— Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is „Það er vel gerlegt að sjöfalda fiskeldi á Íslandi í 50.000 tonn fram til ársins 2025 ef viljinn er fyrir hendi. Aðstæður á Íslandi eru um margt ákjósanlegar fyrir eldi og hér er til dæmis nóg af hreinu...

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Það er vel gerlegt að sjöfalda fiskeldi á Íslandi í 50.000 tonn fram til ársins 2025 ef viljinn er fyrir hendi. Aðstæður á Íslandi eru um margt ákjósanlegar fyrir eldi og hér er til dæmis nóg af hreinu vatni. Það lítur út fyrir að 7.400 tonnum af eldisfiski verði slátrað í ár og að verðmætið verði allt að sex milljarðar króna. Með því að auka eldið í 50.000 tonn erum við því að tala um verðmæti upp á 40 milljarða króna á ári,“ segir Guðbergur Rúnarsson, framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva, um sóknarfæri í fiskeldi á Íslandi á næstu áratugum.

„Með hægum vexti væri síðan hægt að fara í 100.000 tonna ársframleiðslu um miðja þessa öld. Rætt er um að 250 tonn kalli á eitt starf og myndi slík framleiðsla því skapa 400 bein störf auk fjölda afleiddra starfa. Miðað við verðin í dag yrði verðmæti 100.000 tonna um 80 milljarðar. Þessar tölur kunna að virðast háar en raunin er að við yrðum alltaf pínulitlir á markaðnum. Árið 2025 hyggja Norðmenn á 2,7 milljóna tonna ársframleiðslu og framleiða nú milljón tonn af eldisfiski. Annað dæmi er að Skotar framleiða um 180.000 tonn. Ísland verður alltaf dvergur á markaði þar sem áherslan verður sú að komast með góða vöru inn á dýrustu markaðina.“

Laxeldið vex hraðast

Spurður hvaða eldistegundir séu að vaxa hratt segir Guðbergur að aukningin sé mest í laxi.

„Framleiðslan var rúmlega 1.100 tonn 2011. Við reiknum með að hún fari í 3.300-3.400 tonn á þessu ári og haldi áfram að aukast á næstu árum. Vestfirðir þykja ákjósanlegir fyrir laxeldi. Það er þegar hafið í Tálknafirði og Arnarfirði og seiði verða sett út í Patreksfirði í sumar.

Þá er hægfara aukning í bleikju. Þar eru ný fyrirtæki að koma inn á markaðinn, til dæmis Matorka með bleikjueldi í Fellsmúla og Galtalæk. Eldi á regnbogasilungi mun einnig aukast á næstu árum; eldið í Dýrafirði hefur aukist hægt og bítandi. Lúðan er hins vegar að hverfa úr eldi og sandhverfan gefur aðeins um 30 tonn í ár. Þorskurinn er líka að dragast saman. Svo er að koma nýtt fyrirtæki, Stolt Seafarm, með silungaflúru. Þar er rætt um 2.000 tonna eldi. Loks má nefna að Matorka hyggur á borraeldi í stórum stíl en það er komið skemmra á veg.“

Fiskeldi hefur sem kunnugt er gengið í gegnum miklar sveiflur á undanförnum áratugum.

Guðbergur segir að menn hafi lært af mistökum og horfi nú fullir bjartsýni til þeirra fjölmörgu sóknarfæra sem við blasi. Við bleikjueldi sé til dæmis notast við lindarvatn þannig að líkur á sjúkdómum eru lágmarkaðar. Þar sé á ferð lítt þekkt tegund sem þurfi að kynna betur samfara aukinni framleiðslu.

Þurfa góða markaðssetningu

Sjöfn Sigurgísladóttir, einn stofnenda Matorku, telur að fiskeldi geti náð jafnstöðu við sjávarútveginn.

„Með réttum skilyrðum og góðum stuðningi er vel hægt að byggja upp atvinnugrein sem getur með tíð og tíma orðið jafn stór og sjávarútvegurinn. Álið og sjávarútvegurinn velta yfir 200 milljörðum hvor fyrir sig. Fiskeldi gæti skilað jafn miklu.

Þetta kann að hljóma óraunhæft en ég tel hins vegar að þetta sé fyllilega raunhæft markmið. Við flytjum orðið út bleikju í hverri viku sem sýnir að það er ekkert vandamál að auka framleiðsluna á Íslandi.

Þetta strandar á skorti á markaðssetningu og kynningu á íslenskum vörum erlendis. Líklega er meira fé varið í að kynna íslenskar landbúnaðarvörur en sjávarafurðir erlendis. Sóknarfærin eru gríðarleg, m.a. í stórborgum Asíu þar sem kaupmáttur eykst og efnafólki fjölgar hratt.

Eftirspurnin eftir fiski eykst hraðar en framboðið og því hlýtur til lengri tíma litið að vera markaður fyrir íslenskan eldisfisk. Það verður skortur á matvælum. Það er skortur á vatni og það er eitthvað sem við Íslendingar eigum mikið af auk lands og jarðhita,“ segir Sjöfn og bætir því við að áformin kalli á bættar samgöngur. Hún segir ótímabært að ræða áform Matorku um stórfellda framleiðslu á borra. Þau séu í vinnslu.

Nær ekkert flutt út af eldisfiski til Kína

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Mér vitanlega er lítið sem ekkert flutt út af eldisfiski til Kína. Útflutningur á öðrum sjávarafurðum til Kína er hins vegar vaxandi. Þar ber makrílinn hæst. Svo fer þangað orðið stöðugt meira af öðrum tegundum, allt frá kuðungum og upp í þorsk,“ segir Lúðvík Börkur Jónsson, framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Berghóls, aðspurður um eftirspurn Kínverja eftir íslensku sjávarfangi.

Færeyingar horfa til Kína

Tilefni spurningarinnar er stóraukinn útflutningur Færeyinga á eldislaxi til Kína en eins og rakið var í Morgunblaðinu í gær er hann m.a. tilkominn vegna þess að Kínverjar vildu refsa Noregsstjórn fyrir að heimila að kínverskur andófsmaður fengi friðarverðlaun Nóbels með því að sneiða hjá norskum eldislaxi.

Stefnir í að verðmæti útflutnings Bakkafrosts, stærsta fiskeldisfyrirtækis Færeyja, á eldislaxi til Kína í ár verði ríflega 4 milljarðar króna.

Lúðvík Börkur segir að enn sem komið er bendi ekkert til að slíkur útflutningur sé að hefjast frá Íslandi til þessa fjölmennasta ríkis heims.

„Okkar langstærstu markaðir eru í Evrópu og Bandaríkjunum. Evrópa er alltaf stærsti markaðurinn fyrir eldisfisk frá Íslandi og Noregi,“ segir Lúðvík og tekur fram að áform um umfangsmikið eldi hlýsjávartegunda með jarðhitavatni á Íslandi byggi á nálægð við markaði í Evrópu enda eigi að selja fiskinn ferskan.