Á sumardegi á Hraunteignum. „Mér finnst stundum sem ég hafi alist upp í þorpi úti á landi; þetta var samfélag þar sem flestir þekktust og í grenndinni var umhverfi sem heillaði unga athafnasama stráka,“ segir Júlíus.
Á sumardegi á Hraunteignum. „Mér finnst stundum sem ég hafi alist upp í þorpi úti á landi; þetta var samfélag þar sem flestir þekktust og í grenndinni var umhverfi sem heillaði unga athafnasama stráka,“ segir Júlíus. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flest í Laugardalnum er með öðrum svip nú en var. Einstaka póstar í nágrenninu hafa þó haldið sér, því enn er til dæmis fiskbúð á horni Gullteigs og Sundlaugavegar.

Flest í Laugardalnum er með öðrum svip nú en var. Einstaka póstar í nágrenninu hafa þó haldið sér, því enn er til dæmis fiskbúð á horni Gullteigs og Sundlaugavegar. Flest annað hefur breyst og nýjar kynslóðir komnar í húsin í þessu hverfi æsku minnar,“ segir Júlíus Hafstein sendiherra. Hann ólst upp við Kirkjuteig í Reykjavík og segir hann vera götuna sína. Breytir þá engu að áratugir séu liðnir síðan hann flutti í annað hverfi Reykjavíkur og hafi búið sl. fimmtán ár í Kópavogi.

Bændur í dalnum

Foreldrar Júlíusar, þau Birna Kjartansdóttir og Jakob Hafstein, áttu heima sín fyrstu búskaparár í Norðurmýri. Árið 1951 fluttu þau með þrjú börn, Júlíus þá fjögurra ára, á Kirkjuteiginn. Á þeim tíma var Laugarneshverfið að byggjast upp og öðlast heildstæðan svip.

„Mér finnst stundum sem ég hafi alist upp í þorpi úti á landi; þetta var lítið samfélag þar sem flestir þekktust og í grenndinni var umhverfi sem heillaði unga athafnasama stráka. Laugardalurinn er á næstu grösum og aðeins man ég eftir langafa mínum, Sigurði Njarðvík, sem bjó á Grund við Múlaveg. Þar voru þau hann og amma Kristín með búskap; kindur og kýr. Langafi lést 1953 og fljótlega eftir það brá amma búi en búskapur var stundaður í Laugardal fram undir 1990. Ég man eins og svo margir aðrir vel eftir Stefni bónda á Reykjaborg sem keyrði eftir Suðurlandsbrautinni með brúsa á traktorskerru í Mjólkursamsöluna sem þá var efst á Laugavegi.“

Enginn þorði í Höfða

Á æskuárum Júlíusar í Laugarnesinu setti fiskverkunarstöð Tryggva Ófeigssonar sterkan svip á hverfið; húsið þar sem höfuðstöðvar Íslandsbanka eru í dag.

„Á þessum tíma náði fjaran alveg upp að húsinu og oft vorum við strákarnir niðri í flæðarmálinu þegar tók að falla að; stóðum þar með færin okkar og tókst að ná í ufsa og kola. Já, og svo barst leikurinn stundum vestur á bóginn. Oft vorum við til dæmis að ærslast úti við Fúlutjörn sem var þar sem Hús atvinnulífsins við Borgartún stendur nú. En engin þorði að koma nálægt Höfða. Þar voru draugar eins og allir vita.“

Æskuvinirnir endurskoðendur

Laugarnesskólinn er svipsterk bygging og lengi hefur orð farið af góðum brag í starfinu þar. „Þetta var góður skóli og ljómandi kennarar; til dæmis Pálmi Pétursson, Kristinn Gíslason og Jón Freyr Þórarinsson sem seinna varð skólastjóri í áratugi. Og þarna í skólanum voru strákar sem urðu félagar mínir. Þar get ég nefnt Guðmund Frímannsson, Reyni Ragnarsson og Hörð Barðdal – sem lést fyrir fáum árum og var lengi forystumaður í íþróttafélögum fatlaðra – svo og Hörð Erlingsson ferðamálafrömuð. Og svo merkilegt er það að þessir strákar fóru allir í Verzlunarskólann, nema Hörður og urðu allir endurskoðendur. Sjálfur fór ég raunar líka í Versló, enda þótt starfsvettvangur minn yrði svo annar,“ segir Júlíus – sem fór í Íþróttakennaraskólann að Laugarvatni. Hann var svo í áraraðir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins auk heldur sem hann hefur gegnt fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum – einkum á vegum íþróttahreyfingarinnar og var m.a. formaður HSÍ og Ólympíunefndar Íslands.

„Í gegnum íþróttastarfið og félagasamtök þess hef ég alltaf talsvert verið viðloða Laugardalinn. Vann meira að segja sumarlangt við byggingu Laugardalshallarinnar í kringum 1965 en þá var ég kominn í bæinn eftir að hafa verið níu sumur í sveit.“

Kaupmenn voru klettar í hafi

Sú var tíðin að litlar hverfisbúðir voru áberandi í Reykjavík. Kaupmaðurinn á horninu var sem klettur í haf; lumaði á flestum daglegum nauðsynjum fólksins sem gjarnan var í reikningsviðskiptum. Þannig gerðu Teigabúar gjarnan innkaup sín í Teigabúðinni hjá Gunnari Snorrasyni sem síðar nam land í Breiðholtinu og rak þar verslun. „Pólitíkin á þessum árum var hörð og línurnar skarpar. Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins verslaði einkum í Teigabúðinni en þeir sem voru á miðjunni og til vinstri gerðu sér frekar erindi út á Sundlaugarveg í verslun KRON og þar var mjólkurbúð raunar undir sama þaki,“ segir Júlíus.

„Ég gæti nefnt marga eftirminnilega nágranna á Kirkjuteignum. Einn var Geir Zoëga sem lengi rak ferðaskrifstofu í Hafnarstrætinu og var í raun einn af upphafsmönnum skipulagðrar ferðaþjónustu á Íslandi. Og það voru raunar líka bræðurnir Kjartan og Ingimar sem bjuggu þarna í næsta nágrenni við foreldra mína; karlar sem voru með umsvifamikla rútubílaútgerð. Svo bjuggu Albert Guðmundsson og fjölskylda hans þarna rétt hjá okkur á Hraunteignum. Albert og pabbi voru góðir vinir og samherjar í íþróttastarfi og pólitík. Í kjallara húss á horni Kirkjuteigs og Reykjavegar var fundarsalur KFUM, þarna voru sparkvellir okkar strákanna og við enda Reykjavegarins gömlu sundlaugarnar. Athafnsvæðið var því stórt og alltaf næg verkefni. Í hverju húsi var fjöldi krakka og fyrir vikið er þetta skemmtilegt hverfi sem ég á góðar minningar um.“

sbs@mbl.is