárfestar sjái ágæta hagnaðarvon, líka til skamms tíma, í því að taka þátt í hlutafjárútboðum. Útherji horfir nokkuð til þess þegar Arion banki fleytti Högum á markað, en bréfin hafa hækkað um 19% frá skráningu.

Því er nefnilega þannig háttað með þessa blessuðu fjárfesta að þeir vilja græða.