„Við gáfum skýrslurnar út í dag vegna þess að nú er sumarið gengið í garð og þá er mesta umferðin,“ segir Ágúst Mogensen, en hann er forstöðumaður rannsóknarnefndar umferðarslysa.

„Við gáfum skýrslurnar út í dag vegna þess að nú er sumarið gengið í garð og þá er mesta umferðin,“ segir Ágúst Mogensen, en hann er forstöðumaður rannsóknarnefndar umferðarslysa.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa lauk nýverið rannsókn fimm banaslysa í umferðinni sem urðu árið 2011. Vegna slysanna telur nefndin mikilvægt að koma á framfæri varnaðarorðum í þeirri viðleitni að koma megi í veg fyrir sambærileg slys.

Flest umferðaslys eiga sér stað á sumrin hvort sem það eru banaslys eða umferðarslys. „Umferðin á vegum landsins er þyngst í kringum sumartímann og þá eiga sér stað flest banaslys,“ segir Ágúst, en hann segir skemmtanir í kringum sumarleyfi fólks vera sérstaklega hættulegar. „Fólk fer gjarnan í frí út á land á alls kyns útihátíðir og -skemmtanir. Þá sjáum við oft aukningu í ölvunarakstri og hraðaakstri,“ segir Ágúst, en hann segir helstu ástæður banaslysa vera höfuðhögg af völdum hraðaaksturs, ölvunaraksturs og þegar fólk noti ekki bílbeltin.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur í skýrslum sínum bent á mikilvægi þess að ökumenn forðist að ofstýra bifreiðum með þeim afleiðingum að þær velti. Þegar ökutæki veltur margfaldast líkur á alvarlegum meiðslum ökumanns og farþega. „Þegar bíll fer út af veginum þá er mikilvægast að halda honum á hjólunum,“ segir Ágúst og bætir við að þeir muni fjalla um slys þangað til að varnaðarorðin skili árangri. pfe@mbl.is

Umferðarslys
» Rannsóknarnefnd umferðaslysa segir að ölvunarakstur og þreyta séu meðal helstu orsaka banaslysa í umferðinni.
» Áfengisneysla, jafnvel í litlum mæli í bland við ónógan svefn, skerðir ökuhæfni verulega og getur leitt til þess að ökumenn sofni undir stýri.
» Afar brýnt er að ökumenn forðist að aka þreyttir, auk þess sem rannsóknarnefndin ítrekar að akstur undir áhrifum áfengis er óheimill.
» Of mörg dæmi eru um slys þar sem akstur eftir áfengisdrykkju og vökur enda með útafakstri.